laugardagur, 27. september 2008

RIFF: Dagur 3

Í dag fór ég á fyrirlestur óskarsverðlaunahafans John Zaritsky um forvinnslu heimildamynda. Í kvöld ætla ég svo á Skelfilega hamingjusamur og miðnætursýninguna (Löng helgi).

John Zaritsky
Þetta var áhugaverður og lærdómsríkur fyrirlestur. Skrifa meira um hann seinna.
Ég verð að játa að ég er frekar fúll að ekkert ykkar skyldi hafa látið sjá sig. Hvar voru allir? Það er ekki á hverjum degi sem maður getur fengið leiðsögn frá óskarsverðlaunahafa...
Ég vona að ég sjái ykkur á "Eftirmiðdegi með Costa-Gavras" á morgun kl. 13 (ókeypis inn). Ég mæli líka með því að þið farið á fyrirlestur Yung Chang um framleiðslu heimildamynda í Norræna húsinu á þriðjudag kl. 14. Ég kemst því miður ekki þá, þannig að það væri mjög gott ef einhver færi og gæti sagt okkur frá þessu.
Ég minni á að allir eiga að fara á a.m.k. einn viðburð - það þýðir fyrirlestur, pallborðsumræða, námskeið, Grettir kabarett eða eitthvað álíka. Bílabíó eða annað sem felst bara í því að horfa bíómynd telst ekki með.

Frygtelig lykkelig eða Skelfilega hamingjusamur
Þetta var nokkuð fín mynd. Hún var samt ekki sýnd af filmu, sem fer alltaf nett í taugarnar á mér. Hún var sýnd af digibetu, sem eru ekkert mikið betri gæði en bara DVD, auk þess sem það var eitthvað suð í hátölurunum alla myndina (fyrir þá sem hafa farið í Regnbogann seinustu daga, þá er þetta sama suðið og er alltaf áður en myndirnar hefjast, nema hvað það hélt áfram alla myndina). Þar að auki nýttist tjaldið ekki allt, heldur var myndin í letterboxi á miðjum skjánum. Þá vil ég frekar filmu.
Fyrir þá sem sáu Kunsten at græde i kor á hátíðinni í fyrra, þá er þessi mynd gerð eftir skáldsögu sama rithöfundar, og er að mörgu leyti svolítið svipuð. Þetta er í grunninn gamanmynd en hún tekur á mjög alvarlegum málefnum (t.d. heimilisofbeldi). Ég myndi segja að þessi sé ekki alveg eins fyndin og Kunsten at græde, en á móti kemur að maður fær ekki eins mikið samviskubit yfir því að hlæja á henni.
Aðalpersóna myndarinnar er lögregluþjónninn Robert sem fékk taugaáfall heima í Kaupmannahöfn og er sendur til Suður-Jótlands í nokkurs konar refsingarskyni. Bærinn sem hann er sendur til er frekar skrýtinn og bæjarbúar eru ekki beint hrifnir af aðkomufólki, það er ákveðin hefð fyrir því að aðkomumenn séu látnir hverfa í mýrina af minnsta tilefni.
Sem sagt, nokkuð góð svört dönsk kómedía. Maður ætti ekki að þurfa að segja meira.

Long Weekend og Violence in the Cinema, Part 1
Miðnætursýningin.
Long Weekend er hryllingsmynd/thriller um par sem fer í útileigu sem endar sem barátta við náttúruna upp á líf og dauða. Eða svo virðist í fyrstu. Tagline-ið er í þessum anda: "Their crime was against nature...Nature found them guilty." Þegar nánar er að gáð er það eiginlega þeirra eigin ótti sem skapar mestu hættuna, þó svo að náttúran hagi sér á köflum helst til furðulega. Þetta er púra B-mynd, og brjóst og blóð koma títt við sögu eins og á að vera í góðum exploitation myndum. Helsti gallinn er kannski sá að það er engin persóna í myndinni sem manni líkar við. Megnið af myndinni er parið eina fólkið sem sést, og þau eru bæði alveg óþolandi. Vissulega er þetta hluti af myndinni: maður hlakkar til að sjá þau deyja einhverjum hræðilegum dauðdaga, og miðað við kvikmyndategundina þá býst maður við að manni verði að ósk sinni. Hins vegar hlýtur að teljast varhugavert að gera myndir þar sem áhorfandinn getur ekki samsamað sig neinni persónu...
Violence in the Cinema, part 1 er bráðskemmtileg stuttmynd. Í byrjun virðist þetta vera ýkt alvarleg (og frekar klunnaleg) fræðimynd um ofbeldi í kvikmyndum og sálfræðilegar og heimspekilegar vangaveltur því tengt. Þangað til maður með haglabyssu brýst inn í herbergið og skýtur hálfan hausinn af "sérfræðingnum" þ.e.a.s. Eftir það er manni ljóst að þetta er verulega súr sýnikennsla í kvikmyndaofbeldi, og ágæt sem slík.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flokkast það ekki sem atburður ef maður fór á Suicide Tourist og eftir myndina talaði John Zaritsky og svaraði spurningum?

-íris

Siggi Palli sagði...

Nei, það gerir það ekki. Það er ýmislegt annað í gangi í kringum hátíðina en "bara" bíómyndir, og ég vil að þið upplifið eitthvað af því.

birta sagði...

verða tímar í þessari viku? varstu ekki eitthvað að tala um að það væru engir útaf RIFF? baraðspá...

Siggi Palli sagði...

Engir tímar í þessari viku.