sunnudagur, 31. ágúst 2008

Nokkur atriði til þess að hafa í huga fyrir stuttmyndamaraþonið

1. Myndavélin er ekki vatnsheld og hljóðneminn virkar illa í roki. Hafið þetta í huga í undirbúningnum, því það væri vægast sagt óviturlegt að ætla að treyst á íslenskt veðurfar þegar maður hefur bara 24klst. til þess að taka upp.
2. Athugið hvort þið hafið fengið allar græjurnar um leið þið takið við myndavélinni, og athugið hvort allar græjurnar séu til staðar þegar þið látið næsta hóp fá myndavélina. Það verður listi í töskunni.
3. Athugið hleðsluna á rafhlöðunum um leið og þið fáið myndavélina, og setjið í hleðslu ef þörf krefur. Það er góð vinnuregla að vera alltaf með aðra rafhlöðuna í hleðslu.
4. Ef það koma svartar rendur á vídjóið á spólunni þá verðið þið að þrífa myndhausinn. Það er hreinsispóla í pokanum. Setjið hana í, stillið vélina á VCR og setjið á play í 5 sekúndur. Þetta getið þið gert nokkrum sinnum, en ALDREI hafa á play í meira en 5 sekúndur í einu.
5. Það eru tvær stillingar til þess að taka upp í widescreen, "Letterbox" og "Squeeze" (ýtið á Menu, Camera Setup og Aspect Conv.). Ef þið viljið taka upp í widescreen í þessu verkefni skulið þið nota "Letterbox". Í seinni verkefnum væri betra að nota "Squeeze".
6. Minni á "Rec check" takkann (fyrir ofan rec takkann). Hann getur verið þægilegur í þessu verkefni, en hann spilar seinustu 6 sekúndurnar á spólunni.
7. Það er mikilvægt að annað hvort myndatökumaður eða hljóðmaður séu með heyrnartól til þess að heyra hvernig hljóðið kemur út.

Ég er örugglega að gleyma einhverju...

Shorts & Docs dagur 8: Mini Panorama stuttmyndir og Úrvals heimildamyndir

Á föstudaginn fór ég á tvær sýningar, "Mini Panorama stuttmyndir" og "Úrvals heimildamyndir".

Mini Panorama stuttmyndir
Þetta var hugsa ég jafnbesta sýningin sem ég fór á á hátíðinni. Það var kannski engin rosalega góð mynd þarna (bestu myndirnar á Sundance sýningunni, Missing, Drake og Jag är bög voru betri en þessar), en þar var engin slöpp mynd á þessari sýningu.

Flatmates var svona miðlungsgóð mynd um homosexual spennu milli sambýlinganna Björn og Hampus. Persónurnar voru nokkuð vel úr garði gerðar og leikurinn var fínn, en ef ég ætti að kvarta undan einhverju sérstöku þá var það að mér fannst myndin ekkert sérstaklega myndræn - ef þetta hefði verið gert að leikþætti þá hefði ekkert tapast.
The Great Magician þótti mér sniðug. Hún er um mikinn galdrakarl sem gæti gert hvað sem honum sýndist, en af siðferðilegum ástæðum kýs hann að nota ekki krafta sína heldur lifa fábrotnu og tilbreytingarsnauðu lífi. Mér fannst vera soldið Borges-legur absúrdismi yfir henni sem ég kunni að meta.

Situation Frank var að mínu mati besta myndin á þessari sýningu. Þetta er grátbrosleg mynd um mann sem missir konuna sína og fellur í þunglyndi í framhaldinu. Vinur hans gerir nokkrar mislukkaðar tilraunir til þess að kæta hann, og eru þær oft ansi fyndnar. Mér fannst mjög flott hvað tókst vel að samtvinna sorg og kímni í myndinni.

Love and War er ótrúleg samsuða. Söguþráðurinn er klisjukennd ástarsaga hjúkrunarkonu og orrustuflugmanns. Formið er miðlungsgóð animation með soldið ljótum dúkkudýrum (hjúkkan er kanína, flugmaðurinn er björn). Flutningurinn er í formi ítalskrar óperu. Mér þótti bara það að blanda þessu saman frekar fyndið, og eiginlega er það það sem bjargar myndinni - þetta er engin snilld fyrir utan þessa frumlegu blöndu. Svo hló ég upphátt þegar ég sá afkvæmi hjúkkunnar og flugmannsins sem var einhver fáránleg blanda af birni og kanínu...Hérna býður nágranninn kanínunni upp á smá beikon...

Medan tid är er krúttleg heimildamynd um gamla konu og tilraunir hennar til þess að finna sér karl á stefnumótavef. Ætli sérstaða myndarinnar sé ekki aldur persóna, en við erum ekki vön að sjá bíómyndir um ástamál fólks á áttræðisaldri. Það sem heldur myndinni hins vegar uppi er aðalpersónan, Margaretha, en hún er skemmtilega ákveðin og lífsglöð kona sem virðist ákveðin í að njóta lífsins.

Úrvals heimildamyndir
Þetta var án efa versta sýningin sem ég fór á á hátíðinni. Þrjár heimildamyndir og engin þeirra virkilega góð.

Purity Beats Everything er dönsk heimildamynd um helförina eftir einhvern jóskan bóndason. Það sem eitthvað er varið í í myndinni byggir á viðtölum við tvo eftirlifendur helfararinnar. Það sem eyðileggur myndina eru furðulegar tilraunir leikstjórans til þess að tengja þetta við sjálfan sig og sinn veruleika. Þannig fjarlægjumst við eftirlifendurna með því að vera í raun að horfa á leikstjórann horfa á viðtölin mikið af tímanum. Þar að auki er mikið af vangaveltum leikstjórans um helförina spilað yfir myndum af bóndabænum hans, án nokkurrar raunverulegrar tengingar þarna á milli. Ýktasta dæmið er líklegast þegar ræður Hitlers eru spilaðar: þá er iðulega sýndur þvottur á snúru að feykjast til og frá í vindhviðum. Hver var tilgangurinn með því?
The Birds Are Silent in the Forest er stórfurðuleg mynd. Aðalpersónan vinnur á lyftara, virðist frekar lífsleiður, en um helgar breytist hann í einhvern rosa veiðimann. Reyndar sjáum við hann aldrei veiða neitt, en við sjáum hann sitja í einhverjum turni í miðjum skógi að bíða færis alla helgina. Við vitum samt að hann er ekki algjörlega misheppnaður veiðimaður því heima hjá honur er heill veggur þakinn dádýrshornum og hann flettir í gegnum þykkt myndaalbúm fullt af dauðum dádýrum. Og við heyrum hann aldrei segja neitt. Spes...
Silence in a Noisy World er svona hálf góð heimildamynd. Myndin er um heyrnarskert börn í Kaíró og það sem er gert til þess að kenna þeim að tala. Gallinn við myndina er að við fáum aldrei neinar upplýsingar. Við bara sjáum daglegt líf þessara barna án þess að okkur sé sagt nokkuð annað. Ef ekki hefði verið fyrir bæklinginn þá hefði ég t.d. ekki vitað að myndin gerðist í Kaíró. Með viðtölum og sögumanni sem gæfi manni grundvallarupplýsingar um hagi barnanna og sögu þeirra hefði þetta getað orðið mjög góð mynd, en eins og hún er núna finnst mér þetta meira vera drög að mynd... Eitt var samt gaman: að sjá börnin fara með faðirvorið á táknmáli - ég vissi ekki að það væri gert.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Shorts & Docs dagur 6: Sundance Shorts

Á miðvikudaginn fór ég á sýningu á Sundance stuttmyndum, og var bara nokkuð ánægður. Að vísu var ég frekar þreyttur, enda var ég á íslensku stuttmyndunum kvöldið áður, og var ekki kominn heim fyrr en hálf-tvö. Þó gekk mér betur að halda vöku minni yfir þessum myndum en yfir þeim íslensku, en ég held að það hafi haft meira með gæði þeirra að gera en stemninguna hjá mér.

By Modern Measure var sæt lítil mynd. Svart-hvít í svona frönskum New Wave stíl og ég gæti trúað því að hún sé tekin á 8mm, myndin sýnir ungt par úti í eyðimörkinni. Það er ekkert hljóð nema frásögn sögumanns. Sögumaður lýsir ástarsambandi sem er blanda af klisju og ýktri neysluhyggju, mér fannst þetta vera kaldhæðin sýn franskrar listaspíru (frásögnin er á frönsku) á bandarískt neyslusamfélag. Stór hluti af textanum er skrásett vörumerki. Aðalpersónur hittast á Taco Bell. Þau ákveða að leggja af stað út í óvissuna og kaupa sér heilmikið magn af alls konar bandarískri "matvöru" eins og Skittles, Mountain Dew o.fl. Hins vegar kemur babb í bátinn þegar þau komast að því að henni finnst Doritos Cool Ranch bestu flögurnar, en honum finnst Doritos Nacho Cheese bestar. Þau mætast þó á miðri leið og semja sín á milli um að kaupa alltaf báðar tegundir... Skrýtin og sæt mynd.
Count Backwards from Five var afskaplega furðuleg. Þessi var greinilega tekin á 8mm, alls konar skrýtin skot sem virðast með öllu ótengd. Yfir þessu er svo símtal sem erfitt er að átta sig á, þ.e.a.s. þangað til að Neil Young lagið Let's Go Downtown fer í gang. Ég átti það erfitt með að átta mig á þessari mynd, að ég hélt að þetta væru tvær myndir, að með Neil Young laginu hefði hafist ný mynd...

Jag är bög var ansi skemmtileg. Hún er um Svía af grískum ættum sem er í matarboði hjá foreldrum sínum og er að reyna að mana sig upp í að segja fjölskyldunni að hann sé hommi. Við heyrum hugsanir hans og svo sjáum við það sem hann ímyndar sér að muni gerast ef hann segir þeim þetta (harmakvein móðurinnar, fordæming bróðurins, skömm föðurins), og hvað myndi gerast ef hann segði þeim ekki (kærastinn gæfist upp á honum). Allt er þetta mjög ýkt og alveg bráðfyndið.



Missing
var líka mjög góð. Í upphafi myndar situr aðalpersónan, miðaldra karl, og horfir á sjónvarpið með konunni sinni, þegar hún fær símhringingu um að eiginmaður hennar sé týndur. Eftir það láta allir eins og hann sé týndur, en samt sjá þau hann og tala við hann - hann er meira segja sendur út til þess að hengja upp plaköt af sjálfum sér. Samt trúir honum enginn þegar hann segist vera hann sjálfur og að hann sé ekki týndur. Þegar hann gerist örvæntingarfullur og reynir að sviðsetja mannrán á sjálfum sér með því að senda í umslagi kröfu um lausnargjald og fingur af sér, þá trúir löggan ekki að þetta sé fingur af honum og hendir honum. Sem sagt, skemmtilega súrrealísk mynd með nokkrum alveg drepfyndnum augnablikum.
Laura in Action var mest bara hallærisleg. Það var svona þvinguð blanda af teiknimynd og live action, þar sem aðalpersónan er myndasöguhöfundur sem framkvæmir álíka hetjudáð og söguhetjan sín til þess að koma sögunni sinni til útgefanda. Bara ávísun á bjánahroll.

Drake var snilld. Við sjáum skuggamynd af fjölskyldu með fallegt sólarlag í bakgrunni. Fjölskyldufaðirinn ætlar að ná mynd af allri fjölskyldunni, og þetta hefst á léttu nótunum, hreyfingar hans þegar hann stillir upp myndavélinni eru stórar og miklar í ætt við þöglar gamanmyndir, og hann stillir timerinn á myndavélinni en hún smellir af akkúrat þegar hann gefst upp á biðinni og ætlar að athuga hvað er að. Síðan verður húmorinn dekkri: strákurinn vill ekki sitja kyrr, þannig að pabbinn slær til hans og í annað skiptið sem myndavélin smellir af er það einmitt þegar fyrsta högg mannsins dynur á konunni. Hann lemur hana og sparkar í hana, en þegar hann stillir upp myndavélinni (í þriðja sinn?) flýr hún inn í bílinn og kemst undan ásamt syninum, og skilur karlinn eftir með myndavélina. Stutt og skemmtileg mynd, sem er mjög létt og fyndin þrátt fyrir soldið ofbeldi.
Hinar myndirnar fannst mér ekkert sérstaklega minnisstæðar og nenni lítið að skrifa um þær.

Shorts & Docs dagur 5: Íslenskar stuttmyndir

Þessi sýning var kl. 11, sem var kannski ekki besta hugmyndin í miðri fyrstu skólavikunni. Ég get a.m.k. ekki sagt að ég hafi verið mjög vel upplagður, og ég er ekki frá því að ég hafi dottað aðeins. Sem er svo sem engin skömm - minnir mig á sögu um frægan þýskan kvikmyndagagnrýnanda sem var orðin örþreyttur eftir stífa dagskrá á kvikmyndahátíð og sofnaði í miðri mynd, dreymdi afganginn af myndinni og skrifaði langa grein um mynd sem ekki var til. Því miður er ég ekki svona draumgjarn, þ.a. ég efast um að meðvitundarleysi mitt yfir sumum myndanna hafi bætt nokkru við þær.

Ekki veit ég hvort það var þreytan, en á heildina litið var ég ekkert sérstaklega hrifinn af þessum myndum. Svo hefði ég líka átt að blogga um þessar myndir fyrr, þær eru soldið farnar að dofna í minningunni.
Eyja fannst mér óttalega dæmigerð artí stuttmynd - orðið "ljóðræn" í lýsingunni hefði átt að vara mann við, því svo virðist sem "ljóðræn"=samhengislaus.
Ég held ég hljóti að hafa meira og minna sofið í gegnum Snjó og Hnappinn því ég man sama sem ekkert eftir þeim.
Örstutt jól megnaði a.m.k. að vekja mig. Grunnhugmyndin þótti mér góð: íslenskur jólasveinn í sínu "upprunalegu" hlutverki, þ.e. tröll/skrímsli. Við skulum bara segja að nafnið Ketkrókur fær alveg nýja merkingu...
Fullkomin fannst mér ágæt þó svo að grunnhugmyndin hafi ekki verið neitt sérstaklega frumleg. Og þótt hún hafi verið ágætlega leikin, þá fannst mér eins persónur myndarinnar væru talsvert eldri en leikararnir, sérstaklega leikkonurnar (Gunnur Schlüter og Hera Hilmarsdóttir). Þessa mynd er líka hægt að sjá inni á dvoted.
Gjörgæsla var gargandi snilld. Örmynd, eiginlega bara smá skets, en alveg drepfyndin.
Konfektkassinn var bara ágætismynd. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja meira um hana...
Hestadans var hræðilegt listrænt rúnk. Nútímadans á svelli, eftir því sem ég komst næst voru dansararnir að túlka hross...

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Shorts & Docs dagur 4: Mini Panorama heimildarmyndir

Á mánudag kíkti ég á sýninguna "Mini Panorama heimildarmyndir" sem samanstendur af þremur nokkuð stuttum heimildarmyndum, tvær nokkuð góðar og ein alveg fáránleg.

Jenter
Ansi fín norsk heimildarmynd um stúlknahóp í 9. og 10. bekk (myndin nær yfir rúmt ár). Það mætti kannski helst líkja þessu við heimildarmyndaútgáfu á Fucking Åmål á norsku. Sumar stelpurnar eru virkilega skemmtilegir karakterar, sérstaklega Mahsa sem er alveg yndislega "out of control" í upphafi myndar, en nær sér aðeins á strik eftir því sem á líður. Hún og Iselin eru aðalpersónurnar, þó svo að myndin fylgi í raun öllum hópnum (8-10 stelpur). Í upphafi myndar eru þær bestu vinkonur, en svo slettist upp á vinskapinn. Báðar eiga þær í vandræðum, en í lok myndar virðist þetta ætla að reddast hjá Möhsu, en Iselin virðist vera á hraðri niðurleið.
Mér finnst gæði svona myndar byggjast á tvennu, annars vegar að fólkið sem myndin fylgir sé áhugavert og sympatískt, og hins vegar að kvikmyndagerðarmönnum takist að búa til áhrifaríka sögu úr öllu efninu sem þeir taka upp. Þessi mynd uppfyllir hiklaust fyrra skilyrðið, en ég verð að játa að ég saknaði þess að bundinn væri almennilegur endahnútur á myndina. Engu að síður bráðskemmtileg mynd.

Á meðan
Sænsk heimildarmynd um elliheimili í El Salvador. Mjög góð mynd en jafnframt hræðilega niðurdrepandi. Fólkið á elliheimilinu er allt fólk sem getur ekki bjargað sér sjálft og á enga að. Aðbúnaður er vægast sagt slæmur, og maður fær sting í magann að sjá allt þetta fólk sem hefur gjörsamlega verið rænt sjálfsvirðingunni. Vissulega eru fyndin augnablik (kannski meira grátbrosleg), en á heildina séð er erfitt að horfa á þessa mynd.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Shorts & Docs dagur 3: Red Hollywood

Þessi mynd er hátíð fyrir bíónörd eins og mig. Myndin fjallar um leikstjóra og handritshöfunda sem lentu á svörtum lista í Hollywood á tíma kommúnistaveiða Joseph McCarthy, og fengu eftir það ekki vinnu í Hollywood í rúm 10 ár. Joe McCarthy og þingnefnd undir hans stjórn, House Un-American Activities Committee (HUAC), kölluðu til sín í yfirheyrslu fólk í Hollywood sem hafði einhver tengsl við kommúnista. Þetta fólk hafði í raun um tvennt að velja: fordæma kommúnisma og segja til allra sem það veit að eru viðriðnir kommúnistaflokkinn, eða að vera litið á sem óvinveitt vitni og lenda á svarta listanum og hugsanlega vera varpað í fangelsi eða vísað úr landi líka. Margir þeirra sem völdu fyrri kostinn misstu svo traust og virðingu kollega sinna, þ.a. það var úr tvennu illu að velja. Það man kannski einhver eftir því þegar Elia Kazan fékk heiðursóskar fyrir nokkrum árum, og helmingur áhorfenda púaði. Það var vegna þess að hann kjaftaði frá.
Þess má til gamans geta að við munum síðar í vetur lesa kafla úr bók eftir Edward Dmytryk, sem var einn af "The Hollywood Ten", þ.e. tíu fyrstu kvikmyndagerðarmennirnir sem lentu í HUAC-nefndinni. Hann lenti á svörtum lista og flutti til Bretlands til þess að gera myndir þar, en snerist hugur og sneri aftur og sagði til vina sinna eftir 1-2 ár.
En nú að myndinni... Útgangspunkturinn var sá að Thom Andersen var ósáttur við það hvernig sagan fjallaði um listamennina sem lentu á svarta listanum. Opinbera afstaðan var sú að þessi hópur gæti vart talist mikilvægur í kvikmyndasögunni, að þarna væru engir mikilvægir listamenn og auk þess væri í raun enga róttækni að finna í verkum þeirra - þ.e. þessum vinstrisinnuðu listamönnum hefði ekki tekist að koma fyrir áróðri í myndum sínum. Thom Andersen fékk Noël Burch í lið með sér, og saman hófu þeir að rannsaka verk sem voru skrifuð eða leikstýrð af listamönnum sem lentu síðar á svarta listanum.
Eftir viðamiklar rannsóknir þar sem þeir horfðu á mörg hundruð bíómyndir og tóku viðtöl við fjölmarga sem höfðu lent á svarta listanum, töldu þeir sig komna með grunn að góðri heimildarmynd. Þetta var árið 1988. Og þá var komið að erfiða hlutanum. Í fyrstu var ætlun þeirra að búa til vandaða mynd, á filmu og þar sem þeir notuðu filmueintök af þeim myndum sem þeir ætluðu að vísa í, og myndu fá notkunarrétt á þessu öllu. Þetta hefði kostað um 500 þúsund dali, og þeir komust hvergi nærri því að fá slíka peninga. Þá settu þeir þetta verkefni á hilluna um stund, og árið 1995 ákváðu þeir að búa til það sem Andersen kallaði "a rough video version" af því sem þeir höfðu upphaflega í huga. Þannig er Red Hollywood búin til á vídeó, myndbrotin eru tekin af VHS-spólum og upptökum úr sjónvarpi, og myndin kostaði alls um 25 þúsund dali. Þá höfðu þeir í raun ekki notkunarrétt á myndbrotunum sem þeir notuðu, þ.a. ég held að þetta hafi aldrei komið út á VHS eða DVD (og mun líklegast aldrei gera það).
Myndin sjálf byggir að langmestu leyti á myndbrotum úr myndum sem eru leikstýrðar eða skrifaðar af listamönnum sem lentu á svarta listanum. Þessi brot eru notuð til þess að sýna þá þjóðfélagsádeilu og þau skilaboð sem þessir listamenn reyndu að koma til áhorfenda sinna. Í sumum tilvikum eru þetta myndir sem verða fyrir óréttmætri gagnrýni, þar sem þær eru gerðar meðan Sovétmenn voru bandamenn Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni (t.d. Song of Russia, þar sem Sovétið er lofsungið en í nafni stríðsáróðurs með Bandaríkjunum og bandamönnum). Í sumum tilvikum má túlka myndirnar á tvo vegu (Tender Comrade er dæmi um þetta, en í henni mynda fjórar konur hálfgerða kommúnu á meðan eiginmennirnir eru í stríðinu).

sunnudagur, 24. ágúst 2008

Shorts & Docs 2: Cannes stuttmyndir, ein skosk heimildarmynd og fyrsti hlutinn af lofsöngnum um Ísland

Jæja, ég ætla að byrja á því að nöldra svolítið um framkvæmd hátíðarinnar. Í gær fór ég á tvær sýningar. Sú fyrri átti að samanstanda af 6 stuttum skoskum heimildarmyndum, og ég var nokkuð spenntur fyrir sumum þeirra. Eins og sjá má í fyrirsögninni, þá varð lítið úr þeirri ætlun hjá aðstandendum hátíðarinnar - þeim tókst að sýna eina skoska heimildarmynd, og það var einmitt sú sem ég var fyrirfram minnst spenntur fyrir, "Standing Start". Sjaldan er ein báran stök. Eftir þessa mynd var áhorfendum tilkynnt að það yrðu ekki sýndar fleiri skoskar heimildarmyndir, því að þær höfðu borist á vitlausu formati. Þá var okkur sagt að nú yrði sýnd aftur "Pétur og úlfurinn", stutt brúðumynd sem ég var ekki búinn að sjá, þ.a. mér leist ágætlega á það. Þangað til myndin fór af stað. Því þar reyndist komin "Óður til Íslands", rosalega rembingslegur lofsöngur þýsks kvikmyndagerðarmanns til íslenskrar náttúru. Þessi mynd er hins vegar rúmir tveir tímar, og því var bara sýndur fyrsti hlutinn, og sagt að áhugasamir gætu komið og séð hana í heild sinni síðar. Ég var ekki beint spenntur fyrir þessari mynd fyrir, en mér myndi seint detta í hug að sitja undir fyrsta hlutanum aftur, meira að segja þótt hún hefði verið góð.

Standing Start
Lýsingin á þessari hljómaði eins og algjört fret: "Ævi- og baráttusaga Ódysseifs er borin saman við undirbúning reiðhjólakappa fyrir keppni." Hún reyndist talsvert betri en ég bjóst við. Að vísu var frásögn sögumanns frekar tilgerðarleg, en hún byggðist einvörðungu á köflum úr Ódysseifskviðu (lesnir með sterkum skoskum hreim). Allt annað var ansi gott, og sem hluti af heildinni var frásögnin ekki alvitlaus.
Í stuttu máli sagt þá er myndin byggð upp á hliðsetningu og hliðstæðum. Saga Ódysseifs er t.d. ekki beinlínis borin saman við undirbúning reiðhjólakappans (sem hjólar stutta spretti innanhúss), heldur er hún lesin yfir þessum myndum af undirbúningnum, og það er áhorfandans að sjá samhengið. Klipping og hljóðblöndun er mjög flott. Það er klippt rytmískt og með síauknum hraða milli mismunandi þátta undirbúningsins og hjólreiðanna sjálfra. Undir þessu er svo ágæt taktföst tónlist þar sem trommuleikurinn er í aðalhlutverki, og í einu skotanna sjáum við að það er hjólreiðamaðurinn sem spilar á trommurnar. Efnið er kannski ekki ýkja spennandi, en úrvinnslan er ansi hreint ágæt.

Óður til Íslands, fyrsti hluti
Nenni ekki að skrifa mikið um þessa. Ég upplifði þetta sem afskaplega dæmigerða náttúrulífsmynd. Það er fullt af flott uppbyggðum römmum, en þetta er allt afskaplega einsleitt. Það er gríðarlegt magn af "time lapse" skotum, og restin af skotunum eru eiginlega allt annað hvort draumkennd skot þar sem myndavélin hreyfist hægt (afturábak, áfram eða til hliðar) eða þá alveg kyrr skot. Aftur og aftur var klippt með hægu dissolvi úr skoti sem hreyfðist hægt í eina átt í skot sem hreyfðist hægt í aðra átt (t.d. skot sem hreyfist hægt til hliðar -> dissolve -> skot sem hreyfist hægt áfram). Tónlistin var klisjukennd og á köflum beinlínis ömurleg (einhver vælandi gítarsóló). Og yfir öllu var stanslaust blaðrið í sögumanni, þar sem lýsir á ýkt ljóðrænan hátt því sem fyrir augu ber (á þýsku).



