sunnudagur, 29. mars 2009

Stuttmynd 2: Umsagnir

Hópur 1
Árni, Gísli, Ragnar og Steinar
Heimildamynd: Jóa á Háafelli
Ansi vel gerð mynd sem uppfyllti allar helstu kröfur. Hún var fróðleg og nokkuð gott flæði í henni. Greinilega meiri vinna lögð í hana en margar hinna.
9,5

Hópur 2
Anna, Birta, Breki, Íris, Kristján og Tryggvi
Mynd um Pólverja í Reykjavík.
Sumt ágætt í henni. Nokkur skemmtileg skot til dæmis, og ágætlega valin tónlist. Samt vantaði smá meiri metnað og vinnu í þetta.
7,0

Hópur 3
Gunnar, Ísak, Jóhann og Jóhanna
Heimildamynd um Jóa systemus.
Sumt ágætt. Miðað við stuttan klippitíma var þetta ágætlega gert, en ég hefði viljað sjá hana fullklippta. Nær samt alveg að skapa sæmilega frásögn, og gerir ágætlega í því að nota viðtalið við Jóa sem hálfgerðan sögumann í voice-over.
7,5

Hópur 4
Tómas, Pétur, Magnús og Anton
Ágæt örmynd. Erfitt að átta sig á pælingunni á bak við hana, en hún var skemmtilega klippt og myndaði skemmtileg hughrif með hraðri klippingunni og ofbeldisfullum innskotunum.
8,5

Hópur 5
Haraldur, Andri, Björn, Héðinn og Helga
Skiluðu mynd ALLT OF SEINT.
Myndin var að mörgu leyti ágæt. Skemmtilega útfært hlaupið, og kross-klippingin var fín. Endar svo á skemmtilegri afhjúpun.
En myndin kom samt löngu eftir lokafrest, og ég var búinn að hóta núlli, þannig að ég sé mér ekki fært að víkja frá því.
0,0

Dagskrá 13. viku, 30. mars - 3. apríl

Mánudagur 8.10-9.35
Kvikmyndasaga.
Evrópa til 1930. (sjá kafla 3 í A Short History of Film)
Byrjum kannski á Hollywood stúdíókerfinu fyrir stríð (kafla 4 í A Short History of Film).

Miðvikudagur 8.10-9.35
Kvikmyndasaga.
Hollywood stúdíókerfið fyrir stríð (kafli 4).
Evrópa framyfir stríð, í mjög stuttu máli (kafli 5).

Föstudagur
Ég ætla að leyfa ykkur að ráða hvort þessi tími verði að morgni eða um eftirmiðdegi.
Horfum á myndirnar ykkar.
Ef tími gefst til lítum við kannski á meiri kvikmyndasögu.

sunnudagur, 22. mars 2009

Dagskrá 12. viku, 23.-27. mars

Mánudagur 8.10-9.35
Kvikmyndasaga, 1895-1913
Lesið kafla 1 í A Short History of Film á Myschool (undir "Annað efni" og "Lesefni").

Miðvikudagur 8.10-9.35
Kvikmyndasaga 1914-1930
Lesið kafla 2 og 3 í A Short History of Film.

Föstudagur 14.55-16.45
Bíómynd vikunnar. Sjá kosningu.

KOSNING!!!

Kjósum um bíómynd vikunnar. Kjörseðlum verður að skila inn fyrir fimmtudagskvöld. Kjörorð Al Capone þegar kom að kosningum voru: "Vote early and vote often." Ég vona að þið sýnið drengskap og fylgið bara fyrri hlutanum...


Do The Right Thing
"It's the hottest day of summer. You can do nothing, you can do something, or you can..."
Leikstýrt af Spike Lee.
120 mínútur.
Þetta er myndin sem kom Spike Lee almennilega á kortið. Áður en þessi kom út var hann frægastur fyrir að leika í auglýsingum með Michael Jordan.
Það er heitasti dagur sumars á götu í Bedford-Stuyvesant hluta Brooklyn. Allir eru pirraðir. Það er bara spurning um hvenær sýður upp úr.
Spike Lee, John Torturro, Danny Aiello og Samuel L. Jackson eru allir góðir í þessari. Myndin sjálf er ansi góð, en dettur niður í soldið "preachy" tón á köflum (eins og margar myndir Spike Lee).

Standard Operating Procedure
"I wouldn't recommend a vacation to Iraq any time soon"
Leikstýrt af Errol Morris.
116 mínútur.
Heimildarmynd um Abu Ghraib ljósmyndahneykslið (þið vitið, ljósmyndirnar af föngunum sem verið var að pynta), frá Errol Morris, einum helsta heimildarmyndagerðarmanni síðustu 30 ára (og manninum sem fékk Werner Herzog til þess að éta skóinn sinn).
Ég er ekki búinn að sjá þessa.

Turtles Can Fly
Leikstýrt af Bahman Ghobadi.
98 mínútur.
Leikin mynd um kúrdíska flóttamenn á landamærunum milli Írak og Tyrklands. Kúrdar hafa verið hundeltir bæði af Tyrkjum og Írökum um áraraðir (Saddam prófaði efnavopn á þeim á sínum tíma). Myndin gerist skömmu fyrir innrás Bandaríkjamanna í Írak, og fjallar um kúrdísk börn og unglinga í flóttamannabúðum á landamærunum sem bíða og vona að innrásin hafi betri tíma í för með sér.
Ég veit að þetta hljómar ofurdramatískt, en mig grunar að myndin sé ekki alveg svo þung. Ég hef ekki séð þessa, en hef séð nokkrar aðrar eftir sama leikstjóra, og þær fjölluðu um alvarleg málefni en á léttum og skemmtilegum nótum. Ef þessi er eins, þá er húmor í henni (e.t.v. tragikómísk).

Amateur
"Accountancy, Murder, Amnesia, Torture, Ecstasy, Understanding, Redemption"
Leikstýrt af Hal Hartley.
105 mínútur.
Þegar ég var á ykkar aldri var Hal Hartley uppáhaldsleikstjórinn minn. Segir kannski meira um furðulegan kvikmyndasmekk minn en um leikstjórann sjálfan. Mig grunar að a.m.k. helmingi ykkar myndi finnast þessi mynd frekar mikið listrænt rúnk, en mér fannst hún einu sinni rosa góð (það eru orðin svona 6-7 ár síðan ég sá hana seinast).
Thomas er ljúfur, góður og með minnisleysi. Hann man ekki að hann var viðbjóðslegur skíthæll sem neyddi eiginkonu sína inn í klámbransann. Isabelle er fyrrverandi nunna sem vinnur fyrir sér með því að skrifa erótískar sögur á meðan hún bíður eftir merki frá Guði.

Encounters at the End of the World
Leikstýrt af Werner Herzog.
99 mínútur.
Gríðarlega falleg mynd um furðulega íbúa Suðurskautslandsins, bæði um sérvitra vísindamenn og skrýtin dýr.

El Dia de la bestia
"A devilishly dark comedy"
Leikstýrt af Alex de la Iglesia.
103 mínútur.
Bráðskemmtileg kolsvört kómedía um prest sem er sannfærður um að Antikristur sé á leiðinni. Til þess að geta nálgast Antikrist og tortímt honum verður presturinn að spillast, og byrjar því að gera alls konar slæma hluti...

Dead Man
"No one can survive becoming a legend"
Leikstýrt af Jim Jarmusch.
120 mínútur.
Falleg svart-hvít myndataka Robby Müllers, seyðandi gítar-riff Neil Young, svartur húmor, Johnny Depp og síðasta hlutverk Robert Mitchum (sem er minn uppáhaldsleikari). Þetta og margt fleira gerir þetta að einni af mínum uppáhaldsmyndum.
Johnny Depp er bókhaldari sem hefur fengið vinnu í námubæ í villta vestrinu. Þegar hann mætir á staðinn stendur vinnan honum ekki lengur til boða, þannig að hann er blankur og fastur á stað þar sem hann passar alls ekki inn. Síðan verður honum það á að drepa son mannsins sem á bæinn og þarf að leggja á flótta með hjálp indjánans Nobody.
Snilldarmynd.

Nobody Knows
Leikstýrt af Hirokazu Koreeda.
140 mínútur.
Besta myndin á RIFF 2006.
Myndin hefst á því að kona á þrítugsaldri og elsti sonur hennar smygla þremur yngri systkinum hans inn í íbúð fyrir tvo. Yngri börnin mega ekki fara út, því fjölskyldunni verður vísað úr íbúðinni ef það fattast að þar búa fleiri en tveir. Síðan hverfur móðirin, og þá þurfa börnin að sjá um sig sjálf.

Mad Detective
"I can see a person's inner personality."
Leikstýrt af Johnnie To.
89 mínútur.
Óreynd lögga vinnur með fyrrverandi löggu með yfirnáttúrulega hæfileika við það að elta uppi raðmorðingja. Vel gerð, hröð og skemmtileg spennumynd frá Hong Kong.

In the Mood for Love
"Feel the heat, keep the feeling burning, let the sensation explode."
Leikstýrt af Wong Kar-Wai.
98 mínútur.
Hæg, falleg og dáleiðandi mynd um nágranna í Hong Kong á 6. áratugnum sem eiga í ástarsambandi. Ótrúlega vel gerð og hiklaust með flottari myndum sem ég hef séð.

sunnudagur, 15. mars 2009

Dagskrá 11. viku, 16.-20. mars

Mánudagur 8.10-9.35
Ræðum ögn meira um klippingu.
Byrjum hugsanlega að ræða kvikmyndasögu.
Kristján, Tryggvi, Björn og Breki flytja vonandi sína fyrirlestra (enda á mörkum þess að falla á tíma).

Miðvikudagur 8.55-9.35
Kvikmyndasaga.

Föstudagur 14.55-16.45
Kvikmynd vikunnar. Enn óákveðin.
Pétur kom með þá tillögu að nú væri tími til kominn að við myndum horfa á blockbuster. Þar er ég ósammála. Þið hafið öll séð óteljandi blockbustera í gegnum tíðina, og það er einfaldlega lítið upp úr því að hafa að horfa á mynd sem a.m.k. helmingur ykkar hefur séð áður. Markmiðið með þessum bíósýningum er öðrum þræði það að víkka sjóndeildarhring ykkar, að sýna ykkur myndir sem þið hefðuð annars ekki séð og vonandi koma ykkur á bragðið með eitthvað annað megnasta meginstrauminn.

sunnudagur, 1. mars 2009

Dagskrá 9. viku, 2.-6. mars

Mánudagur 8.10-9.35
Fyrirlestrar.

Miðvikudagur 8.10-9.35
Fyrirlestrar.

Föstudagur
Fellur niður vegna fiðluballs.

sunnudagur, 22. febrúar 2009

Dagskrá 8. viku, 23.-27. feb

Mánudagur 8.10-9.35
Kaflar 15 og 17 í FDF.
Rýnt í Notorious og .

Miðvikudagur 8.55-9.35
Hugsanlega kafli 16 í FDF.
Rýnt í Truman Show.

Föstudagur 14.55-16.45
Bíómynd vikunnar.
Sångar från andra våningen (Songs from the Second Floor).
Kolbikasvört gamanmynd eftir Roy Andersson um þjóðfélag í viðjum djúprar kreppu. Snilldarmynd og á skemmtilega vel við núverandi ástand.
Ríkisstjórnin rýnir í kristalskúlu til þess að finna lausn á vandanum...

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Dagskrá 7. viku, 16.-20. febrúar

Mánudagur 8.10-9.35
FDF kafli 13. Hasarsenur.

Miðvikudagur 8.55-9.35
FDF kafli 14. "A Narrative scene".

Föstudagur 14.55-16.45
Bíómynd vikunnar. Óákveðin enn sem komið er.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Dagskrá 6. viku, 9.-11. feb

Mánudagur 8.10-9.35
FDF kaflar 7-9
Skoðum hvernig FDF setti upp A Piece of Apple Pie.

Miðvikudagur 8.10-9.35
Bíómynd vikunnar.
Happy End, tékknesk gamanmynd sem gerist öll afturábak.

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Dagskrá 5. viku, 2.-6. feb

Mánudagur 8.10-9.35
Verkefnatími. Tökum fyrir handritið A Piece of Apple Pie.
Þið fáið í hendurnar grunnflötinn að dænernum þar sem myndin á að gerast og handritið, og eigið svo að skipuleggja tökur á myndinni (sviðsetningu og uppsetningu myndavélar), á sama hátt og sýnt var í verandasenunni í Notorious.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Skoðum hvernig A Piece of Apple Pie er tekin fyrir í FDF.
Sjáum mynd máladeildarhópsins.

Föstudagur 14.55-16.30
Bíómynd vikunnar.
Þessa stundina hallast ég að Hold Up Down (Hôrudo appu daun) í leikstjórn Sabu. Þetta er nýleg japönsk gaman-hasarmynd sem ég held mikið upp á. Hún er alls ekki fullkomin, en á köflum er hún ótrúleg snilld.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Sólskinsdrengur og leikstjóraheimsókn

Sólskinsdrengur
Ég fór á þessa með frekar litlar væntingar. Fyrirfram hélt ég a.m.k. ekki að ég væri í miklu stuði fyrir heimildamynd um einhverfu, en hún kom skemmtilega á óvart. M.a. var ég ánægður með hversu gott jafnvægi myndin finnur milli fræða og tilfinninga.
Mér leist satt best að segja ekki á blikuna í upphafi myndar, þegar við sjáum einhverfa strákinn Kela óljóst í gegnum þoku (sem reynist vera gufan af Bláa lóninu) við undirspil Sigur rósar. Þá hélt ég að þetta yrði kannski algjört artfart, sem reyndist alls ekki raunin. Þegar ég lít yfir myndina eftir á finnst mér samt þessar sviðsettu senur frekar óspennandi, og kannski ekki beint bæta miklu við. Á hinn bóginn mætti auðvitað færa rök fyrir því að þessi sena hafi verið flott myndhverfing fyrir ástand Kela... Einnig hafði ég miklar áhyggjur af litunum í upphafi myndar, en það var eins og rauða litinn vantaði alfarið, síðan kom hann allt í einu. Það sama gerðist eftir hlé, þ.a. þetta hefur greinilega verið af völdum myndvarpans sem myndin var sýnd af (held ég), greinilegt að hann var eitthvað lélegur og sýndi bara ekkert rauðan lit fyrr en hann var orðinn heitur. Þetta fannst mér mjög truflandi fyrst, því þá vissi ég auðvitað ekki hvort um væri að ræða bilun eða virkilega furðulega listræna ákvörðun...
Heilt yfir var þetta mjög góð mynd. Margrét, móðir Kela, tekur áhorfandann með sér í leit að eitthverju sem gæti hjálpað Kela eða hjálpað henni að ná sambandi við Kela. Um leið kynnumst við sögu Kela, sem grét stanslaust og svaf lítið sem ekkert fyrstu 3-4 árin og greindist fyrst með einhverfu fjögurra ára gamall. Margrét hleypir okkur ansi nálægt sér án þess þó að þetta snúist upp í eitthvað tilfinningaklám, og við finnum oft að þrátt fyrir mikinn styrk og harðfylgni þá er hún líka leið yfir því hversu lítið hún hefur getað gert fyrir Kela og hversu litla hjálp hún hefur fengið á Íslandi.
Efni myndarinnar er þríþætt. Hún fræðir áhorfandann um einhverfu, skoðar hin ýmsu meðferðarúrræði sem boðið er upp á út um allan heim (samt mest í Bandaríkjunum) og loks fjallar hún um Kela, en sá þáttur myndarinnar er eðlilega sá persónulegasti. Mér þótti sérstaklega áhugavert viðtalið við Temple Grandin, einhverfa búfræðinginn sem hafði unnið sig út úr einhverfunni með hjálp móður sinnar - bæði hafði hún margt mjög athyglisvert að segja, og svo var hún líka bara mjög skemmtilegur karakter. Eins var mögnuð senan þegar Keli fór að tjá sig hjá indversku konunni, Somu. Ég varð bara næstum því klökkur þegar hann sagðist vilja læra á píanó og að hann væri alltaf að semja tónlist í höfðinu. Það var vægast sagt mögnuð sena.
Senurnar með Somu vöktu samt upp nokkrar spurningar. Ég veit að þetta á eftir að hljóma ótrúlega kalt, en ég fékk stundum á tilfinninguna að það væri kannski ekki allt að gerast sem virtist vera að gerast. Það sem ég á við er að í mörgum tilvikum, sérstaklega senunni þar sem hún fær Kela til þess að "tjá sig" í fyrsta skiptið, þá gæti hún hæglega stýrt þessu sjálf. Stundum fannst mér hún t.d. stýra réttu bókstöfunum á bókstafatöflunni að blýantinum sem hann hélt á frekað en að hann hefði stýrt blýantinum. Þegar ég lít á heildarmyndina, þ.e. árangurinn sem önnur einhverf börn hafa náð hjá henni, þá sé ég að þetta er væntanlega ekki raunin, en mér fannst samt eitthvað ekki alveg sannfærandi við þessar senur.

