17. Bandaged
Ég myndi lýsa þessari mynd sem röð mjög slæmra ákvarðana.
Myndinni er lýst sem gamaldags sálfræðitrylli með smá lesbíuívafi, en nær aldrei að uppfylla þær væntingar. Leikurinn í myndinni er verulega takmarkaður, og lesbíusenurnar hljóta að vera þær verstu sem festar hafa verið á filmu. Ég dottaði oftar en einu sinni yfir þessum lesbíusenum!
Lauren Wissot skrifar fína umfjöllun um þessa mynd á hið ágæta kvikmyndablogg House Next Door, og er talsvert jákvæðari gagnvart myndinni í heild, en virðist samt að mestu leyti sammála mér um helstu gallana.
Að lokum, trailerinn:
18. Amadeus
Ætli það séu ekki komin næstum því 15 ár síðan ég sá þessa síðast. Í minningunni fannst mé hún ekkert sérstök. Mig minnir að leikarinn sem lék Mozart, Tom Hulce, hafi farið alveg hræðilega í taugarnar á mér.
Í þetta skiptið fannst mér þetta stórgóð mynd. Uppbyggingin er skemmtileg, leikurinn er góður (meira að segja alveg ágætur hjá Tom Hulce), tónlistin er mjög flott... Þetta er bara virkilega vönduð og góð mynd. Ég ætlaði að benda þeim sem ekki hafa séð hana að nýta tækifærið til þess að sjá hana á filmu, en þetta var víst seinasta sýningin á henni.
19. Lourdes
Áhugaverð og nokkuð skemmtileg á köflum. Myndin fjallar um Christine, unga konu sem þjáist af MS sjúkdómnum og er bundin við hjólastól. Hún er í pílagrímsferð í Lourdes, þar sem María mey á að hafa birst fólki. Raunar kemur fram að hún stundar það að fara í pílagrímsferðir, ekki þó til þess að fá lækningu heldur til þess að hitta fólk.
Megnið af myndinni er meinfyndin ádeila á það færiband sem Lourdes er, en þangað leita tugþúsundir manna á ári hverju. Síðan gerist kraftaverk (eða þannig lítur það út), og það er skemmtilegt að sjá viðbrögð manna við því. Þetta hljómar kannski soldið eins og verið sé að gera grín að trúuðu fólki eða fólki sem trúir á kraftaverk, en mér fannst alls ekki vera sá tónn í myndinni.
Ágæt mynd, en ekkert mikið meira en það.
2 ummæli:
Hvað sem þú gerir þá skaltu ekki fara á Better Things... ógeðslega leiðinleg og þunglynd mynd um ömurlegt lið. Það dó eitthvað innra með mér á þeirri sýningu
-Bóbó
Takk fyrir ábendinguna. Mér leist nú ekkert sérstaklega vel á lýsinguna, en hefði samt alveg verið vís til þess að villast á hana...
Skrifa ummæli