My Winnipeg
Á leiðinni út af þessari mynd heyrði ég einhvern tala um að Maddin hefði hæsta "walk-out ratio" í bransanum, þ.e. að hærra hlutfall áhorfenda fer út af myndum hans áður en þeim lýkur en hjá flestum öðrum leikstjórum. Það fór enginn út af þessari mynd eftir því sem ég best veit, en miðað við fyrstu 20 mínútur myndarinnar þá kemur mér ekki á óvart að margir skuli fara út. Og samt fannst mér myndin góð. Eftir þessar 20 mínútur fór hún nefnilega að verðlauna mann fyrir þolinmæðina, og það voru þó nokkur virkilega eftirminnileg og draumkennd augnablik seinasta klukkutímann. Raunar var seinni hluti myndarinnar það skemmtilegur að ég sá eftir því þegar hún kláraðist.My Winnipeg er draumkennd úttekt á heimaborg leikstjórans. Gegnumgangandi stef í myndinni er að "ég" sögumannsins (sem á væntanlega að vera leikstjórinn sjálfur) vill yfirgefa borgina en þarf fyrst að ganga frá lausum endum í sambandi sínu við borgina. Þetta gerir hann m.a. með því að leigja húsið þar sem hann bjó sem krakki, fara með mömmu sína þangað og leikara sem hann fær til þess að leika systkini sín, og láta þau leika eftirminnileg augnablik úr æsku sinni. Nema hvað á seinustu stundu ákveður konan sem býr þarna að hún vilji ekki flytja út, þ.a. þá eru þarna mamma leikstjórans, 3 leikarar sem leika systkini hans, pitbull hundur kærustu hans sem leikur chihuahua hundinn sem hann átti þegar hann var lítill og skrýtin kona sem hann þekkir ekki neitt. Mamman ku líka vera þaulvön leikkona eftir að hafa leikið í þáttunum Ledgeman, þar sem sami maður fer út á sömu sillu á hverjum degi og hótar að stökkva niður þangað til mamma hans talar hann til.Myndin segir ekki aðeins persónulega sögu Maddins af borginni heldur líka ýmis konar litlar sögur um borgina sem eru margar hverjar alveg ótrúlegar (og ég veit ekkert hverjar eru sannar og hverjar ekki). T.d. er brú yfir járnbrautargarðinn sem var upphaflega smíðuð til þess að liggja yfir ána Níl, en svo kom í ljós að hún passaði ekki þar og þá keypti Winnipeg brúna á útsöluverði. Einnig er skemmtileg sagan um það hvernig heimilislausa fólkið í Winnipeg býr allt á húsþökunum, og þegar skemmtigarðurinn "Happyland" lokaði hirti þetta fólk allt byggingarefni þaðan og byggði sér kofabyggðir ofan á húsþökum borgarinnar, þ.a. nokkurs konar afbakað "Happyland" myndaðist ofan á borginni. Kraftmesta sagan er þó eflaust sú um brunan á veðhlaupabrautinni. Þá kviknaði í veðhlaupabrautinni á kaldasta tíma árs. Hestarnir komust hvergi nema út í ána, nema hvað á sama tíma var hún að frjósa, þannig að úr varð að hestarnir frusu fastir í ánni þannig að höfuð þeirra stóðu uppúr og þannig voru þeir þangað til leysti, 5 mánuðum síðar.
Mér fannst líka skemmtilegt "touch" að myndin er öll með mjög gamaldags útliti, og t.d. er myndin oft látin líta út fyrir að vera á rispaðri filmu, en það er ekki nóg heldur mynda "rispurnar" þá snjóstorm yfir myndinni.
Í stuttu máli þá mæli ég eindregið með þessari, þetta er fyndin og einlæg draumsýn á skrýtið (en jafnframt pínu kunnuglegt) samfélag. Maður þarf bara að vera þolinmóður fyrstu 20 mínúturnar eða svo, þá bæði kemst maður í takt við myndina og hún tekur við sér.
5 ummæli:
Er firewire snúran hvít með svörtu dóti á endunum? Því þá er ég með hana ...
Flott færsla. 6 stig.
djöfulli stal kristján fokking brandaranum mínum!!!
Já. Það er örugglega snúran. Komdu henni bara til mín á morgun.
Minn, þinn, sjóhatturinn.
Skrifa ummæli