Ekki veit ég hvort það var þreytan, en á heildina litið var ég ekkert sérstaklega hrifinn af þessum myndum. Svo hefði ég líka átt að blogga um þessar myndir fyrr, þær eru soldið farnar að dofna í minningunni.
Eyja fannst mér óttalega dæmigerð artí stuttmynd - orðið "ljóðræn" í lýsingunni hefði átt að vara mann við, því svo virðist sem "ljóðræn"=samhengislaus.
Ég held ég hljóti að hafa meira og minna sofið í gegnum Snjó og Hnappinn því ég man sama sem ekkert eftir þeim.
Örstutt jól megnaði a.m.k. að vekja mig. Grunnhugmyndin þótti mér góð: íslenskur jólasveinn í sínu "upprunalegu" hlutverki, þ.e. tröll/skrímsli. Við skulum bara segja að nafnið Ketkrókur fær alveg nýja merkingu...
Fullkomin fannst mér ágæt þó svo að grunnhugmyndin hafi ekki verið neitt sérstaklega frumleg. Og þótt hún hafi verið ágætlega leikin, þá fannst mér eins persónur myndarinnar væru talsvert eldri en leikararnir, sérstaklega leikkonurnar (Gunnur Schlüter og Hera Hilmarsdóttir). Þessa mynd er líka hægt að sjá inni á dvoted.
Gjörgæsla var gargandi snilld. Örmynd, eiginlega bara smá skets, en alveg drepfyndin.
Konfektkassinn var bara ágætismynd. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja meira um hana...
Hestadans var hræðilegt listrænt rúnk. Nútímadans á svelli, eftir því sem ég komst næst voru dansararnir að túlka hross...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli