Costa-Gavras
Þið misstuð samt ekki af neitt rosalega miklu. Það er auðvitað gaman að hlusta á svona meistara tala um bíómyndir, en það var samt ekki margt nýstárlegt sem kom fram. Hann byrjaði á almennum inngangi en síðan fór restin í að svara spurningum, sem voru auðvitað misgóðar (það kom t.d. ein alveg rosaleg tveggja mínútna spurning sem enginn í salnum skildi, frá konu sem fannst að Bandaríkjamenn ættu að gera fleiri gamanmyndir og færri action-myndir af því að gamanmyndir væru betri fyrir heilsuna...)
"Allar myndir eru pólitískar."
Afterschool eða Eftir skóla
Þessi var hálf tormelt. Aðalpersónan er Robert, 16 ára patti í rándýrum prep-school í Bandaríkjunum. Aðaláhugamál hans eru myndbönd á youtube og klám. Og hvort sem myndböndin innihalda ofbeldi eða bara eitthvað krúttlegt þá verða þau að vera raunveruleg ("something real"), ekki fake eins og allt í sjónvarpinu. Smá endurómur af Holden Caulfield í Catcher in the Rye?
Herbergisfélagi Roberts er Dave, algjör skíthæll sem selur hinum krökkunum dóp og afritar heimavinnuna frá Robert. Vegna þess að Dave er með "sambönd" hengur hann soldið með svölustu stelpunum í skólanum, tvíburasystrunum Mary og Ann Talbert. Þær eru á kafi í kóki, og einn daginn taka þær eitrað efni og drepast. Robert, sem var að taka upp "establishing shots" fyrir einhverja mynd, verður vitni að dauða þeirra. Það er óljóst hvort Dave eigi sök á dauða þeirra, en Robert og Dave ræða það aldrei. Þetta kraumar bara undir niðri. Það er líka alveg ljóst að Dave mun aldrei virkilega lenda í vandræðum, því pabbi hans er svo djöfulli ríkur. T.d. er pabbinn varaður við áður en skólinn byrjar að leita að dópi í fórum nemenda, svo að Dave getur falið dópið sitt betur. Dave minnir mig um það sem maður hefur heyrt um skólagöngu George W.: ofdekraður pabbastrákur sem kemst upp með allt.
Robert er fenginn til þess að gera minningarmynd um tvíburasysturnar, og gerir hana mjög raunverulega, með skrítnum klippingum og engri tónlist. Rektor er hneykslaður, segist aldrei hafa séð annan eins skít (uppbyggileg gagnrýni?) og fær aðra nemendur til þess að endurklippa myndina (þetta fannst mér líklegast fyndnasta atriði myndarinnar). Í lokin sjáum við nýju útgáfuna, og hún er falskari en allt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli