laugardagur, 27. september 2008

RIFF: Dagur 2

Í gær fór ég á tvær myndir, Öxina og Fuglasöng.

Le couperet eða Öxin
Djöfulli góð mynd. Kolsvört kómedía um efnafræðinginn Bruno Davert sem missir vinnuna. Eftir tveggja ára atvinnuleysi grípur hann til örþrifaráða: hann ákveður að drepa manninn í draumastarfinu sínu, en fyrst að drepa hugsanlega keppinauta um stöðuna.
Í dagskrárbæklingnum er leikstjóranum, Constantin Costa-Gavras, sem einnig er sérstakur gestur hátíðarinnar, lýst sem pólitískasta leikstjóra kvikmyndasögunnar. Þetta er önnur myndin sem ég sé eftir hann (sá Z fyrir nokkrum árum, hún er æðisgengin pólitísk ádeila) og ég er ekki frá því að þessi lýsing sé nokkuð nærri sannleikanum. Costa-Gavras verður með fyrirlestur á háskólatorgi HÍ á morgun (sunnudag) kl. 13, og hvet ég sem flesta til þess að mæta (þetta er ókeypis viðburður!).
Myndin er mjög vel gerð. Sagan byrjar in medias res (í miðjum klíðum) og við kynnumst forsögunni í gegnum játningu aðalpersónunnar. Annars er fátt hægt að segja um söguþráðinn án þess að eyðileggja myndina. Látum nægja að segja að söguhetjan drepi nokkra keppinauta sína...
Myndin er hápólitísk ádeila á túrbó-kapítalisma (eins og hann er nefndur í myndinni). Fyrirtæki sameinast, endurskipuleggjast og flytjast til annarra landa til þess að hagnast um nokkur aukaprósent og til þess að geta greitt út arð til hluthafanna, en um leið og þau flytja alla starfsemi sína úr landi eyðileggja þau efnahag heimalandsins og að lokum hlýtur að fara svo að markaðurinn fyrir vörur fyrirtækisins hrynur með efnahagnum og þá er flutningurinn og endurskipulagningin til lítils. Eða það eru a.m.k. skilaboð myndarinnar.
Bruno er ekki illmenni (enda myndi það grafa undan ádeilu myndarinnar). Hann er góður maður sem fullur örvæntingar gripur til örþrifaráða við aðstæður sem leyfa ekkert annað - hann er afurð þeirra aðstæðna sem myndin gagnrýnir. Eins og hann segir sjálfur, þá hefði hann glaður frekar drepið hluthafa eða stjórnir fyrirtækjanna, enda eru það hinir seku, en það hefði ekki gert neitt gagn, hvorki fyrir hann né samfélagið. Hann veit að fórnarlömb sín eru samherjar sínir, fólk í sömu stöðu og hann sjálfur, menn sem voru "bræður" hans áður en hann varð atvinnulaus. En atvinnuleysið, það hvernig stórfyrirtækin fara með þá, gerir þá að óvinum - keppinautum, og það er ein stærsta gagnrýni myndarinnar: alþjóðavæðing, heimskapítalismi og atvinnuleysi hefur tortímt samstöðu verkalýðsins - nú er það "every man for himself". Munurinn á fjöldamorðingjanum Bruno og hinum er sá að Bruno fékk hugmyndina fyrst...
Bruno (snýr baki í okkur) og Gerard, annar efnafræðingur sem er búinn að vera atvinnulaus í 5 ár, vinnur nú í herrafatabúð og fer að skæla þegar hann segir Bruno sögu sína.

El Cant Dels Ocells eða Fuglasöngur
Sorp. Sori. Það er langt síðan ég hef séð jafn vonda mynd. 2/3 hlutar áhorfenda voru farnir út eftir hálftíma, enda var myndin alveg vonlaus. Löng, pointless skot. Lítil, ósamhangandi og oft óskiljanleg samtöl. Tökum dæmi um tvö skot sem voru dæmigerð fyrir myndina:
  1. Við erum stödd í eyðimörk. Í svart-hvítu. Sem þýðir að það er ekki mikið af upplýsingum í rammanum. Við sjáum fullt af ljósgráum sandi og í fjarska ljósgráan sjóndeildarhring. Í upphafi skotsins eru vitringarnir þrír sæmilega nálægt myndavélinni, og ganga í átt frá myndavélinni. Þessu skoti er haldið þangað til vitringarnir þrír nánast hverfa í fjarska, án þess að myndavélin hreyfist einn millimeter (og þeir fara ekki hratt yfir!). Þá er klippt yfir á...
  2. Eyðimörk. Eiginlega alveg eins og í 1). Nema hvað núna nálgast vitringarnir úr fjarska. Þessu skoti er haldið þangað til þeir eru komnir nokkuð nálægt myndavélinni.
Þessi tvö skot voru a.m.k. 5 mínútur, líklegast lengur. Og þó svo að þetta hafi ef til vill verið lengstu og tilgangslausustu skot myndarinnar, þá voru þau alls ekki einhver undantekning frá því hvernig myndin var í heild. Það voru MÖRG skot þar sem við fylgjumst með vitringunum annað hvort hverfa í fjarska eða koma úr fjarska.
Í lýsingunni í dagskránni stendur: "Vegferð vitringanna er vörðuð háfleygum og skondnum samtölum, sem og viðkomu yfirnáttúrulegra vera [og] áherslan er á ævintýrið fram yfir raunsæið." Það er nákvæmlega eitt "háfleygt og skondið" samtal í myndinni, og það kemur þegar rúmur klukkutími er liðinn, og þá var ég einfaldlega búinn að gefast upp. Eftir að hafa lesið lýsinguna bjóst ég við einhvers konar biblíu-útgáfu af Rosenkrantz and Guildenstern Are Dead, en ég held að mér sé óhætt að segja að þessi mynd hafi verið talsvert langt frá því að uppfylla þær væntingar.
Þessi mynd er mannskemmandi sorp. Ég trúi því ekki að hún hafi verið valin á hátíðina nema vegna þess að hún er að hluta til tekin á Íslandi. Getur einhver haft gaman of svona rusli?

Engin ummæli: