sunnudagur, 30. september 2007

RIFF: Dagur 4

Í dag ætla ég á þrjár af eftirfarandi fjórum myndum: Stelpur Rokka (Arne Johnson og Shane King), Járnbrautarstjörnurnar (Chema Rodríguez), Ferð Isku (Csaba Bollók) og Tómar (Jan Svêrák). Mig langar til þess að sjá þær allar, en veit að ég hef ekki úthald í svona margar í röð. Mér finnst líklegast að ég sleppi Tómar og reyni að ná henni seinna.

Prógrammið mitt. Smellið á það til þess að sjá það í læsilegri stærð.

Update kl. 00.25
Ég komst á þrjár myndir í dag: Stelpur Rokka (Arne Johnson og Shane King), Ferð Isku (Csaba Bollók) og Tómar (Jan Svêrák). Mér var skipað að mæta í mat, þ.a. ég varð að fórna Járnbrautarstjörnunum. Sem var reyndar ágætt, því ég var ekki búinn að borða almennilega máltíð síðan hátíðin hófst. Ekki var allt jafn ljúft í dag, því framlugtinni var stolið af hjólinu mínu fyrir framan Tjarnarbíó. Ég er hálf-fúll yfir því, en það er kannski bara hollt að komast aðeins niður á jörðina, maður líður um eins og á skýi milli sýninga, enda er þetta þvílík góssentíð.
Eftir að hafa séð álit annarra á atburðum gærdagsins er ég raunar farinn að velta fyrir mér hvort hamingjan með hátíðina sé farin að skerða dómgreindina. Árni og Bóbó voru allt annað en ánægðir með Hrollvekjutónleikana, og Tripper og Black Sheep fengu háðulega útreið í Mogganum í morgun. Ég stend nú samt við mitt, ég skemmti mér konunglega á Miðnæturbíóinu. Ég skal reyndar alveg játa það að Tripper er ekki góð mynd, og ef ég hefði verið að horfa á hana heima á DVD hefði mér líklega fundist þetta algjör sori, en ég hafði gaman af henni. Og Black Sheep var bara mjög fín. Auðvitað er þetta ekkert kvikmyndameistaraverk, en hún er alveg efni í költmynd. Og ég var algjörlega að fíla tónleikana á meðan allt virkaði. Þó ætti ég að taka fram að ég mætti með mjög jákvæðu hugarfari, m.a. vegna þess að kunningi minn sá um þetta allt saman, þ.a. ég var kannski meira tilbúinn til þess að fyrirgefa honum tæknifeilana en þeir Árni og Bóbó, og ég hef fullan skilning á pirringnum hjá þeim.

Stelpur Rokka (Arne Johnson og Shane King)
Stórskemmtileg. Það vita væntanlega flestir út á hvað myndin gengur: Konur sem voru virkar í pönkinu/rokkinu á 9. áratugnum halda úti rokk-sumarbúðum fyrir stúlkur á aldrinum 8-18, þar sem þær geta fundið sig, stundað sjálfseflingu (empowerment) og bara rokkað feitt.
Frábærir karakterar halda myndinni uppi. 80 stúlkur eru í búðunum en fjórar þeirra eru settar í aðalhlutverk í myndinni. Best fannst mér sú yngsta, Palace, sem var ótrúlegur karakter. Sú elsta, Misty, var líka áhugaverð, m.a. vegna þeirra rauna sem hún hefur gengið í gegnum, en hún er nýsloppin úr fangelsi, foreldrar hennar eru í dópi og hún hefur verið heimilislaus stóran part unglingsáranna.
Rokkbúðirnar virðast hjálpa Misty, og raunar öllum sem rætt er við, og þetta er bara rosalega flott framtak. Mér skilst að eitthvað svipað hafi verið reynt á Íslandi (stelpa úr Dúkkulísunum var víst með leikjanámskeið eða eitthvað þess háttar í svipuðum dúr seinasta sumar), og það er auðvitað mjög flott, enda væntanlega æskilegt að stúlkur finni sér stekrari fyrirmyndir en Britney Spears og félaga. Svo eru víst líka til rokkbúðir fyrir fullorðnar konur...

Ferð Isku (Csaba Bollók)
Raunaleg mynd um hrikalegar aðstæður stúlkunnar Isku. Hún er bláfátæk, betlar mat og vinnur sér inn smáaur með því að safna brotajárni. Mamma hennar og stjúpfaðir eru fyllibyttur og þegar hún kemur ekki heim með nógu mikinn pening er hún lamin. Hún og stjúpsystir hennar eru settar á munaðarleysingjahæli, og þar batnar líðanin í skamma stund, eða þar til móðirin sækir Isku (en hirðir ekkert um stjúpsysturina því hún er veik og nýtist því ekki í sendiferðir eða þrælkunarvinnu).
Þetta var síðasta sýning á þessari mynd, þ.a. ég ætla að leyfa mér að skella inn einum rosalegum SPOILER. Myndin er verulega sorgleg, en þó slær endirinn allt út. Iska ætlar í lestarferð að sjónum með vini sínum, en fer fyrst á munaðarleysingjahælið til þess að kveðja stjúpsystur sína sem er að deyja úr berklum. Vinurinn bíður eftir henni á lestarstöðinni, en þegar hún húkkar sér far aftur á lestarstöðina er henni rænt og í lok myndar er hún á leið í kynlífsþrælkun, líklegast í einhverju Vestur-Evrópsku landi (eða kannski Tyrklandi), 13-15 ára gömul. Hrikalega átakanlegur endir.

Tómar (Jan Svêrák)
Ferð Isku hefði líklegast haft meiri áhrif á mig ef ég hefði ekki verið hræddur um að verða og seinn á þessa. Ferð Isku byrjaði nefnilega of seint, og ég var tæpur á tíma fyrir - þurfti að komast úr Tjarnarbíói upp í Regnboga fyrir kl. 10. Sem sagt, ég hjólaði á fullri ferð (ljóslaus) og var kominn í salinn rétt áður en sýningin hófst.
Tómar er ansi fín. Fyrir þá sem sáu Kolya þá er þessi eftir sama mann og svipaður andi yfir henni. Kennarinn Tkaloun er 65 ára gamall og gefst upp á kennslunni en er of eirðarlaus til þess að setjast í helgan stein. Eftir misheppnaðan feril sem reiðhjólasendill fær hann starf í súpermarkaði við að taka við tómum flöskum, og unir sér vel. Hljómar kannski ekkert sérlega spennandi, en myndin er krydduð af stórskemmtilegum húmor.
(Tékkar eru skv. minni reynslu miklir húmoristar, og ég hef heyrt það að tékkneskur húmor sé líka furðulega líkur þeim íslenska. Íslenskur leikstjóri (man ekki hver) sýndi myndina sína á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni (þar sem Mýrin vann einmitt um daginn), og var nánast agndofa yfir því að tékknesku áhorfendurnir hlógu á nákvæmlega sömu stöðum og þeir íslensku.)
Þetta er bara falleg, skemmtileg, hugljúf lítil mynd. Hún leggur ekki upp með það að breyta heiminum eða opna augu okkar eins og hinar tvær sem ég sá í dag, heldur einfaldlega að skemmta okkur og koma okkur í gott skap, og það gerir hún listavel. Mæli með þessari.

Sem sagt þrjár fínar myndir. Af einhverri ástæðu vill Blogger ekki leyfa mér að bæta við mynd akkúrat núna, þ.a. þessi færsla verður að vera svolítið þurr enn sem komið er. Sem er fúlt, ég var einmitt búinn að finna myndina sem ég ætlaði að hafa við Girls Rock - þar sem ofvirka stelpan (minnir að hún heiti Am) er að spila á gítar með tönnunum!

laugardagur, 29. september 2007

RIFF: Dagur 3

--Kl. 18.30--
Í dag er ég hingað til búinn að fara á spjall með Aki Kaurismäki, fyrirlestur um anime og japönsku teiknimyndina Papriku (Satoshi Kon). Seinna í kvöld ætla ég á Miðnæturbíóið þar sem eru hrollvekjutónleikar og tvær hryllingsmyndir.

Kaurismäki

Þetta spjall var bölvuð steypa. Mér skilst Kaurismäki og Friðrik Þór hafi verið búnir að fá sér aðeins í glas áður en þeir mættu, og þeir voru í því að bulla í hvorum öðrum og Kaurismäki sneri út úr öllum spurningum sem hann fékk. Það eina vitræna sem kom upp úr honum var eitthvað á þessa leið: "Cinema is the most beautiful artform because it joins everything together: music, poetry, theater and painting."
Sem dæmi um útúrsnúningana í karlinum, þá fékkst hann ekki til þess að tjá velþóknun sína á neinum kvikmyndum öðrum en Nóa albínóa og kvikmyndagerð í Tíbet og Búrkína Fasó.

Fyrirlestur um anime
Þetta var frekar þurr fyrirlestur, og ekki bætti það úr skák að hann var fluttur í gegnum túlk. Mér finnst ég ekki vera neinu nær um anime.

Paprika (Satoshi Kon)
Snilldarmynd. Flott teiknuð og ótrúlegt hugmyndaflug. Plottið skiptir ekki öllu en er eitthvað á þessa leið: Hópur vísindamanna hefur fundið upp tæki sem getur tekið upp drauma, og virðist líka geta leyft fólki að taka þátt í draumum hvors annars. Tækinu er stolið og fólk sem hefur prófað tækið fer að festast í draumum sínum, eða jafnvel draumi einhvers annars. Paprika, sem er draumsjálf vísindamannsins Atsoko, þarf að bjarga málunum.
Myndin er fyndin og ótrúlega súr á köflum. Það eru bráðskemmtilegar senur þar sem verur morfast og við stökkvum úr einu í annað, erum á einum stað en síðan allt í einu komin eitthvert allt annað, eins og gengur og gerist í draumum. Þegar líður á myndina verða skilin milli drauma og vöku óskýrari, og við erum sjaldnast viss hvort er. Svo er líka fullt af tilvísunum í kvikmyndasöguna, a.m.k. Roman Holiday og The Shining, ég held að ein tilvísunin sé úr Strangers on a Train, en er ekki alveg viss (a.m.k. einhver Hitchcock mynd).
Ég mæli eindregið með þessari.

Eftir Papriku dreif ég mig heim að borða, því ég ætlaði að ná Íslensku stuttmyndunum. Það gekk ekki, því það var orðið uppselt þegar ég kom í Regnbogann. Ég kom hins vegar við í Tjarnarbíói á leiðinni heim og náði mér í miða á Miðnæturmyndirnar. Í Norræna húsinu hitti ég nefnilega kunningja minn sem sér einmitt um Miðnæturmyndirnar og spilar á Hryllingsmyndatónleikunum, og þetta hljómaði svo skemmtilega að ég varð að drífa mig. Það á sem sagt að varpa myndbrotum úr hryllingsmyndum meðan á tónleikunum stendur, og hann er búinn að standa í því að finna myndbrot seinustu vikurnar. Þetta hljómar ansi spennandi - alls konar hryllingsmyndaklipp og góð tónlist, það ætti engan að svíkja.

--Kl. 3.15--
Miðnæturbíó
Dagskráin var í þremur liðum. Fyrst voru hryllingsmyndatónleikar þar sem spiluð voru stef úr hryllingsmyndum á meðan myndbrot voru sýnd. Síðan kom myndin Tripper (David Arquette), og loks Black Sheep (Jonathan King).
Því miður brást tæknin eitthvað eftir fimm lög á hryllingsmyndatónleikunum, og taka þurfti hálftíma-pásu áður en hægt var að halda áfram, og þá voru spiluð önnur sex lög, þar af tvö án myndbrots. Á meðan þeir gengu, sérstaklega fyrir pásuna, þá voru þessir tónleikar geðveikir. Byrjað var á mjög flottu stefi með rosalegu myndbroti úr Bay of Blood (Mario Bava). Þetta var greinilega bandaríska útgáfan. Sú breska var klippt um 40 sekúndur, og ég held þær hafi allar verið í þessu myndbroti. Síðan komu þrjár myndir sem ég þekki ekki, en það var giallo-fílingur yfir þeim, ég gæti trúað að nr. 3 hafi verið eftir Dario Argento. Svo kom hápunktur kvöldsins: Halloween (Wes Craven). Stefið í myndinni er náttúrulega geggjað, og útfærslan á því hjá hljómsveitinni var frábær - virkilega búið að gera það kröftugra, þéttara og það var bara massíft. Samspil tónlistar og myndbrots var stórkostleg.
Stemningin í salnum datt svolítið niður í hléinu, og það voru kannski ekki alveg jafn afgerandi lög. Gremlins var skemmtilegt, og Scream tókst ansi vel. Ég hefði virkilega viljað upplifa Cannibal Holocaust myndbrotið með tónlistinni, því það er tónlist sem virkar eiginlega bara í samspili við myndefnið - tónlistin er róleg og einhvern vegin friðsæl, en myndin er hrottaleg og blóðug (ef notast var við atriðið sem ég held að notast hafi verið við). Allt í allt frábær upplifun og stórskemmtilegt konsept. Ég vona að strákarnir geri þetta aftur.

Tripper (David Arquette)
Nokkuð skemmtileg mynd. Hefst á svona Halloween forsögu þar sem við sjáum vonda kallinn sem barn drepa í fyrsta sinn. Síðan hefst hin raunverulega saga. Hópur hippa fer á "Free Love Festival" í skógi nokkrum, en þeir eru svo stráfelldir af brjálæðingi í Ronald Reagan grímu. Hipparnir eru allir útúrdópaðir, nema stúlkan-sem-lifir-af. Þannig að þetta er smá afbökun á hefðinni, í stað þess að persónum sé "refsað" fyrir að stunda kynlíf og að góða stúlkan (sem er auðvitað hrein mey) ráði niðurlögum skrímslisins, er fólki nú að mestu refsað fyrir að nota eiturlyf (það er reyndar alls ekki algilt, og því allt of mikil einföldun), og góða stúlkan sem stendur uppi að lokum er (næstum því) edrú. Ég hugsa að þeir sem deyja séu samt allir annað hvort á dópi eða fégráðugir repúblikanar. Það er samt svolítið of flókið.
Myndin er skemmtilegur útúrsnúningur á "slasher"-myndinni, ansi blóðug á köflum, en samt fyrst og fremst fyndin.

Black Sheep (Jonathan King)
Ef Tripper var fyndin þá er þessi sprenghlægileg. Bara konseptið, morðóðar erfðabreyttar kindur, er fyndið. Þar að auki er hún uppfull af bröndurum og skemmtilegum uppákomum. Mest er hlegið að aðalkvenhetjunni, náttúruverndarofstopa og jógagúrú sem ætlar sér að frelsa kindurnar úr ánauð sinni. Aðalkarlhetjan á líka sín móment, en hann er einmitt haldinn sauðafóbíu eftir áfall í æsku.
Mig langar til þess að skrifa meira um Black Sheep en klukkan er núna korter í fjögur að nóttu, og ég held ekki að ég hafi úthald í meira.

föstudagur, 28. september 2007

RIFF: Dagur 2

Í gærkvöldi fór ég á þrjár myndir sem allar voru mjög góðar. Raunar var þreytan aðeins farin að segja til sín í síðustu myndinni, eftir að ég var búinn að sitja í Tjarnarbíói í 6 tíma nokkurn veginn samfleitt.
Myndirnar voru:
Heimsókn hljómsveitarinnar (Eran Kolirin), kl. 6.
Egypskri lögregluhljómsveit er boðið að spila í Ísrael, en þeir villast á leiðinni og festast í litlum bæ í miðri eyðimörkinni. Myndin er bráðfyndinn gamanleikur um samskipti hljómsveitarmeðlima við bæjarbúa. Nú eru Egyptar og Ísraelar ekki bestu vinir, en eins og leikstjórinn sagði í spjallinu eftir myndina þá eru það ekki einstaklingar sem eiga í slíkum deilum heldur þjóðir. Pælingin er sú að þegar fólk sem á að hatast hittist, og maður sér að óvinurinn er bara manneskja eins og maður sjálfur, þá hlýtur hatrið að hverfa. Maður hefur svo sem séð þessa hugmynd í fleiri bíómyndum, en þetta er falleg hugsun fyrir því.
Fyndnustu senurnar í myndinni voru þær vandræðalegustu. Uppáhaldssenan mín er sú þar sem hljómsveitin situr að snæðingi á litlum veitingastað. Við tökum eftir því að hljómsveitarmeðlimir horfa vandræðalega á veggina, og svo sjáum við að á veggjunum eru hetjumyndir af ísraelskum hermönnum og skriðdrekum, líklegast úr sex daga stríðinu (sem háð var við Egypta). Þetta hljómar kannski ekki svo fyndið, en það myndast bara svo ótrúlega vandræðaleg stemning í þessu atriði.

Þið lifendur (Roy Andersson), kl. 8.
Gargandi snilld! Ef þú ímyndar þér blöndu af sýrutrippi og steingráu sænsku raunsæi, þá gæti það komist nálægt mynd Roy Andersson. Löng skot, kyrrstæð myndavél og allt tekið í stúdíói. Við kynnumst hópi persóna, sumar tengjast, aðrar ekki. Húmorinn er kolbikasvartur. Fólkið í myndinni er hrottalega sorglegt og maður hlær stanslaust að þeim, og fær smá samviskubit eftir á.
Þar er ekki margt sem ég get sagt um þessa mynd. Hún er uppfull af litlum bröndurum, og hefur þvílíkt svarta sýn á heiminn. Á köflum er yndislegur sjónrænn húmor sem minnir mig mest á þöglar grínmyndir. Sena þar sem smiður í fínu samkvæmi ætlar að kippa dúknum af borðstofuborðinu er stórfengleg - Chaplin hefði ekki getað gert hana betur.
Roy Andersson er ekki allra. Maður fær stundum á tilfinninguna að hann hati persónurnar sínar og jafnvel heiminn allan, svo svartur er húmorinn. En ég elska myndirnar hans, bæði húmorinn og hugmyndaauðgina sem hann sýnir. Þar að auki er þessi mynd mjög sjónrænt flott.
"Á morgun kemur nýr dagur."

Shotgun Stories (Jeff Nichols), kl. 10.
Ansi fín mynd, mjög flott á köflum og það skapast sterk stemning. Mér fannst hún frekar hæg á köflum, en ég held að það sé frekar til komið af því að þetta var þriðja myndin sem ég horfði á í einum rykk.
Bræðurnir (og Suðurríkjadrjólarnir) Son, Kid og Boy lenda í útistöðum við hálfbræður sína eftir að pabbinn deyr og Son talar illa um hann í jarðarförinni. Skapast þá mikil spenna, og maður býst við átökum og drápum og hjaðningavígum, en myndin einbeitir sér að stemningunni og spennunni frekar en ofbeldinu.
Það er ótrúlegt hvað stutt lýsing í bæklingi getur eyðilagt fyrir manni bíóferð. Eftir að hafa lesið lýsinguna á þessari mynd, þá bjóst ég við hrárri, svart-hvítri ofbeldismynd, og einhvern veginn beið ég alla myndina eftir að myndin sem ég bjóst við myndi birtast á tjaldinu. Í rauninni er þetta miklu betri mynd en ég bjóst við, en ég datt aldrei nógu vel inn í hana vegna þeirra væntinga sem ég hafði. Hvað á maður eiginlega að gera? Á maður að sleppa því alveg að lesa bæklinginn og fara bara á "random" myndir? Í flestum tilvikum hefur þetta lítil áhrif, en mín tilfinning er sú að bíóupplifun mín á þessari mynd hefði verið miklu betri ef ég hefði ekki verið búinn að lesa lýsinguna.
Samt, þetta er góð mynd sem ég mæli hiklaust með. Myndatakan, tónlist og sagan eru virkilega góð, og díalógurinn er ansi skemmtilegur á köflum.

Sem sagt, ég hélt út í þrjár myndir og hefði ekki viljað sleppa neinni þeirra. Stórgott kvöld í alla staði.

fimmtudagur, 27. september 2007

RIFF: Dagur 1

Í kvöld fór ég á tvær myndir:
Híena (Grzegorz Lewandowski)
Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með þessa. Raunar get ég ekki myndað mér pottþétta skoðun á myndinni sjálfri því gæði sýningarinnar voru afleit. Myndin var á digibeta og var sýnd á myndvarpa sem var kominn af léttasta skeiði. Það var a.m.k. einn mjög áberandi dauður pixel í myndvarpanum (grænn punktur fyrir miðri mynd) og frekar stór rauð klessa á öðrum stað. Þetta var bæði mjög áberandi í dimmum senum, og það var nóg af þeim í þessari mynd. Hljóðið var líka fráleitt. Fyrstu 2-3 mínúturnar var ekkert hljóð, og þegar það komst loks í gang þá var bara haldið áfram, þrátt fyrir að það sé minna en ekkert mál að spóla til baka á svona digibeta. Hljóðkerfið (í sal 3 í Regnboganum) gæti hugsanlega verið ónýtt, því í hvert skipti sem hljóðið varð eitthvað hátt komu bara drunur og distortion úr hátölurunum. Loks var textinn á afleitri ensku, og það truflaði mig öðru hvoru.
Annars var margt ágætt í myndinni sjálfri. Sögusviðið yfirgefið iðnaðarsvæði í Póllandi, drungalegt og fráhrindandi. Aðalpersónan er ungur drengur sem er alinn upp á draugasögum, og hann og vinir hans keppast við að segja sögur af voðaverkum sem eiga að hafa gerst eða eiga að vera að gerast í nágrenninu. Titillinn vísar í þá sögu sem er lífseigust í gegnum myndina: mannætu-hýena gengur laus.
Það tekst ágætlega að skapa stemmningu, sérstaklega í kringum mjög skuggaleg undirgöng sem drengurinn þarf að fara í gegnum á hverjum degi á leiðinni heim úr skólanum. Við búumst alltaf við því að einhver/eitthvað stigi út úr skuggunum og taki hann.
Í lýsingu á myndinni segir að myndin "gerist á landamærum veruleika og ímyndunar", og ég bjóst við að það yrði meira unnið úr þessu, eða að maður fengi skýrari mynd af þessari hlið sögunnar. Fyrir utan 1-2 martraðasenur, fannst mér aldrei að við sæjum eitthvað sem aðalpersónan var bara að ímynda sér. Mér finnst því eðlilegast að ætla að allt sem við sjáum sé raunverulegt, og að ímyndunina sé fyrst og fremst að finna í orðum drengsins.
En meira að segja þótt ég hefði séð myndina í almennilegum mynd- og hljóðgæðum, held ég ekki að þetta hefði nokkurn tímann verið virkilega góð mynd. Maðurinn með brunasárið er allt of "over the top" og ekki nærri því nógu áhugaverð persóna. Það kemur manni heldur ekki mikið á óvart hver hinn raunverulegi morðingi er, því sú persóna lætur mjög grunsamlega megnið af myndinni. Sterkustu þættir myndarinnar eru leikmynd og lýsing, og þeir njóta sín ekki nógu vel í þessum myndgæðum.

Himinbrún (Fatih Akin)
Þessi var ansi góð. Menningarheimar mætast og takast á, fyrst í þýskri stórborg, svo í þýskri bókabúð í Miklagarði (Istanbúl). Líf nokkurra persóna fléttast saman á mjög ólíklegan hátt. Það er margt ágætt við þessa mynd, en hún hefur líka nokkra galla sem eru dæmigerðir fyrir svona fléttumyndir. Öfugt við seinni tíma fléttumyndir eins og Crash, Babel og Syriana (sem var reyndar ágæt), þá finnst mér þessi aldrei verða neitt sérlega "preachy". Það er ekki verið að troða upp á okkur einhverja lexíu um einhvern samfélagsvanda.
Meginvandi myndarinnar er persónusköpunin. Mér fannst persónurnar almennt séð vera of einvíðar og einfaldar til þess að ég gæti samsamað mig við þær. Þetta eru týpur og ég gleymdi því aldrei að þetta væru karakterar í bíómynd, mér fannst þetta aldrei verða sannfærandi "fólk". Pabbinn komst kannski næst því að verða manneskja. Það var sérstaklega ein sena, þar sem tyrkneska stúlkan (Ayten) rífst við þýsku mömmuna. Þessi sena eyðilagði eiginlega fyrir mér persónu tyrknesku stúlkunnar, því eftir þetta fannst mér hún bara vera málpípa einhverrar pólitískrar skoðunar frekar en persóna.
Núna hljóma ég eins og mér hafi fundist myndin vond, en það er alls ekki raunin. Þó svo að persónurnar séu þesslegar, þá finnst mér ég aldrei vera að horfa á einhverja dæmisögu (öfugt við t.d. Crash). Ég held bara að ég hefði getað lifað mig meira inn í myndina ef persónurnar hefðu verið trúverðugri. Þar að auki fannst mér fléttan eiginlega of snyrtileg, maður var of meðvitaður um að atburðir eða hlutir væru "plot points."
Ég er ekki alveg nógu ánægður með þessa færslu, því myndin hljómar miklu verri en hún er. Mér tekst einfaldlega ekki að henda reiður á því sem er gott við myndina, þó svo að hún sé sannarlega góð.

þriðjudagur, 25. september 2007

RIFF - Siggi mælir með ... bíómyndum

Eftir að hafa farið í gegnum hátíðardagskrána og skoðað myndirnar aðeins þar fyrir utan þá eru u.þ.b. 40 myndir sem ég væri til í að sjá. En auðvitað langar mig meira til þess að sjá sumar þeirra en aðrar. Ég hef því skipt þessum myndum í fjóra flokka eftir forgangsröð.

1. Myndir sem ekkert mun hindra mig í að sjá
Þið, lifendur (Roy Andersson)
Á kvikmyndahátíðinni árið 2000 sá ég Söngva af annarri hæð eftir sama leikstjóra, og það er einhver rosalegasta bíó-upplifun ævi minnar. Sú mynd er gargandi snilld og jafnframt súrari en allt. Þessi virðist vera í svipuðum dúr. Ekki missa af þessari fyrir nokkra muni!
Rammi úr Söngvum af annarri hæð. Bara snilld! Kannski ég leyfi ykkur að sjá hana eftir áramót...

Shotgun Stories (Jeff Nichols)
Mér líst ansi vel á þessa. Hræódýr bandarísk indí-mynd sem er jafnframt tragedía/ættardeila í ætt við Shakespeare og Íslendingasögurnar. Hún fær reyndar blendnar umsagnir á IMDb, en lýsingin leggst bara svo vel í mig...

Íslenskar stuttmyndir
Á laugardag kl. 18 og sunnudag kl. 16 í Regnboganum verður sýndur hellingur af íslenskum stuttmyndum, og sumar þeirra hljóma nokkuð spennandi. Það væri vafalítið fróðlegt fyrir okkur að kíkja, því þetta er jú það kvikmyndaform sem við vinnum í í vetur. Á laugardeginum mæta einhverjir leikstjórar til þess að svara spurningum. Be there or be square.

Rótleysi (JIŘÍ VEJDĚLEK)
Gamanmynd um ferðalag þriggja sígauna. Ég veit ekki mikið meira um þessa mynd, en ég hef góða tilfinningu fyrir henni. Og ég hef aldrei séð leiðinlega gamanmynd um sígauna (hef reyndar bara séð 2-3 stykki, þ.a. það er spurning hvort úrtakið sé marktækt...)

Hef ekki tíma í meira í bili. To be continued...

mánudagur, 24. september 2007

RIFF - Siggi mælir með...(1): Viðburðir og málþing

Nú nálgast upphaf kvimyndahátíðarinnar óðfluga. Aðalatriðið á hátíðinni er auðvitað bíómyndirnar, en ég ætla að byrja á að benda ykkur viðburði og málþing sem gæti verið gaman að mæta á.

Grettir kabarett
Þið skráið ykkur á Hressó fimmtudaginn 27. september, kl. 17:00.
Þið hafið 48 klst. til þess að ljúka við stutmynd.
Þátttökugjaldið er 1500kr.
Það væri frábært ef við gætum safnað saman í einn hóp í þessari keppni!

Sundbíó
Langar þig til þess að horfa á Jaws í Laugardalslauginni?
Laugardaginn 29. september, kl. 19-22 verður Jaws sýnd undir vatnsyfirborðinu.
Takið með ykkur snorkel og sundgleraugu, þetta verður frábær stemning...

Námskeið um eftirvinnslu á heimildarmyndum
Langáhugaverðasta málþingið.
"Leikstjórar heimildamynda sitja oft uppi með hundruðir klukkustunda af efni, en hvernig er hægt að breyta slíkum hafsjó af upptökum í kröftuga heimildamynd?"
Fræðandi og spennandi.
Miðvikudaginn 3. október, kl. 13-16, í Norræna húsinu. Nú geta þeir sem eru búnir kl. 13 virkilega nýtt sér það.

Japanskar teiknimyndir
Norræna húsið, laugardaginn 29. september, kl. 14-17.
Japanskar teiknimyndir eru áhugavert listform og það er margt spennandi að gerast á þeim bænum. Sérfræðingur um anime, Nobuyuki Tsugata, flytur fyrirlestur um anime og framtíð teiknimynda. Nokkuð áhugavert.

Spjall við Aki Kaurismäki
Norræna húsið, laugardaginn 29. september, kl. 12-14
Ef karlinn er eins skemmtilegur og sögur fara af, þá má maður ekki missa af þessu.

Hvert stefnir íslensk kvikmyndagerð?
Norræna húsið, sunnudaginn 30. september, kl. 13-16.
Hljómar svolítið þurrt, en gæti verið ansi áhugavert...

Ég veit vel að sumt af þessu er á skólatíma, og ef maður ætlar á allt á laugardeginum þá fer bókstaflega allur dagurinn í það. En ég skora á ykkur að mæta á a.m.k. einn svona viðburð. Ég held að heimildarmyndanámskeiðið sé alveg sérstaklega fróðlegt, og það væri örugglega frábært að taka þátt í Gretti.


föstudagur, 21. september 2007

Dagskrá næstu viku

Á mánudag er tvöfaldur tími og þá höldum við áfram að skoða kvikmyndasöguna. Ég sýni ykkur væntanlega fleiri myndbrot úr snilldarþáttunum Hollywood. Þessir þættir fjalla um þögla tímabilið í Hollywood og eru einhverjir bestu þættir sem ég hef séð.
Á miðvikudag er einfaldur tími (mæting 8:55) þar sem haldið verður áfram með kvikmyndasöguna. Vonandi náum við að klára þögla tímabilið í þessum tíma.
Á miðvikudag er líka bíósýning, kl. 16:10, og á hana eiga allir að mæta. Sýnd verður The General, stórvirki Buster Keaton. Þessi mynd er stórkostleg, og það má enginn láta hana fram hjá sér fara.

fimmtudagur, 20. september 2007

100 bestu myndirnar sem eru ekki á ensku

Edward Copeland sem bloggar á eddieonfilm.blogspot.com tók sig til og gerði könnun meðal helstu kvikmyndabloggaranna til þess að finna 100 bestu "erlendu" (ekki á ensku) myndir allra tíma. Listinn er skemmtilegur aflestrar og að mörgu leyti fróðlegur. Sumt kemur á óvart, og ber titill listans keim af því: "The Satyajit Ray Memorial Anything-But-Definitive List of Non-English Language Films", en nafnið er einmitt tilkomið af því að engin af myndum Satyajit Ray komst á listan og Copeland var allt annað en ánægður með það.
Hvað um það... Akira Kurosawa á flestar myndir á topp 100 (Throne of Blood #64, High and Low #51, Yojimbo #44, Ran #16, Ikiru #14, Rashomon #13 og Seven Samurai #2). Hann nær þó ekki toppsætinu, því þar trónir Jean Renoir með La Régle du jeu (Rules of the Game), sem er nota bene snilldarmynd, þó ég sé ekki viss um að hún myndi endilega vera á toppnum hjá mér.
Ég er búinn að sjá 49 af þessum 100 myndum. Aftur á móti er ég búinn að sjá 15 af efstu 20. Þar að auki eru 15 myndir á þessum lista sem ég á til hjá mér, en á bara eftir að horfa á. Þannig að þessi listi virkar sem hvatning til þess að sjá þessar myndir.
Hvað eruð þið búnir að sjá margar?
Besta erlenda mynd allra tíma?
Rammi úr La Régle du jeu eftir Jean Renoir
(sem er annar frá vinstri og er frábær í þessari mynd)

Leikstjóraheimsókn: Guðný Halldórsdóttir

Ég var bara ansi ánægður með þessa heimsókn, og þið stóðuð ykkur líka með prýði og spurðuð margra góðra spurninga. Ingólfur fær sérstakan plús í kladdann fyrir að taka eftir þessu í lokasenunni, ekki tók ég eftir því. Þar að auki leiddi það til skemmtilegrar sögu hjá Guðnýju.
Það var ýmislegt sem ég var mjög ánægður með í erindi Guðnýjar - hlutir sem er gott fyrir okkur að heyra:
  • Mikilvægi þess að kynna mikilvæga hluti og staði áður en það er hægt að nota þá. Okkur er sagt frá stráknum sem hengdi sig í reipinu sem hundurinn er síðan hengdur í. Okkur er sagt frá djúpu vatninu áður en það kemur virkilega við sögu (segi ekki meir). Við ræðum þetta betur þegar við förum í Film Directing Fundamentals síðar í haust.
  • Filma vs. Digital.
    Það er alveg rétt að digital lítur ekki út eins og filma, ekki enn. Meira að segja rándýrar prófessional digital vélar eins og XDCAM og HDCAM vélarnar frá Sony eða Varicam vélarnar frá Panasonic skila ekki mynd sem jafnast á við Super-35. Þær skila bara öðruvísi mynd sem er vel brúkleg við ákveðnar aðstæður. Ég held samt að Veðramót hafi kallað á filmu.
    Sagan af lokasenunni sem rispaðist minnti mig það hvað ég er ánægður að þurfa ekki að vinna með filmu-kameru. Vissulega er myndin flott, en þú þarft að vera svo djöfulli öruggur á því hvað þú ert að gera. Það þarf allt að ganga upp, og ef þú klikkar á einhverju þá veistu það yfirleitt ekki fyrr en filman er framkölluð. Þú þarft að treysta á að það sé ekki hár eða ryk í myndavélinni. Þú þarft að nota ljósmæli og eigin hyggjuvit til þess að ná réttu ljósmagni - það er engin leið að sjá það beint. Það er svo ótalmargt sem getur farið úrskeiðis. Það eru meira að segja til dæmi um að hálf mynd hafi eyðilagst í framköllun!
  • Bisnessinn á Íslandi. Ég var hálf-hissa á því að Astrópía og sérstaklega Veðramót skyldu vera frumsýndar í svona mörgum bíóum. Guðný staðfesti það sem mig hafði grunað: kvikmyndahúsin þrýsta á kvikmyndagerðarmenn að sýna í sem flestum bíóum - þeir vilja bara klára myndina í einum rykk og fá svo næstu inn. En það falla bara ekki allar myndir að þessu módeli, og Veðramót er ein þeirra. Sú var tíðin að íslensk mynd var frumsýnd í Háskólabíóí og fékk að malla þar í stóra salnum í kannski mánuð, og ef hún var góð spurðist það út og aðsóknin var stígandi. Mér finnst slæmt að það eigi nú að fella íslenskar bíómyndir að viðskipta-módeli bandarísku blockbuster-myndarinnar. Það getur ekki farið vel. Sérstaklega ekki þegar framleiðandinn þráast við að auglýsa ekki stíft í þessar fáu vikur sem myndin er í bíó. Þetta módel kallar einfaldlega á stífar auglýsingar. Jim Emerson skrifar um bisnessinn hér.
Allt í allt, fróðlegt erindi.

sunnudagur, 16. september 2007

Veðramót

Ansi mögnuð mynd. Ég held samt að ég hafi haft allt of miklar væntingar til myndarinnar eftir allt umtalið - ef ég hefði séð hana strax á frumsýningu hefði ég líklega setið eftir furðu lostinn. Og það er langskemmtilegast - þegar maður rambar á mynd og býst ekkert endilega við miklu, og fær eftirvæntinguna uppfyllta þúsundfalt.
En þrátt fyrir miklar væntingar fannst mér myndin ansi hreint fín. Myndin greip mig, og ég held það sé góðs viti um myndina að ég var lítið sem ekkert að pæla í tæknilegum atriðum, heldur lifði ég mig inn í söguna - fyrir mitt leyti þýðir það að myndin svínvirkar. Á hinn bóginn þýðir það líka að ég hef engar djúpar pælingar fram að færa um myndina.
Það hljómar kannski vitlaust, en ég freistast til þess að kalla leikstjórn og tæknilegu hliðina "áreynslulausa". Þá á ég ekki við að það liggi ekki heilmikil pæling á bak við þessi atriði, heldur að þessi hlið kallar ekki á athygli áhorfandans. Stundum sér maður bíómyndir þar sem ákveðin skot eða klippingin eða tónlistin nánast öskra "Hei! Taktu eftir mér!" Og yfirleitt hef ég gaman af svoleiðis myndum. En þessi mynd hefur sögu að segja, og mér finnst sem þetta sé saga sem er fyrst og fremst sögð í gegnum persónurnar og samskipti þeirra, og við slíkar aðstæður myndu tækniatriði sem kalla á athygli manns kannski draga mann út úr sögunni og minnka innlifun áhorfandans. Og mér finnst þessi mynd forðast það. Það sama má segja um leikinn. Fyrir utan Samma (sem var samt góður), þá var ég ekki meðvitaður um að leikararnir væru að leika á meðan ég horfði á myndina, og það er af hinu góða...
Ekki eyðileggur efnið og sagan heldur fyrir manni. Efnið er átakanlegt og sagan ansi kraftmikil. Ekki ætla ég að fara að tíunda söguþráð myndarinnar, en eitt af því sem situr í mér núna nokkrum tímum seinna er hversu brothætt mannslíf eru. Í myndinni horfum við upp á að fólki er á einn eða annan hátt tortímt - það er ekki drepið en það verður fyrir áföllum og er ekki samt eftir það.
Í hnotskurn, kraftmikil mynd sem maður lifir sig algjörlega inní. Er það ekki bara ansi gott?

laugardagur, 15. september 2007

Hrós og skammir

Nú eru rúmlega þrjár vikur liðnar af önninni, og ef allt væri með felldu ættu allir að vera komnir með 6 sæmilegar færslur á bloggið sitt. Það er því miður ekki raunin.

En byrjum á hrósinu.
  • Glæsilegasta bloggið hingað til er án nokkurs vafa bloggið hans Ingólfs. Magn og gæði haldast í hendur - færslurnar innihalda góða punkta og skemmtilegar pælingar. Pottþétt tía!
  • Björn er líka með mjög gott blogg. Mjög góðar færslur og ágætlega myndskreytt. Önnur tía.
  • Óskar er með ágætt blogg. Færslurnar eru fínar og uppfylla kröfur, en bloggið stenst ekki alveg samanburð við Ingólf og Björn. 9-9,5.
  • Árni er með mjög fínt blogg, en vantar 1-2 færslur upp á að halda í við kvótann.
Svo eru nokkrir sem eru með fínar færslur, en þurfa að skrifa oftar: Ari (mjög góðar færslur, bara of fáar), Alexander, Arnar, Birkir, Bjarki, Einar, Emil, Eyjólfur, Jón, Marinó, Robert og Svavar (bara ein færsla hingað til).