Cannes stuttmyndir

Ætla ekki að skrifa um allar, en heilt yfir voru þetta fínar myndir.
"Love You More": Bara nokkuð fín stuttmynd um fyrsta skiptið. Unglingsstrákur og stelpa ætla bæði að kaupa sér nýju smáskífuna með Buzzcocks (árið er 1978), en það er bara eitt eintak til. Hún býður honum heim til sín að hlusta á plötuna, og það verður til þess að þau stunda kynlíf meðan lagið "Love You More" spilar aftur og aftur. Mér fannst hún mest skemmtileg fyrir það hvernig hún fangar þetta lykilmóment í lífi ungmennanna.
"Þráin": Önnur mynd sem notar lykilmóment sem útgangspunkt. Kona á miðjum aldri fellur í þunglyndi þegar eiginmaðurinn fer frá henni. Við sjáum viðbrögðin um leið og hann fer, síðan er klippt tvo mánuði fram í tímann, og það er greinilegt að hún hefur ekkert aðhafst þessa tvo mánuði, heldur verið eins og draugur. En þá fer hún að vakna aftur til lífsins, sérílagi kynferðislega, og í lokin virðist hún komin yfir erfiðasta hjallann.
"Næsta hæð": Virkilega flott mynd. Við sjáum hóp af fólki við langborð sem treður í sig rosalegu magni af mat, hópur þjóna sér til þess að alltaf sé nógur matur á borðinu. Sumir eru sýndir hratt þegar þeir háma í sig. Allir eru þaktir ryki. Allt í einu gefur gólfið sig og borðið og hópurinn hrynur niður á næstu hæð fyrir neðan. Yfirþjónninn talar í kallkerfi: "Næsta hæð," og ljósakrónan er látin síga niður um eina hæð. Þjónarnir spretta niður, dusta rykið af átvöglunum, og svo heldur veislan áfram. Myndin er flott og fyndin, en kannski ekkert rosalega innihaldsrík þannig séð. Maður fær á tilfinninguna að ætlunin sé að gagnrýna neysluþjóðfélagið, en mér finnst sú gagnrýni hvorki skýr né sterk. En fínasta skemmtun.

laugardagur, 23. ágúst 2008

Shorts & Docs 1: Íslenskar heimildamyndir

Ég fór á íslensku heimildamyndirnar á hátíðinni í kvöld, og þær voru ansi misjafnar. Þar fyrir utan voru smá vandamál á sýningunni milli fyrstu og annarrar myndar og í upphafi annarar myndar. Það liðu a.m.k. 5 mínútur milli "Magapínu" og "Ketils" - líkast til hafa þeir sýnt þær á mismunandi tækjum. Svo áttu þeir í mestu vandræðum með að fá "Ketil" til þess að passa á tjaldið, og það minnkaði svolítið ánægjuna af áhorfinu. Soldið pirrandi hvað þessi tæknilegu atriði geta vafist fyrir starfsfólki þessara hátíða.

Magapína
Ég verð að játa að ég mætti aðeins of seint og er því kannski ekki alveg dómbær á þessa. Samt, sá hluti myndarinnar sem ég sá var í litlu samræmi við lýsinguna í bæklingnum. Lýsingin í bæklingnum byrjar svona: "Yndislega beljan Branda á við stórt vandamál að stríða, hún er ánetjuð plasti." Miðað við þessa lýsingu heldur maður að beljan gegni stóru hlutverki og að persónuleiki hennar fái að skína í gegn, en það sem ég sá af myndinni mætti helst lýsa sem uppskurðar-horror, þar sem beljan var opnuð upp á gátt og plast og annað aðskotaefni rifið úr iðrum hennar. Ég sá mest eftir því að hafa ekki misst af meiru.

Ketill
Þessi var ansi góð á köflum, en datt niður inn á milli. Ketill er náttúrulega bráðsnjall karakter. Ég held ég fari rétt með það að hann var í barnatímanum þegar ég var lítill, en get ekki verið viss. Þessi mynd gefur manni rétt svipmynd af Katli, og maður skilur ekki alveg sumar áherslurnar (hver var t.d. þessi vinkona hans sem gaf frá sér öll þessi skrýtnu hljóð?)

Sagan um Svein Kristján Bjarnarson - öðru nafni Holger Cahill
Þessi var nokkuð áhugaverð, en langtífrá gallalaus. Í bæklingnum stendur að myndin sé enn í vinnslu, og hún bar þess nokkur merki. Ég tók t.d. eftir því að klippingin og hljóðblöndunin voru ekki alltaf eins og best verður á kosið. Þá var myndin líka í hægari kantinum. Saga Cahills er samt ansi áhugaverð - hann er svona "self-made man" og á sama tíma soldið dularfullur (það eru einhver 6-7 ár sem við vitum lítið um).

Kjötborg
Langbesta myndin af þessum fjórum. Þetta er einfaldlega hlý og skemmtileg mynd um fólk sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og flestir aðrir. Þetta á bæði við um þá bræður, Gunnar og Kristján, sem reka Kjötborg, og fastakúnnana sem eru margir ansi skrautlegir. Sannkölluð "feel-good" mynd sem rennur ljúft niður - einfaldlega mjög vel gerð og efnið er alveg kjörið í svona mynd.

fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Breytingar frá því í fyrra

1. Meira verklegt
Það var einróma álit hópsins í fyrra að verklegi þátturinn væri skemmtilegastur og lærdómsríkastur, og mætti vera veigameiri. Í stað tveggja stuttmyndaverkefna eru þau nú fjögur:
- stuttmyndamaraþon
- stutt heimildarmynd
- auglýsing
- lokaverkefni

2. Lokaprófið gildir minna
Í fyrra gilti tveggja tíma lokapróf 100% af prófeinkunn. Vægi lokaprófsins er nú 50%, og bloggið gildir nú 50% af prófseinkunninni.

3. Fyrirgjöfin fyrir bloggið hvetur til þess að unnið sé jafnt og þétt
Í fyrra var gefin ein einkunn fyrir hvora önn. Þá voru ansi margir sem freistuðust til þess að fresta vinnu sinni og taka törn í lok annar. Nú verður gefin einkunn fyrir hvern mánuð og ein einkunn í lok annar. September, október og nóvember gilda þá 16,7% hvor, og einkunn fyrir alla önnina 50%, þ.a. ef einhver freistast til þess að skrifa allar sínar færslur í desember, þá getur hann ekki fengið hærra en 5 fyrir önnina.

4. Nú verða keyptar bækur
Í fyrra var mikið notast við bókina Film Directing Fundamentals og nokkrar aðrar, en nemendur voru ekki látnir kaupa neina bók, heldur var efnið gert aðgengilegt á netinu. Þá fannst mönnum þeir ekki verða að lesa það. Að fenginni reynslu eigið þið nú að kaupa FDF og ljósritað hefti (bæði koma eftir 2-3 vikur).

5. Fleiri hátíðarferðir
Í fyrra fóru nemendur á a.m.k. tvær sýningar á RIFF. Nú farið þið á tvær sýningar á Reykjavík Shorts & Docs, auk þess sem þið farið á tvær sýningar og einn viðburð á RIFF. Við sjáum svo til með hátíðir á vorönn, þar er ekki úr mörgu að moða, en það getur hugsast að við förum á frönsku kvikmyndahátíðina.

Ég er örugglega að gleyma einhverju...

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Dagskrá viku 1

Föstudagur 22. ágúst
8.10-8.50: Kynning á námskeiðinu og spjall.

8.55-9.35: Horfum á nokkrar stuttmyndir til þess að koma okkur í gírinn.

Seinni tímarnir verða ekki kenndir í dag.

Mánudagur 25. ágúst
8.10-9.35: Kynning á myndavélinni okkar.

Miðvikudagur 27. ágúst
8.55-9.35: Fyrsta verkefnið, Stuttmyndamaraþonið, er kynnt og lagt fyrir.

Bíóferð
Í þessari viku eigið þið að fara á a.m.k. tvær sýningar á Reykjavík Shorts & Docs og skrifa bloggfærslu um hvora ferð. Hér er dagskráin:
Ég ætla að leyfa ykkur sjálfum að velja sýningar að fara á, en mæli þó sérstaklega með að þið farið á "Íslenskar heimildarmyndir" og eina stuttmyndasýningu.
Verð á einstakar sýningar er 600kr. Þið getið líka fengið passa sem gildir á allar myndirnar á sérstöku tilboðsverði (2500kr. held ég).