mánudagur, 15. september 2008

Sveitabrúðkaup og heimsókn Valdísar

Ég vildi óska að ég hefði náð að skrifa þessa færslu áður en ég las færsluna hans Magga um sama efni, því eftir að hafa lesið rúmlega 3000 orða ópus hans þá spyr maður sig hvort eitthvað sé eftir til þess að tala um. En ég ætla að láta slag standa og jafnvel að leyfa mér að koma inn á sum sömu atriðin og Maggi.

Sveitabrúðkaup
Mér fannst þetta ósköp fín mynd, á köflum bráðskemmtileg og léttleikandi út í gegn. Þetta er ekkert ógleymanlegt meistaraverk, en hún ætlar sér það heldur ekki, og tekst vel það sem hún ætlar sér. Leikurinn er almennt séð mjög góður, samtölin eru nokkurn vegin eðlileg og á köflum mjög hnyttin. Myndatakan er í einhvers konar dogma shaky-cam stíl, myndavélar handheldar og virðast oft eiga í fullu fangi með að halda persónum innan ramma. Þetta býr til svolítinn raunveruleikablæ yfir þessu öllu. Hvað sem öðru líður þá skemmti ég mér ágætlega yfir myndinni.

Valdís
Þó svo að myndin hafi verið fín þá skildi hún ekkert rosalega mikið eftir sig (og þó, það eru rúmar tvær vikur síðan ég sá hana). Hins vegar er vinnsla myndarinnar allsérstök, og í raun meira hægt að segja um hana en myndina sjálfa. Og þar er heimsókn leikstjórans auðvitað skemmtileg viðbót.
Valdís sagði margt áhugavert, en ég ætla að fókúsera á það sem hún sagði um vinnslu myndarinnar. Að mörgu leyti minnir öll vinnan í kringum myndina mig á leiklistaræfingu, og raunar virðist öll nálgun Valdísar vera að gefa listamönnunum frjálsan tauminn. Myndin er að miklu leyti spunnin út frá ramma sem Valdís var búin að skrifa. Þannig vita leikararnir nokkurn vegin hvað á að koma fram í senunni en ákveða sjálfir hvernig það kemur fram. Svo eftir að senan er tekin voru leikarar, myndatökumenn og hljóðmenn spurðir hvort takan hefði verið þeim að skapi.
Það sem mér fannst einna skemmtilegast er að leikararnir vissu yfirleitt ekki meira en persónan þeirra vissi. Þannig fékk hver leikari leyndarmál áður en tökur hófust, sem hann einn vissi (eða hann og ein önnur persóna). T.d. vissi enginn annar en Árni Pétur að persóna Víkings væri ekki sálfræðingur. Meira að segja eftir að það hefur komið fram í 2-3 senum þeirra á milli, þá veit það samt enginn annar, enda voru leikararnir ekki viðstaddir tökur á öðrum senum en sínum eigin.
Mér fannst líka skemmtileg nálgun að láta leikarana búa til baksögu fyrir persónuna sína, og skemmtileg tilhugsun hvernig gengið hefur að samræma þessar baksögur - ef Ágústa Eva vildi vera frá Egilstöðum en Kristbjörg Kjeld (mamma hennar) og Björn Hlynur (bróðir hennar) vildu bæði vera Reykvíkingar í húð og hár (eins og var víst raunin), hvernig ætli það hafi verið leyst? Með lýðræðislegri kosningu?
Það er eiginlega algjört afrek að þessi mynd skuli hafa verið tekin á 7 dögum, og það hlýtur að hafa sparað mikinn pening að tökur standi svona stutt yfir (skrýtið að enginn skuli hafa spurt hvað myndin kostaði, það hefði verið spurning nr. 1 eða 2 í hópnum í fyrra - ekki það að þetta sé mjög spennandi spurning). Það voru alltaf 2-4 myndavélar í gangi, tvær fyrir flestar senurnar, fjórar í stærri senunum og stundum var verið að taka tvær senur á sama tíma. Þannig að það ætti kannski ekki að koma á óvart þótt tökur hafi gengið hratt.
En í staðinn varð klippivinnan meiri en ella. Þegar tökum lauk hafði Valdís rúmlega 100 klst. af efni til þess að vinna úr, misvel merkt og ekkert sérstaklega vel skipulagt. Eins og Valdís orðaði það, þá hefði enginn annar klippari getað klippt þetta. Klippingin tók 8 mánuði.
Þrátt fyrir gríðarlanga setu í klippiherberginu og erfiða fjármögnun virðist Valdís spennt fyrir að vinna annað álíka verkefni með Vesturporti. Hún gaf a.m.k. í skyn að viðræður væru í gangi um annað verkefni. Hún talaði þó um að ef til þess kæmi, þá myndi hún líkast til spinna minna og notast við fullbúið handrit, ekki vegna þess að henni þætti það betra, heldur vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að fá styrk hjá Kvikmyndamiðstöðinni.

1 ummæli:

Magnús Örn Sigurðsson sagði...

Fróðlegt. En hey, þú fannst alla vega nettari mynd af Valdísi en ég. Frekar töff gella.