Heimsókn Friðriks
Mér fannst heimsókn Friðriks bara nokkuð vel heppnuð. Hann hafði frá mörgu að segja og það var greinilegt að þessi mynd var honum mikið hjartans mál. Það hafði hins vegar í för með sér bæði kosti og galla, því á þessum klukkutíma talaði Friðrik talsvert meira um einhverfu en kvikmyndir. Það er í sjálfu sér eðlilegt að hann hafi áhuga á einhverfu og margt um hana að segja eftir að hafa unnið sleitulaust að þessu verkefni undanfarin 2-3 ár, og eins held ég að myndin hafi vakið áhuga flestra á viðfangsefninu. Hins vegar er svolítil synd að þegar maður fær einn reyndasta leikstjóra Íslands í heimsókn, að hann skuli þá ekki tala meira um kvikmyndir. Ég hefði helst viljað hafa hann í klukkutíma í viðbót að tala bara um kvikmyndagerð og kvikmyndir almennt, enda hefur hann mörgu að miðla í þeim efnum.
Það voru nokkur atriði í máli Friðriks sem mér fannst sérstaklega áhugaverð. Í fyrsta lagi var mjög áhugavert að heyra að Margrét, mamma Kela, hefði fyrst viljað gera þurra fræðslumynd um einhverfu þar sem hún og Keli kæmu ekkert fram. Þetta sýnir okkur hvað það er hægt að gera mismunandi myndir um sama efnið, og hvað hver einasta ákvörðun skiptir miklu máli. Ég held það sé ekki nokkur spurning að myndin hefði verið margfalt síðri ef Friðrik hefði farið í einu og öllu eftir þessum hugmyndum Margrétar. Sú mynd hefði a.m.k. ekki náð til nærri því eins margra.
Það var líka áhugavert að heyra um vinnslu myndarinnar. Friðrik tók upp mörg hundruð klukkustundir (ég man ekki töluna, fleiri en 400), og sagðist hafa klippt sex klukkustunda grófklipp sem svínvirkaði þrátt fyrir lengdina (það er spurning hvort það sé ekki markaður fyrir slíkt, t.d. í sjónvarpi). Eins var greinilegt á máli hans að hann þurfti að klippa út heilmikið af virkilega góðu efni, sem hann oft dauðsá eftir.
Í lok tímans talaði hann aðeins um kvikmyndagerð á Íslandi og almennt. Hann sagði m.a. að aðalástæðan fyrir því að hann hefði aldrei farið til Hollywood var sú að þar hefði hann aldrei fengið að stjórna loka-afurðinni, þ.e. fengið "final cut". Einnig sagði hann að hlutirnir hefðu svo sem ekki breyst svo rosalega frá því að hann hóf ferilinn. Stafræna tæknin gerði mönnum kleift að gera ákveðnar tegundir af myndum á mun ódýrari hátt (sérstaklega samtímamyndir), en á sama tíma hefði umhverfið breyst á þann veg að nú væri nánast ógjörningur að gera períóðu-myndir (eins og Djöflaeyjuna eða Bíódaga) vegna þess hve mikið þær myndu kosta (hann talaði um að períóðumynd eins og Djöflaeyjan, þar sem menn þyrftu að byrja að byggja sviðsmyndir ári áður en tökur hæfust, myndu kosta milljarð í dag).
Í blálokin talaði hann aðeins um möguleikana sem stafræna tæknin veitir fólki, þ.e. að það getur nánast hver sem er gert bíómyndir nú til dags, og m.a. nefndi hann draum Coppola (var það ekki örugglega Coppola) um feitu táningsstúlkuna í Iowa sem tekur upp snilldarverk á camcorderinn sinn.

Dagskrá 4. viku, 26.-30. janúar

Mánudagur 8.10-9.35
Kaflar 5 og 6 í FDF.

Miðvikudagur 8.55-9-35
FDF. Hugsanlega byrjum við á kafla 7 í þessum tíma.

Föstudagur, annað hvort 8.10-9.35 eða 14.55-?
Þið sýnið myndirnar ykkar.

sunnudagur, 18. janúar 2009

Dagskrá 3. viku, 19.-24. janúar

Mánudagur 8.10-9.35
Film Directing Fundamentals, kaflar 1-6.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Film Directing Fundamentals
, kaflar 1-6, frh.

Föstudagur 14.55-16:35
Bíómynd vikunnar: Notorious í leikstjórn Alfred Hitchcock.

sunnudagur, 11. janúar 2009

Dagskrá 2. viku, 12.-16. janúar

Sunnudagur 11. janúar, kl. 15.00 í Háskólabíó
Sólskinsdrengur, heimildamynd eftir Friðrik Þór Friðriksson.
(mér finnst soldið seint að breyta tímanum núna, þ.a. ég held mig við þrjú-sýninguna og vona að einhverjir láti sjá sig).

Mánudagur 8.10-9.35
Ljúkum við handritahlutann í heftinu. Förum í kafla 7, og svo á hundavaði yfir restina af handritahlutanum.
Byrjum hugsanlega á Film Directing Fundamentals, köflum 1 og 2.

Miðvikudagur 8.25-9.35
Fáum Friðrik Þór í heimsókn.
Allir tilbúnir með 2-3 spurningar.
Bannað að mæta seint.

Seinni fyrirlesturinn

Ég hafði hugsað mér að hafa seinni fyrirlesturinn um minna þekkta samtímaleikstjóra - sem sagt leikstjóra sem þið hafið ekkert endilega séð fullt af myndum eftir. "Samtíma-" er frekar opið, í mínum huga eru það þeir sem hafa gert sínar bestu myndir eftir 1970, helst einhverjir sem eru enn að gera bíómyndir.
Ef ykkur langar til þess að taka aðra nálgun á verkefnið, t.d. kynna ykkur ákveðna kvikmyndastefnu eða kvikmyndir einhvers þjóðlands (Bollywood-myndir anyone?) þá er ég opinn fyrir því.
Um leið og ég bjó til listann fyrir fyrri fyrirlesturinn gerði ég smá brainstorming fyrir seinni listann. Ég ætla að sýna ykkur afraksturinn til þess að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig leikstjóra ég hafði hugsað mér að hafa í þessu. Listinn á eftir að breytast og er heldur ekki bindandi.
Komið endilega með tillögur að fleiri leikstjórum!

Christopher Guest
Konungur mockumentary-myndanna. Engin gerir þær betur en hann. Hann skrifaði og lék í This is Spinal Tap og leikstýrði m.a. Waiting for Guffman og For Your Consideration.

David Lynch
Kannski svolítið of þekktur fyrir þennan lista, en það er ekki eins og hann sé eitthvað rosalega aðgengilegur. Algjör snillingur (að mínu mati). Twin Peaks og On the Air eru ofarlega á mínum topp-10 lista yfir bestu sjónvarpsþætti, og Blue Velvet, Mulholland Drive, Lost Highway eru allar snilld, og ég hafði lúmskt gaman af Dune og Inland Empire.

Ki-Duk Kim
Veit ekki svo mikið um þennan. Suður-Kóreskur, gerir fallegar, hægar myndir eins og t.d. Spring, Summer, Fall, Winter ... and Spring.

Errol Morris
Einhver áhrifamesti heimildarmyndagerðarmaður seinni tíma.

Hal Hartley
Var konungur indí-myndanna í kringum 1997 (og var þá uppáhaldsleikstjórinn minn), en stjarna hans hefur dalað talsvert síðan. Hann afrekaði meðal annars að taka upp mynd á Íslandi, sem var reyndar ekki mjög góð.

Michael Haneke
Ég hef heyrt fólk segja hann vera besta núlifandi leikstjórann. Sel það ekki dýrara... en hann er ansi góður. Caché vakti mikla athygli 2005. Upprunalega Funny Games er ansi öflug þótt hún sé ekki skemmtileg áhorfs.

Werner Herzog
Svona á mörkum þess að teljast samtímaleikstjóri. Hann er samt enn að gera myndir, og gerði núna seinast Hollywood-mynd með Christian Bale (Rescue Dawn) og Grizzly Bear vakti líka mikla athygli. Er samt frægastur fyrir myndirnar sem hann gerði á 8. áratugnum: Strozsek (söngvari Joy Division hengdi sig yfir henni), Aguirre Wrath of God, Fitzcarraldo, Kapar Hauser og Even Dwarfs Started Small.

Hsiao-hsien Hou
Veit eiginlega ekkert um þennan, en hann er víst fremsti leikstjóri Tævana og það sem ég hef heyrt og lesið um myndir hans þá virðast þær frekar áhugaverðar. Ég er með 1-2 eftir hann sem bíða þess að ég horfi á þær.

Katsuhito Ishii
Mikill snillingur en eiginlega algjörlega agalaus. The Taste of Tea er yndisleg fjölskyldusaga, andinn minnir mig á Little Miss Sunshine. Funky Forest er allt annað dæmi, algjör endemis della en ansi skemmtileg á köflum.

Jim Jarmusch
Kannski svolítið of þekktur. Skemmtileg tenging við Wim Wenders: hann gerði sína aðra mynd (Stranger Than Paradise) með afgangsfilmubútum sem Wim Wenders gaf honum. Lúmskur húmoristi - ég hef alltaf gaman af myndunum hans.

Aki Kaurismäki
Stórfurðulegur karl, en getur verið ansi skemmtilegur. Með sérstakan húmor, og myndirnar geta verið svolítið þungar. Ég hef séð heilan helling af myndum eftir hann, og eina myndin sem ég skemmti mér ekki yfir var The Match Factory Girl sem var grútleiðinleg

Hirokazu Koreeda
Sérlega góður. Átti m.a. eina bestu myndina á RIFF fyrir þremur árum, hina stórgóðu Nobody Knows um systkini í Tokyo sem þurfa að bjarga sér sjálf eftir að móðir þeirra lætur sig hverfa.

Johnnie To
Frá Hong Kong. Ég hef lítið séð eftir hann en David Bordwell finnst hann góður (t.d. neðarlega í þessari grein). Hans frægustu myndir eru líkast til Election 1 og 2 um glæpafjölskyldu sem ákveður að kjósa sér nýjan leiðtoga.

Guy Maddin
Ansi sérstakur náungi. Hann virðist helst vilja búa til þöglar myndir, og myndir hans annað hvort minna á þöglu myndirnar í stílbragði o.s.frv., eða eru beinlínis þöglar myndir, sbr. Dracula: Pages from a Virgin's Diary og Brand Upon the Brain (sem var einmitt á kvikmyndahátíð núna í haust).

Takashi Miike
Japanskar myndir geta verið svolítið geggjaðar stundum. Þessi gaur hefur orð á sér fyrir að vera sá allra geggjaðasti. Og hann vinnur eins og brjálæðingur, er skráður fyrir 76 titlum frá árinu 1991, geri aðrir betur. Hans frægasta mynd er líklegast Audition frá 1999, en hann á margar aðrar sem vert er að skoða: Dead or Alive þríleikinn, Ichi the Killer, Zebraman og sjónvarpsþáttaröðina Multiple Personality Detective Psycho.

Peter Greenaway
Enginn hefur unnið jafnmikið með kvikmyndaformið á seinustu áratugum. Greenaway er sífellt að reyna á útmörk kvikmyndaformsins í einhverjum skilningi, hvort sem það eru litir (The Cook the Thief His Wife & Her Lover) eða miðlunarmátinn sjálfur (The Tulse Luper Suitcases). Þetta er samt ekki allt einhver rosaleg tilraunastarfsemi, því Greenaway hefur þá reglu að gera sitt á hvað eina tilraunamynd og eina hefðbundnari mynd (annars fær hann ekki pening). Það er ein hefðbundin á leið í bíó núna sem mér líst ansi vel á: Nightwatching, sem er um Rembrandt og sérílagi málverkið sem titillinn vísar til.

Chan-wook Park
Suður-kóreskur. Frægastur fyrir Oldboy, Sympathy for Mr Vengeance og Lady Vengeance.

Hiroyuki Tanaka (Sabu)
Bráðskemmtilegur japanskur leikstjóri. Hefur alveg yndislega ýktan stíl og tekur sig ekki of alvarlega. Hold Up Down er í uppáhaldi hjá mér - um tvo unga menn sem ræna banka í einhvers konar jólasveina-gervileðurdressi, og þær hörmungar sem fylgja.

Wim Wenders
Persónulega finnst mér Wim Wenders leiðinlegri en allt. En það er til fullt af fólki sem fílar hann í botn. Frægastur fyrir The American Friend, Paris, Texas, Der Himmel Über Berlin og Buena Vista Social Club.

Zhang Ke Jia
Enginn leikstjóri hefur tekið á kínversku samfélagi jafn umbúðalaust og þessi. Ég veit ekki hvernig hann fer að því, Kínverjar eru ekki beinlínis frægir fyrir stuðning sinn við skoðanafrelsi. Still Life um rótlaust líf fólks í kringum þriggja-gljúfra stífluna þótti með betri myndum síðasta árs. Ég sá hana á Fjalakettinum síðasta vor, og þótti hún nokkuð góð, þó svo að sýningin sjálf væri hálf-misheppnuð (hún var sýnd af digibeta og myndvarpinn var eitthvað bilaður þannig að hún var svart-hvít - ég var ekki sáttur).

Kinji Fukasaku
Þrautreyndur leikstjóri. Leikstýrði sinni fyrstu mynd 1961 og hefur gert myndir af öllum sortum: gamanmyndir, hryllingsmyndir, yakuza-myndir, samúræjamyndir o.s.frv. Frægasta myndir er e.t.v. Battle Royale. Ég hef líka séð gamanmyndina Fall Guy um áhættuleikara (stunt double) sem gerir ALLT fyrir stjörnuna sína.

Yimou Zhang
Einn frægasti og færasti leikstjóri Kínverja. Var lengi vel frægastur fyrir gullfallegar sögulegar dramatískar myndir eins og Raise the Red Lantern, Red Sorghum og To Live, en hefur síðari ár öðlast vinsældir fyrir gullfallegar bardagamyndir eins og Hero og House of Flying Daggers.

Wong Kar Wai
Leikstjóri frá Hong Kong sem gerir hægar og fallegar artí en samt soldið poppaðar myndir. In the Mood for Love er ein af mínum uppáhaldsmyndum.

Robert Altman
Einn af reginsnillingum kvikmyndanna. Altman var einn af bestu leikstjórum Bandaríkjanna á 8. áratugnum, og gerði snilldarmyndir eins og Nashville, McCabe & Mrs Miller og MASH en átti erfitt með að fá fjármagn eftir að Popeye floppaði á eftirminnilegan hátt. Átti fína endurkomu með The Player og Short Cuts á 10. áratugnum.