föstudagur, 26. september 2008

Riff: Dagur 1

Í kvöld fór ég á þrjár myndir: Lønsj, O'Horten og Landsbyggðarkennarann.

Lønsj eða Kalt borð
Slöpp mynd. Uppbyggingin var stirð með sífelldum óþörfum kaflaskilum (held það hafi verið 6 kaflar...), persónurnar voru flestar temmilega óáhugaverðar og tónlistarvalið var með því klisjukenndara sem ég hef upplifað.
Christer og vestið, áður en mávurinn kemst í það...
Myndin fjallar um nokkrar nánast ótengdar persónur. Eftir að mávur skítur á vestið hans, laumast auminginn Christer inn í þvottahús nágranna sinna til þess að þvo vestið, en hann gleymir öllum peningunum sínum í vestinu og í panikki slær hann út rafmagnið í öllu húsinu til þess að ná peningunum úr vélinni. Þetta myndar svo tenginguna við hinar persónurnar sem verða allar einhvern vegin fyrir áhrifum frá þessu.
Þetta er sem sagt svona hópsaga, þar sem við fylgjumst með nokkrum mismunandi persónum, nema hvað í þessari mynd er engin þeirra nógu vel gerð: við vitum nánast ekkert um persónurnar, og það sem verra er, okkur langar ekki til þess að vita neitt. Ég fékk líka á tilfinninguna að það vantaði eitthvað upp á persónurnar, ekki bara þann hluta sem við fáum að vita um (það vantaði heilmikið þar), heldur bara almennt. Tökum eina persónu sem dæmi, pabbastelpu sem missir pabba sinn af því að hann var að fikta í rafmagninu þegar það var sett aftur á (eftir að Christer hafði tekið það af), og í framhaldi af því missir hún líka heimili sitt. Það er gefið sterklega í skyn að hún hafi varla farið út úr húsi árum ef ekki áratugum saman (ég hélt um stund að hún yrði aðalpersónan, svona "Fritzl set free" dæmi). En síðan kemur sena þar sem hún fer niður á strönd (það var draumur hennar á meðan á "vistinni" stóð), og þá fer hún beint út í sjó að synda. Hvenær átti hún að hafa synt síðast? Átti hún að hafa synt áður?
"Ég ætlaði bara að kaupa sundföt. Ég vissi ekki að það myndi verða um svona margt að velja."

O'Horten
Önnur norska myndin sem ég fór á í kvöld, og miklu, miklu betri en hin. Eftir að hafa séð Salmer fra kjøkkenet eftir sama leikstjóra, þá bjóst ég við góðri mynd, og varð að ósk minni.
Odd Horten er lestarstjóri á leið á eftirlaun. Síðustu 40 árin hefur hann lifað fyrir starfið, og spurrningin er hvort eða hvernig hann fúnkerar ef það er ekki til staðar. Myndin er uppfull af kímni, grátbroslegum og oft beinlínis fyndnum uppákomum, en er samt trúverðug, hún dettur aldrei niður í farsa heldur trúum við alltaf á persónurnar. Í alla staði bráðskemmtileg mynd. Þetta er sú tegund af gamanmynd sem elskar persónurnar sínar og nýtur þess að sýna okkur sérvisku þeirra á hlýlegan hátt.
Kveðjuteiti Odds Hortens. Þið ættuð bara að sjá kveðjuna sem þessi fríði hópur sendir honum...

Venkovský ucitel eða Landsbyggðarkennari
Aðalpersónan er líffræðikennari sem er haldinn voðalegri sektarkennd yfir því að vera hommi. Að því er virðist vegna þessarar sektarkenndar yfirgefur hann virtan menntaskóla í Prag (þar sem mamma hans kennir líka líffræði) og hefur kennslu í litlum sveitaskóla. Það gengur ekki betur en svo að hann verður skotinn í einum nemanda sínum, og mamma nemandans verður skotin í honum.
Þetta er ágæt mynd á köflum, en ekki mikið meira en það. Hún er að mestu vel leikin, þó svo að fyrrverandi kærasti kennarans hafi verið alveg hræðilegur. Síðan er líka alltaf hættulegt að gera myndir þar sem aðalpersónan er passífur auli, sem kennarinn vissulega er í þessari mynd - maður finnur ekkert voðalega til með honum og það skapast ekki mikill drifkraftur út frá persónunni. Svo fannst mér hápunktur myndarinnar soldið falskur (ég segi ekki meir, það gæti eyðilagt myndina fyrir einhverjum). Það eru samt skemmtileg augnablik í myndinni, og hún virkar alveg.
Getur verið að þessar sérmerkingar á "hinsegin" myndum í dagskránni fæli einhverja frá? Það voru a.m.k. afskaplega fáir á þessari mynd (í sal 1 í Regnboganum). Dæmi hver fyrir sig.

Engin ummæli: