sunnudagur, 31. ágúst 2008

Shorts & Docs dagur 8: Mini Panorama stuttmyndir og Úrvals heimildamyndir

Á föstudaginn fór ég á tvær sýningar, "Mini Panorama stuttmyndir" og "Úrvals heimildamyndir".

Mini Panorama stuttmyndir
Þetta var hugsa ég jafnbesta sýningin sem ég fór á á hátíðinni. Það var kannski engin rosalega góð mynd þarna (bestu myndirnar á Sundance sýningunni, Missing, Drake og Jag är bög voru betri en þessar), en þar var engin slöpp mynd á þessari sýningu.

Flatmates var svona miðlungsgóð mynd um homosexual spennu milli sambýlinganna Björn og Hampus. Persónurnar voru nokkuð vel úr garði gerðar og leikurinn var fínn, en ef ég ætti að kvarta undan einhverju sérstöku þá var það að mér fannst myndin ekkert sérstaklega myndræn - ef þetta hefði verið gert að leikþætti þá hefði ekkert tapast.
The Great Magician þótti mér sniðug. Hún er um mikinn galdrakarl sem gæti gert hvað sem honum sýndist, en af siðferðilegum ástæðum kýs hann að nota ekki krafta sína heldur lifa fábrotnu og tilbreytingarsnauðu lífi. Mér fannst vera soldið Borges-legur absúrdismi yfir henni sem ég kunni að meta.

Situation Frank var að mínu mati besta myndin á þessari sýningu. Þetta er grátbrosleg mynd um mann sem missir konuna sína og fellur í þunglyndi í framhaldinu. Vinur hans gerir nokkrar mislukkaðar tilraunir til þess að kæta hann, og eru þær oft ansi fyndnar. Mér fannst mjög flott hvað tókst vel að samtvinna sorg og kímni í myndinni.

Love and War er ótrúleg samsuða. Söguþráðurinn er klisjukennd ástarsaga hjúkrunarkonu og orrustuflugmanns. Formið er miðlungsgóð animation með soldið ljótum dúkkudýrum (hjúkkan er kanína, flugmaðurinn er björn). Flutningurinn er í formi ítalskrar óperu. Mér þótti bara það að blanda þessu saman frekar fyndið, og eiginlega er það það sem bjargar myndinni - þetta er engin snilld fyrir utan þessa frumlegu blöndu. Svo hló ég upphátt þegar ég sá afkvæmi hjúkkunnar og flugmannsins sem var einhver fáránleg blanda af birni og kanínu...Hérna býður nágranninn kanínunni upp á smá beikon...

Medan tid är er krúttleg heimildamynd um gamla konu og tilraunir hennar til þess að finna sér karl á stefnumótavef. Ætli sérstaða myndarinnar sé ekki aldur persóna, en við erum ekki vön að sjá bíómyndir um ástamál fólks á áttræðisaldri. Það sem heldur myndinni hins vegar uppi er aðalpersónan, Margaretha, en hún er skemmtilega ákveðin og lífsglöð kona sem virðist ákveðin í að njóta lífsins.

Úrvals heimildamyndir
Þetta var án efa versta sýningin sem ég fór á á hátíðinni. Þrjár heimildamyndir og engin þeirra virkilega góð.

Purity Beats Everything er dönsk heimildamynd um helförina eftir einhvern jóskan bóndason. Það sem eitthvað er varið í í myndinni byggir á viðtölum við tvo eftirlifendur helfararinnar. Það sem eyðileggur myndina eru furðulegar tilraunir leikstjórans til þess að tengja þetta við sjálfan sig og sinn veruleika. Þannig fjarlægjumst við eftirlifendurna með því að vera í raun að horfa á leikstjórann horfa á viðtölin mikið af tímanum. Þar að auki er mikið af vangaveltum leikstjórans um helförina spilað yfir myndum af bóndabænum hans, án nokkurrar raunverulegrar tengingar þarna á milli. Ýktasta dæmið er líklegast þegar ræður Hitlers eru spilaðar: þá er iðulega sýndur þvottur á snúru að feykjast til og frá í vindhviðum. Hver var tilgangurinn með því?
The Birds Are Silent in the Forest er stórfurðuleg mynd. Aðalpersónan vinnur á lyftara, virðist frekar lífsleiður, en um helgar breytist hann í einhvern rosa veiðimann. Reyndar sjáum við hann aldrei veiða neitt, en við sjáum hann sitja í einhverjum turni í miðjum skógi að bíða færis alla helgina. Við vitum samt að hann er ekki algjörlega misheppnaður veiðimaður því heima hjá honur er heill veggur þakinn dádýrshornum og hann flettir í gegnum þykkt myndaalbúm fullt af dauðum dádýrum. Og við heyrum hann aldrei segja neitt. Spes...
Silence in a Noisy World er svona hálf góð heimildamynd. Myndin er um heyrnarskert börn í Kaíró og það sem er gert til þess að kenna þeim að tala. Gallinn við myndina er að við fáum aldrei neinar upplýsingar. Við bara sjáum daglegt líf þessara barna án þess að okkur sé sagt nokkuð annað. Ef ekki hefði verið fyrir bæklinginn þá hefði ég t.d. ekki vitað að myndin gerðist í Kaíró. Með viðtölum og sögumanni sem gæfi manni grundvallarupplýsingar um hagi barnanna og sögu þeirra hefði þetta getað orðið mjög góð mynd, en eins og hún er núna finnst mér þetta meira vera drög að mynd... Eitt var samt gaman: að sjá börnin fara með faðirvorið á táknmáli - ég vissi ekki að það væri gert.

Engin ummæli: