En nú að myndinni... Útgangspunkturinn var sá að Thom Andersen var ósáttur við það hvernig sagan fjallaði um listamennina sem lentu á svarta listanum. Opinbera afstaðan var sú að þessi hópur gæti vart talist mikilvægur í kvikmyndasögunni, að þarna væru engir mikilvægir listamenn og auk þess væri í raun enga róttækni að finna í verkum þeirra - þ.e. þessum vinstrisinnuðu listamönnum hefði ekki tekist að koma fyrir áróðri í myndum sínum. Thom Andersen fékk Noël Burch í lið með sér, og saman hófu þeir að rannsaka verk sem voru skrifuð eða leikstýrð af listamönnum sem lentu síðar á svarta listanum.
Eftir viðamiklar rannsóknir þar sem þeir horfðu á mörg hundruð bíómyndir og tóku viðtöl við fjölmarga sem höfðu lent á svarta listanum, töldu þeir sig komna með grunn að góðri heimildarmynd. Þetta var árið 1988. Og þá var komið að erfiða hlutanum. Í fyrstu var ætlun þeirra að búa til vandaða mynd, á filmu og þar sem þeir notuðu filmueintök af þeim myndum sem þeir ætluðu að vísa í, og myndu fá notkunarrétt á þessu öllu. Þetta hefði kostað um 500 þúsund dali, og þeir komust hvergi nærri því að fá slíka peninga. Þá settu þeir þetta verkefni á hilluna um stund, og árið 1995 ákváðu þeir að búa til það sem Andersen kallaði "a rough video version" af því sem þeir höfðu upphaflega í huga. Þannig er Red Hollywood búin til á vídeó, myndbrotin eru tekin af VHS-spólum og upptökum úr sjónvarpi, og myndin kostaði alls um 25 þúsund dali. Þá höfðu þeir í raun ekki notkunarrétt á myndbrotunum sem þeir notuðu, þ.a. ég held að þetta hafi aldrei komið út á VHS eða DVD (og mun líklegast aldrei gera það).
Myndin sjálf byggir að langmestu leyti á myndbrotum úr myndum sem eru leikstýrðar eða skrifaðar af listamönnum sem lentu á svarta listanum. Þessi brot eru notuð til þess að sýna þá þjóðfélagsádeilu og þau skilaboð sem þessir listamenn reyndu að koma til áhorfenda sinna. Í sumum tilvikum eru þetta myndir sem verða fyrir óréttmætri gagnrýni, þar sem þær eru gerðar meðan Sovétmenn voru bandamenn Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni (t.d. Song of Russia, þar sem Sovétið er lofsungið en í nafni stríðsáróðurs með Bandaríkjunum og bandamönnum). Í sumum tilvikum má túlka myndirnar á tvo vegu (Tender Comrade er dæmi um þetta, en í henni mynda fjórar konur hálfgerða kommúnu á meðan eiginmennirnir eru í stríðinu).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli