By Modern Measure var sæt lítil mynd. Svart-hvít í svona frönskum New Wave stíl og ég gæti trúað því að hún sé tekin á 8mm, myndin sýnir ungt par úti í eyðimörkinni. Það er ekkert hljóð nema frásögn sögumanns. Sögumaður lýsir ástarsambandi sem er blanda af klisju og ýktri neysluhyggju, mér fannst þetta vera kaldhæðin sýn franskrar listaspíru (frásögnin er á frönsku) á bandarískt neyslusamfélag. Stór hluti af textanum er skrásett vörumerki. Aðalpersónur hittast á Taco Bell. Þau ákveða að leggja af stað út í óvissuna og kaupa sér heilmikið magn af alls konar bandarískri "matvöru" eins og Skittles, Mountain Dew o.fl. Hins vegar kemur babb í bátinn þegar þau komast að því að henni finnst Doritos Cool Ranch bestu flögurnar, en honum finnst Doritos Nacho Cheese bestar. Þau mætast þó á miðri leið og semja sín á milli um að kaupa alltaf báðar tegundir... Skrýtin og sæt mynd.
Count Backwards from Five var afskaplega furðuleg. Þessi var greinilega tekin á 8mm, alls konar skrýtin skot sem virðast með öllu ótengd. Yfir þessu er svo símtal sem erfitt er að átta sig á, þ.e.a.s. þangað til að Neil Young lagið Let's Go Downtown fer í gang. Ég átti það erfitt með að átta mig á þessari mynd, að ég hélt að þetta væru tvær myndir, að með Neil Young laginu hefði hafist ný mynd...
Jag är bög var ansi skemmtileg. Hún er um Svía af grískum ættum sem er í matarboði hjá foreldrum sínum og er að reyna að mana sig upp í að segja fjölskyldunni að hann sé hommi. Við heyrum hugsanir hans og svo sjáum við það sem hann ímyndar sér að muni gerast ef hann segir þeim þetta (harmakvein móðurinnar, fordæming bróðurins, skömm föðurins), og hvað myndi gerast ef hann segði þeim ekki (kærastinn gæfist upp á honum). Allt er þetta mjög ýkt og alveg bráðfyndið.
Missing var líka mjög góð. Í upphafi myndar situr aðalpersónan, miðaldra karl, og horfir á sjónvarpið með konunni sinni, þegar hún fær símhringingu um að eiginmaður hennar sé týndur. Eftir það láta allir eins og hann sé týndur, en samt sjá þau hann og tala við hann - hann er meira segja sendur út til þess að hengja upp plaköt af sjálfum sér. Samt trúir honum enginn þegar hann segist vera hann sjálfur og að hann sé ekki týndur. Þegar hann gerist örvæntingarfullur og reynir að sviðsetja mannrán á sjálfum sér með því að senda í umslagi kröfu um lausnargjald og fingur af sér, þá trúir löggan ekki að þetta sé fingur af honum og hendir honum. Sem sagt, skemmtilega súrrealísk mynd með nokkrum alveg drepfyndnum augnablikum.
Laura in Action var mest bara hallærisleg. Það var svona þvinguð blanda af teiknimynd og live action, þar sem aðalpersónan er myndasöguhöfundur sem framkvæmir álíka hetjudáð og söguhetjan sín til þess að koma sögunni sinni til útgefanda. Bara ávísun á bjánahroll.
Drake var snilld. Við sjáum skuggamynd af fjölskyldu með fallegt sólarlag í bakgrunni. Fjölskyldufaðirinn ætlar að ná mynd af allri fjölskyldunni, og þetta hefst á léttu nótunum, hreyfingar hans þegar hann stillir upp myndavélinni eru stórar og miklar í ætt við þöglar gamanmyndir, og hann stillir timerinn á myndavélinni en hún smellir af akkúrat þegar hann gefst upp á biðinni og ætlar að athuga hvað er að. Síðan verður húmorinn dekkri: strákurinn vill ekki sitja kyrr, þannig að pabbinn slær til hans og í annað skiptið sem myndavélin smellir af er það einmitt þegar fyrsta högg mannsins dynur á konunni. Hann lemur hana og sparkar í hana, en þegar hann stillir upp myndavélinni (í þriðja sinn?) flýr hún inn í bílinn og kemst undan ásamt syninum, og skilur karlinn eftir með myndavélina. Stutt og skemmtileg mynd, sem er mjög létt og fyndin þrátt fyrir soldið ofbeldi.
Hinar myndirnar fannst mér ekkert sérstaklega minnisstæðar og nenni lítið að skrifa um þær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli