sunnudagur, 2. mars 2008

Darjeeling Limited

Eitthvað hefur letin í mér smitað út frá sér. Það hefur lítið verið bloggað síðustu vikurnar, meira að segja blogg-aðallinn hefur lítið gert. Síðan eru sumir sem hafa ekkert bloggað á þessari önn. Hvet ég menn til þess að bæta ráð sitt og skrifa um stuttmyndina sem er í bígerð, óskarinn, nýjar og gamlar bíómyndir, myndirnar sem eru sýndar í tímum o.s.frv.

Ein hugmynd: Skrifið um mynd sem þið viljið að sé sýnd í tíma. Reynið að sannfæra mig. Besta (röksemda)færslan leiðir til sýningar.

En þá að myndinni.
Ég hafði töluverðar væntingar en varð fyrir vonbrigðum. Wes Anderson er einstaklega skemmtilegur leikstjóri, og ég er mjög hrifinn af öllum myndunum sem komu á undan þessari, nema kannski Bottle Rocket, sem mér fannst svona miðlungsgóð. Myndir hans sameina skemmtilegan stíl, nánast fullkomna tónlist og skemmtilegar offbeat persónur (nema Bottle Rocket sem skortir upp á stílinn).
Darjeeling Limited inniheldur sama stílinn. Hún er myndrænt mjög flott, notar liti og munstur skemmtilega og hefur að geyma hrikalega flott slow-mo skot. Tónlistin er frábær - fullkomin blanda af indverskri tónlist og poppi sem leggur línurnar og skapar stemningu.
En af hverju veldur myndin þá vonbrigðum? Það eru persónurnar. Aðalpersónur myndarinnar eru Whitman bræður. Þeir hafa ekki sést í heilt ár, síðan í jarðarför föður síns, og nú dregur elsti bróðirinn, Francis, hina tvo með sér í "andlega reisu" í Indlandi. Vandinn er að enginn bræðranna er nógu sterkur karakter til þess að halda áhuga manns, en uppbygging myndarinnar krefst þess. Þeir eru allir hálf litlausir og óspennandi, öfugt við burðarása fyrri mynda Andersons (Jason Schwartzman í Rushmore, Gene Hackman í Royal Tenenbaums og Bill Murray í Life Aquatic).
Fyrir vikið er myndin bragðlítið augna- og eyrnakonfekt, og maður býst við meiru frá Wes Anderson.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bjarki skrifar:

tss...miðað við kerfi Bensans þá er þessi færsla tops 3 stig eins og þú gefur. Þetta kerfi hans er gallað. Við erum að vaða úr öskunni í eldinn. Síðasta blogg hjá mér er kringum 400 orð, ég lagði mikinn tíma í það og bjóst við allavega 4 stigum en fæ bara 3. Þessi tvö stig (er færsla áhugaverð) sem er í raun huglægt mat þitt á í raun að vera gefin ef maður uppfyllir 350 orð og er með mynd. Alveg sama þó það sé mest væl og nöldur. En málið er að ég upplifið Taste of tea sem mjög langdregna og leiðinlega mynd svo það er ekki mikið annað hægt að skrifa en nöldur og væl um hvað hún var óspennandi. Ef ég fengi alltaf 3 stig þyrfti ég að gera 34 færslur í stað 30 eins og fyrir jól. Sem er fáránlegt. Upphaflegur tilgangur þess að breyta færslufjölda eða eiginlegum færslufjölda eins og þú orðar það var til að minnka álagið á okkur. Þetta hefur þveröfug áhrif á mig og ég verð bara pirraður...

Siggi Palli sagði...

Að hluta til réttmæt gagnrýni. Þessi færsla er vissulega langt frá því að vera fullkomin, og nokkuð víst að ég myndi aldrei gefa sjálfum mér meira en 4 stig fyrir hana.
Og vissulega eru áhugastigin huglæg, og vafalítið getur það litað dómgreind mína þegar ein af mínum uppáhaldsmyndum verður fyrir óvæginni gagnrýni. En er virkilega svo slæmt að hafa huglægan þátt í fyrirgjöfinni?
Og hvað Taste of Tea færsluna snertir, þá hefði ég líkast til gefið fleiri stig ef gagnrýnin hefði verið betur rökstudd og markvissari. Það sér það hver maður að myndin er hæg og að uppbyggingin er óhefðbundin (og e.t.v. ómarkviss). En er hægt að setja samasem merki milli hægrar eða óþarflega langrar myndar og lélegrar myndar. Ef svo er þá eru LOTR myndirnar hundlélegar (og raunar leiddist mér mun meir á köflum yfir þeim en nokkurn tímann yfir Taste of Tea).
Loks er algjör misskilningur að halda að kerfisbreytingarnar hafi verið gerðar til þess að létta á ykkur álaginu. Umræðan sem skapaðist í kringum þær fannst mér sýna að þeir sem á annað borð hefðu metnað fyrir námskeiðinu ætti ekki að eiga í vandræðum með að skrifa 30 færslur (eða samanlagt 100 stig af færslum) á hvorri önn. Vissulega eru tímafrek verkefni inn á milli, en á móti kemur að það er nánast enginn skyldulestur, þ.a. þið eruð að fá nokkuð ódýrar 6 einingar miðað við mörg önnur fög.
Kerfisbreytingin var gerð til þess að jafna áhersluna á magn og gæði. Í stað þess að menn fengju sömu einkunn fyrir að gubba út úr sér 30 ofureinföldum lágmarksfærslum og fyrir 30 metnaðarfullar og skemmtilegar færslur, þá á einkunnagjöfin nú að vera í meira samræmi við vinnuframlag, og þ.a.l. réttlátari.
Þó svo að umræðan hafi skapast í kringum þá hugmynd að létta á ykkur álaginu, þá var það alls ekki niðurstaðan.

Nafnlaus sagði...

Bjarki skrifa:

Já tölum aðeins um þetta vinnuframlag... Ég eyddi 3-4 tímum í þessa færslu og átti mjög erfitt með að skrifa nokkurn hlut. En ég hélt mér við efnið og skrifaði það sem mér fannst, án þess að vita hvað þér þætti um hana (vissi það ekki fyrr en löngu eftir að ég skrifaði færsluna). Mér finnst það helvíti hart eftir að hafa lagt mikla vinnu í hana og ég tek fram METNAÐ að ég fái aðeins 3 stig fyrir. Þessi færsla og aðrar á undan sýna að ég hef augljósan metnað fyrir faginu og ég er ósáttur við það að það sé hægt að dæma þessa og þessa færslu algjörlega ZERO áhugaverða. Þegar ég ræddi við Bensann þá sagði hann að þessi áhugastig ættu að vera nánast gefins svo það ætti ekki að vera mikið mál að fá 5 stig og þar af leiðandi aðeins 20 færslur... Með þessum 2 stigum sem þú færð að gefa eða ekki færðu það vald til að ráða hvort við gerum 20 eða 34 færslur sem er mikil mismunun ef það byggist aðeins á þínu Mati. Eins og þú sagðir sjálfur þá var ég að rakka niður eina af þínum uppáhaldsmyndum sem hefur áhrif á dómgreind þína, eiga kennarar ekki að vera hlutlausir og gefa einkunn eftir metnaði og verki, ekki tæknilegu atriði eins og persónulegu mati á mynd? Mér finnst að það ætti að vera fullt hús stiga fyrir 350 orð og mynd (þ.e.a.s. 5 stig) svo þeir sem hafi metnað en eru ekki úberbloggarar geti notið sín líka... ekki einungis stjörnurnar.

ÉG FER FRAM Á ENDURKOSNINGU, SEM MUN FARA FRAM Í TÍMA EN EKKI HÉR Á VEFSÍÐUNNI.

Þá annaðhvort til að breyta aftur í gamla kerfið eða breyta því nýja þannig það séu fimm stig í pottinum fyrir 350 orð og mynd.

Siggi Palli sagði...

OK, nú finnst mér þú vera kominn á villigötur. Lítum aðeins á Taste of Tea færsluna:
1. Hún rétt skríður yfir 350 orða múrinn ef frá er talin copy-paste tilvitnun í grein á imdb.
2. Hún er yfirgengilega neikvæð.
3. Hún er einfaldlega ekki nógu vel rökstudd. Það er eins og þú sért að reyna að láta myndina falla að klassísku plotti þar sem hver sena færir söguna áfram að einhverjum endalokum, þegar myndin er alls ekki þannig uppbyggð. Það má vera rétt að saga frændans um yakuza-drauginn sem elti hann um hafi ekki fleytt plottinu áfram, en er þar með sagt að hún hafi ekki tilgang? Og hvað er það sem réttlætir að myndir séu sýndar í kvikmyndafræði? Mér finnst fráleitt að varpa fram slíkri staðhæfingu án þess að velta um leið fyrir sér hvernig myndir það eru sem eiga að vera sýndar. Á að einskorða sýningar við myndir með hefðbundinni sögu-uppbyggingu? Væri það ekki frekar þröng sýn á kvikmyndalistina?

Það neyddi þig enginn til þess að skrifa um þessa mynd. Ef þú mættir í tímann, þá hefðirðu getað skrifað um einhverja aðra mynd. Ef þú mættir ekki hefðirðu getað skrifað lágmarksfærslu upp á 2-3 stig til þess að fá mætingu.
Og þetta snýst alls ekki bara um neikvæðni vs. jákvæðni. Ef við berum saman þessa færslu og færsluna um Funny Games (sem þú fékkst 5 stig fyrir), þá liggur munurinn aðallega í því að þú hafðir eitthvað að segja um Funny Games, og rökstuddir skoðun þína vel.

Í stuttu máli sagt þá get ég ekki fallist á rökstuðning þinn byggðan á þessari einu færslu þegar þú ert að fá 4-5 stig fyrir flestar hinar. Ef þú hefðir eytt sömu orku í að skrifa færslu og í þessar kvartanir þá værirðu búinn að vinna upp þetta eina stig sem þú telur mig hafa hlunnfarið þig um, og meira en það.

Ingólfur sagði...

Ég get ekki annað sagt en snilld, meistari, snilld. Og ég veit ég hef verið lélegur í blogginu undanfarið en það er nú aðallega vegna stuttmyndagerðarinnar og álags í skólanum og ég hef þess vegna ekki haft neitt að segja um bíómyndir í smá tíma. En þetta fer að koma inn...

Nafnlaus sagði...

Bjarki skrifar:

Villigötum, hvaða villigötum? Ég er að tala um metnað sem ég lagði í færsluna. Þetta kerfi var til að efla menn í blogginu, en það er meira letjandi en hvetjandi sem sést best á undanförnu bloggleysi hjá mönnum. Þeir sem eru slappir í blogginu verða ennþá slappari. Er ekki markmiðið að hvetja þá áfram? Það er ekki alveg að gera sig ef þeir þurfa síðan að blogga fleiri færslur en fyrir jól. Ég tala fyrir litla manninn sem lætur lítið í sér heyra, ekki einungis fyrir mig...

Skoðum aðeins taste of tea færsluna:

1.
364 orð. 364 orð sem ég gubbaði út úr mér eins og hæna með fjörfisk. En með copy/paste tilvitnun 446 orð. Þó þetta sé copy/paste tilvitnun þá er færslan ekkert verri fyrir vikið, ég tek það skýrt og greinilega fram að hún er af IMDB og í öllum ritgerðum og stílum væri það algjörlega liðið.

2.
Ef þetta snýst ekki um neikvæðni vs. jákvæðni afhverju segiru það sem ástæðu í skýringu 2. Bloggið hefur sínar lægðir og sínar hæðir, í þetta skiptið gat ég ekki sagt neitt gott um þessa mynd. Það er engin neikvæðni fyrir mér, heldur minn sannleikur. Ég horfði á myndina með hlutlausum augum og þetta var útkoman.

3.
Ég sé ekki betur en ég rökstyðji mál mitt þokkalega. Ég kem með dæmi og útskýri þau. Það hvort hann rökstuðningurinn er góður eða ekki er huglægt og aftur komum við að þessum 2ja punkta áhugastigum (er það alveg ok?).

4.
Auðvitað neyddi mig enginn til að horfa á þessa mynd en sem hluti af því sem við horfðum á þá fannst mér það vera skylda mín að blogga um hana. Hver má hafa sínar skoðanir. En mér finnst rangt að lækka menn í einkunn fyrir þær, sem er það sem málið snýst um, er þaggi? Ég nenni ekki að quote-a aftur í þig en þú veist hvað þú sagðir sjálfur.


Ég vil ekki vinna mig upp á annarri færslu þegar ég á skilið fleiri stig fyrir þessa.


Tilfinningarnar hlupu með þig í gönur vegna þess sem ég sagði um Taste of tea (enn engin breyting þrátt fyrir játningu). Ég biðst afsökunar á þeim orðum og að hafa móðgað þig ef svo er. En satt að segja er ég hálfmóðgaður sjálfur. Með því að gefa mér aðeins 3 stig ertu að segja að færslan mín sé algjörlega áhugaverðalaus.


Síðast en ekki síst þá er ég nokk ósáttur með þetta stigakerfi. Ég efa að kosningarnar hér á síðunni hafi sýnt sannan vilja bekkjarins. Það hefur komið í ljós að kosningakerfið er ekki að standa sig t.d. svindlið hjá mér sem ég hef játað góðfúslega og útskýrt. Ég bið því um endurkosningu og ef útkoman er sú að halda í núverandi kerfi þá skal ég þegja og taka þetta kerfi upp í óæðri endann, ekki fyrr...

Siggi Palli sagði...

Ég nenni ekki að rífast meira um þessa færslu. Ég er búinn að lesa hana nokkrum sinnum yfir, og stend fast á mínu.
Varðandi áhugastigin þá túlka ég þau þannig að meðalgóð til góð færsla fái eitt stig, og að tvö stig séu geymd fyrir framúrskarandi góðar færslur (færslan hans Björns um Killer of Sheep fékk t.d. tvö áhugastig). Fyrsta áhugastigið er ekki sjálfgefið og á ekki að vera það.

Varðandi hugsanlega endurkosningu þá þvertek ég fyrir slíkt. Ég er sannfærður um að á heildina litið sé þetta kerfi sanngjarnara en að telja bara hversu margar færslur menn eru með, burtséð frá því hvort það séu 1-2 færslur þar sem huglægt mat mitt stangast á við skoðun höfundar.
Bara svo að það sé á hreinu þá er nánast útilokað að nokkur maður þurfi að skrifa fleiri færslur en á haustönn. Til þess þyrfti hann að skrifa færslur sem eru upp til hópa stuttar, óskreyttar og óáhugaverðar. Þótt ein og ein færsla detti niður fyrir fjögur stigin, þá eiga menn að taka því sem hvatningu til þess að gera betur næst. Ef færslur manna eru almennt séð undir fjórum stigum, þá er það merki um að þeir verði að bæta sig aðeins, eða þá skrifa 30 færslur.

Nafnlaus sagði...

Bjarki skrifar:

Hneyksli, skandall... pjúra baraismi!!! Hvað varð um lýðræðið?

Nafnlaus sagði...

*barbarismi

Jón sagði...

Hvað varð um lýðræðið?

Auðvitað spyr Bjarki að þessu...

Bóbó sagði...

Ég segji nú frekar hvað varð um það að kennari ákveði sjálfur hvernig hann gefur fyrir námskeiðið sitt? Síðan hvenar hefur það viðgengist að nemendur geti skitið yfir einkunnakerfið í námskeiði og komist upp með það? Ég held að menn ættu bara að prísa sig sæla með að halda þeim fáu stigum sem þeir fá ef þetta er viðmótið.

Árni Þór Árnason sagði...

Mér finnst þetta alveg ótrúlegt. Það er eins og það hafi einhver 12 eða 13 ára kjaftfor úlli villst inn á síðuna og byrjað að rífa sig.

Bjarki, ímyndaðu þér ef þú hefðir notað þessi 4138 orð, sem þú notaðir í að væla og drulla yfir SP, í að búa til... segjum fjórar 1000 orða súperfærslur!

Ímyndaðu þér hvað þú hefðir verið betur settur. Værir kominn 4 færslum nær takmarkinu og ekki búinn að fá kennarann upp á móti þér!