þriðjudagur, 25. mars 2008

Góð helgi fyrir leikið innlent efni

Á páskadag og annan í páskum var sannkölluð góssentíð hvað leikið innlent efni varðar. Á Sirkus (eða hvað sem sú stöð heitir nú) var Pressu-maraþon, þar sem þáttunum sex var dreift yfir bæði kvöldin, og í Sjónvarpinu var Foreldrar sýnd á sunnudagskvöldið og á mánudagskvöldið var fyrsti þáttur af fjórum sýndur í nýrri spennuþáttaröð, Mannaveiðum. Ég sá eins mikið af þessu og hægt var (þurfti að fórna 4. þætti af Pressu fyrir Mannaveiðar), og verð að segja að mér sýnist staðan á leiknu innlendu efni ansi góð.
Sú var ekki alltaf raunin. Haustið 1999 fór ég á helgarlangt námskeið um gerð sjónvarpsþáttaraða sem Leikskáldafélag Íslands stóð fyrir ásamt höfundum dönsku þáttanna Taxa. Þó svo að efni námskeiðsins hafi verið mjög áhugavert og námskeiðið lærdómsríkt, þá man ég helst eftir því vonleysi sem ríkti í hópnum. Þarna var samankominn hópur manna sem hafði áhuga á og metnað til þess að skrifa leikið íslenskt sjónvarpsefni en gerði sér nánast engar vonar um að koma nokkru slíku í framleiðslu næstu árin. Þetta var á þeim tíma þegar Stöð2 var á vonarvöl og Sjónvarpið hellti öllu því fé sem átti að fara í innlenda dagskrá í skemmtiþætti. Þetta árið minnir mig að það hafi verið arfaslaki unglingaþátturinn Kolkrabbinn sem tók upp stóran hluta fjárins. Árið eftir (eða sama ár?) tókst Sjónvarpinu að klára allt féð í innlenda dagskrá það árið í mars eða apríl. (Staðan hjá Sjónvarpinu hefur reyndar lítið batnað, þeir ausa enn peningum í metnaðarlaust drasl eins og Laugardagslögin og Útsvar. Við getum þakkað eldri Björgólfinum það að eitthvað verði framleitt af leiknu innlendu efni fyrir þá næstu árin.) Á þessum tíma var bókstaflega ekki útlit fyrir að það yrði framleitt leikið innlent efni næstu áratugina. Sem betur fer virðist það vera breytt.
Það er gaman að minnast á það að tveir menn sem ég man eftir að voru á þessu námskeiði hafa verið virkir í gerð sjónvarpsefnisins sem sýnt hefur verið í vetur - þeir Sigurjón Kjartansson, sem er einn af mönnunum á bak við Pressu, og Jón Gnarr, leikari og meðhöfundur að Næturvaktinni.

Pressa
Þar sem ég tími ekki að borga þær fáránlegu upphæðir sem áskrift að Stöð2 kostar, þá missti ég af þessum þegar þeir voru frumsýndir í haust. Ég náði megninu af þeim nú um helgina og leist bara ansi vel á. Þeir ná að skapa ágæta stemningu og sæmilega spennu. Aðalpersónan, Lára, var ansi sympatísk, og taktískt að láta aðalpersónuna vera einhvern sem kemur nýr inn í þetta framandi umhverfi og kynnist því samtímis okkur áhorfendunum.
Þættirnir héldu athygli manns og gerðu vel í að halda yfirleitt alltaf nokkrum söguþráðum á lofti í einu, nema í lokin þegar aðalsöguþráðurinn er auðvitað aðalmálið. Þessi færsla á að vera jákvæðu nótunum, þannig að ég ætla ekkert að tala um smáatriðin sem fóru örugglega ekki í taugarnar á neinum nema mér, og láta nægja eina smá-gagnrýni. Seinasti þátturinn var frekar sléttur og felldur - mér fannst hann eiginlega allur fara í að binda einhverja hnúta og það var ekki beint mikil spenna í gangi eftir að Láru var bjargað strax í upphafi þáttar. "Cliffhangerinn" í lok 5. þáttar var reyndar gott "touch", en um leið kom hann upp um vonda kallinn u.þ.b. hálfum þætti of snemma - það getur varla nokkur hafa efast um hver morðinginn var í lok 5. þáttar.
Allt í allt ansi fínir þættir. Svo sem engin gargandi snilld, en vandaðir og spennandi þættir sem sóma sér vel á skjánum...

Mannaveiðar
Það er auðvitað ekki hægt að dæma þessa þáttaröð eftir einn þátt, en það má svo sem tala um þennan eina þátt. Mér leist bara mjög vel á þennan þátt og bíð spenntur eftir þeim næsta.
Að vissu leyti er þetta auðvitað bara sama gamla. Manni sýnist í fljótu bragði þættirnir ætla að sverja sig í ætt við sænska félagslega raunsæið (mig minnir að þeir kalli það það), eins og Allir litir hafsins eru kaldir gerði (og e.t.v. Pressa líka). Lúkkið rennir enn frekari stoðum undir það - það er svolítið skrýtið að það hafi myndast þessi hefð að þegar menn ætla að vera rosalega raunsæir þá sýni þeir allt í gegnum filter sem dregur úr litunum og gerir þá kaldari.
Upphafssenan (morðið) fannst mér bara nokkuð vel heppnuð. Þá fannst mér dýnamíkin milli lögreglumannanna tveggja (Hinriks og Gunnars) nokkuð skemmtileg, þó hún sé kannski ekki sú allra frumlegasta. Hún minnti mig svolítið á Turner & Hooch (man einhver eftir þeirri þvælu), með Gísla Örn í hlutverki Tom Hanks og Ólaf Darra í hlutverki hundsins... Og svo leiðir þessa dýnamík auðvitað líka til línu þáttanna hingað til: "Ég verð alltaf svangur þegar ég sé Borgarnes."
Ef það var eitthvað sem fór nett í taugarnar á mér í þessum fyrsta þætti þá var það hvað þeim lá mikið á að veita persónunum dýpt og persónueinkenni. Það lá við að það væri hálf-þvingað hvað þeir ætluðu að troða mikilli kynningu á persónum saman við upphafið á fléttunni. Hefði ekki mátt dreifa þessu yfir nokkra þætti. Það liggur við að allir sem hafi verið kynntir til sögunnar hafi einhver áberandi einkenni, og smáatriðunum er hlaðið á aðalpersónurnar. Einhvern vegin finnst mér minna "fínt" að skapa persónum með þessum hætti. Strax eftir fyrsta þáttinn vitum við að yfirmaður þeirra kumpána er að ganga í gegnum erfið sambandsslit; félagi þeirra (sem hefur nánast ekkert gert) tekur Dale Carnegie námskeið fram yfir morðmál; konan í tæknideildinni er svo forfallinn reykingamaður að hún fær að reykja inn á lögreglustöð: Gunnar er síétandi sóði, býr hjá þýskri mömmu sinni, er að gera upp gamalt mótorhjól og á (næstum örugglega) eftir að ná saman við dóttur bóndans sem er fyrst grunaður um morðið (sem nota bene var gift óvirkum alka, opnaði sjoppu, fór á hausinn...); og Hinrik er hræðilega tilfinningalega bældur, býr einn og er alltaf með slökkt inni hjá sér, er algjört "neat-freak", og var líkast til misnotaður sem barn. Í þeim efnum ætla ég líka að vona að þessi "flashbökk" hans Hinriks taki á sig einhvern viðsnúning, því ef þau fjalla um það að hann hafi orðið fyrir barðinu á barnaníðingi í æsku (og þess vegna sé hann svona bældur) þá hefði fyrsta "flashbakkið" verið nóg til þess að maður fattaði það. Mjög kúl effekt í "flashbökkunum" samt...
Ég vona að þessi "hleðsla" á persónum verði tónuð niður í næstu þáttum og plottið og dýnamíkin milli persóna fái að njóta sín (þó svo að kynning á persónum sé auðvitað lykilatriði til þess að svo megi verða). Ef sú verður raunin þá líst mér ansi hreint ágætlega á þessa þætti. Næstu þrjú sunnudagskvöld gætu orðið helvíti spennandi.
Og loks, sem dæmi um ágæti þessa fyrsta þáttar, þá þótti mér leiðinlegt að hann skyldi enda, og ef ég hefði haft næsta þátt hefði ég hiklaust haldið áfram að horfa.

6 ummæli:

Jón sagði...

Ó Siggi, systir Hinriks var augljóslega misnotuð en ekki hann og hann kennir sjálfum sér um það, þess vegna er hann lögga og þess vegna er hann svona bældur. Ætli hún hafi svo ekki framið sjálfsmorð eða hann drepið hana eða eitthvað svoleiðis og Hinrik nær að kenna sér líka um það...

Þetta er líklegast ástæðan fyrir því að flassbökkinn halda áfram, það eru ekki allir búnir að fatta ;).

Siggi Palli sagði...

Já. Mig hálf-grunar að það sé eitthvað svoleiðis - einhver flóknari útfærsla þar sem systirin gegnir lykilhlutverki, en þarf samt ekki að vera einhver gígantísk afhjúpun ef maður ætlar að nota þetta til þess að byggja upp spennu sem spannar marga þætti?

Unknown sagði...

Kannski aðeins út fyrir efnið en....

Það lítur út fyrir að við getum sýnt ykkur smá Teaser á mánudaginn
Alexander misstig sig aðeins í að klippa og kom svona skemmtilega út.

Bíðið spenntir ;)

Arnar sagði...

Smá meira út fyrir efnið. Ég bombaði inn færslu í dag, Siggi. Ég er kominn með 8 færslur frá áramótum og dauðlangar að sjá hvernig stigakerfið góða fer með þær.

-Arnar

Siggi Palli sagði...

Arnar.
Kíkti á nýju færsluna og renndi yfir þær gömlu. Gaf stig fyrir þær allar. Mér telst til að þú sért kominn með 38 stig á önninni.

Björn Brynjúlfur sagði...

Siggi: Gætirðu nokkuð gefið mér heildarstigatölu líka, svo ég viti hvað mikið vanti upp á?