Og svo skammirnar... Það eru nokkrir sem eru varla byrjaðir að skrifa færslur, og meira að segja einhverjir sem eru ekki búnir að stofna blogg:
  • Gísli þarf að skrifa fleiri og vandaðri færslur.
  • Daníel er rétt byrjaður og bara kominn með eina færslu.
  • Hjálmar og Ingi eru ekki búnir að skrifa neinar færslur.
  • Aron, Guðmundur og Hlynur eru ekki einu sinni búnir að stofna blogg.
Eftir því sem þið bíðið lengur, þeim mun erfiðara verður það að vinna upp það sem vantar upp á. Act now!

Maraþoni lokið

Þá er stuttmyndamaraþoninu lokið. Ég var að taka við myndavélinni frá seinasta hópnum og þetta virðist hafa gengið fyrir sig stórslysalaust.
Okkur tókst að láta myndavélina ganga milli hópanna fimm, og mér sýnist við bara hafa týnt einni lítilli firewire-snúru. Ef eitthvað varð að týnast, þá er þetta "best case scenario" - svona snúra kostar ca. 800kr. og ég á aðra eins heima. Þið getið kannski litið í kringum ykkur og séð hvort þið finnið hana.
Ekki höfðu allir vit á að hafa aðra rafhlöðuna í hleðslu meðan þeir notuðu hina, og það leiddi til þess að hópur 4 (minnir mig) fékk tvær tómar rafhlöður, sem er ekki gott. En við lærum vonandi af reynslunni.
Það verður spennandi að sjá afraksturinn á mánudagsmorgun...

föstudagur, 14. september 2007

Guðný Halldórsdóttir kemur á miðvikudag

Guðný Halldórsdóttir, leikstjóri Veðramóta, kemur í heimsókn til okkar næsta miðvikudag, þann 19. september. Fyrir þann tíma verða allir að vera búnir að fara á myndina, og þið eigið að vera tilbúnir með a.m.k. 3 spurningar svo það verði örugglega góð umræða hjá okkur. Einar er að athuga með Hilmi Snæ, og það væri auðvitað frábært að fá þau bæði.
Mætum svo endilega sem flestir í hópferð á myndina á sunnudag (sjá tilkynningu fyrir neðan).

miðvikudagur, 12. september 2007

Bíóferð á sunnudag

Fyrir þá sem ekki lesa póstinn sinn:
Við skulum fara hópferð á Veðramót næstkomandi sunnudag, í Háskólabíói, kl. 15:20.
Sami díll og áður - ef þið komist ekki á þessum tíma getið þið skilað inn miðum seinna, en það er auðvitað skemmtilegra að það mæti sem flestir.

mánudagur, 10. september 2007

TIFF: Besta kvikmyndahátíð í heimi?

Jæja, nú eru kvikmyndavefsíðurnar undirlagðar af umfjöllun um kvikmyndahátíðina í Toronto, og eins og oft áður virðist vera gríðarlegur fjöldi af virkilega góðum myndum þarna. Hvort sem hátíðin í Toronto er sú besta eða ekki, þá hlýtur hún að vera meðal þeirra stærstu. Hátíðin varir í 10 daga, og á þessum 10 dögum eru sýndar 271 mynd í fullri lengd og 89 stuttmyndir. 85% myndanna eru heimsfrumsýndar á hátíðinni. Ég væri nú ekki beint á móti því að fara á rækilegt bíó-fyllirí þarna. Það er helst að maður þyrfti að klóna sig eða skipta sér með kynlausri æxlun til þess að komast yfir fleiri myndir...
En ég er fastur hérna, þannig að ég reyni að upplifa hátíðina í gegnum umfjöllun um hátíðina. Jim Emerson er staddur í Toronto, og er óvenjulega duglegur að skrifa í ár. Greinarnar hans eru sérlega góðar. Umfjöllun hans um Chop Shop minnir mig líka á að ég á ennþá eftir að sjá Man Push Cart - ég er búinn að ætla að sjá hana ansi lengi.
Roger Ebert er líka í Toronto, en umfjöllun hans er á almennari nótum. Samt ágætis greinar, og vegna þess hversu margar myndirnar á hátíðinni eru er frekar lítið "overlap" milli þeirra.
Ef þið hafið tíma skulið þið endilega líta á þessa umfjöllun. (Ef þið hafið ekki tíma skulið þið forðast þetta eins og heitan eldinn, ég festist á síðunni hans Jim Emerson í næstum því klukkutíma...) Lestur þessara greina er a.m.k. ágætis upphitun fyrir RIFF. Reyndar er óvíst hversu margar myndir af TIFF verða á RIFF, enda er ansi stutt á milli. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort ekki væri betra að færa RIFF 2-3 vikur aftur svo hægt sé að sjá hver niðurstaða TIFF og Feneyja er og jafnvel fá "sigurvegarana" þar hingað.

Maraþonið hefst...

Þessa viku er stuttmyndamaraþon. Hver hópur fær 24 tíma til þess að gera stuttmynd. Á meðan eru engir tímar.
Skrifið síðan færslu um gerð myndarinnar, upplifun ykkar, hvað þið lærðuð og hvað hefði betur mátt fara (og hvað sem er annað sem ykkur dettur í hug).
Gangi ykkur vel og hafið gaman af þessu.

sunnudagur, 9. september 2007

American Movie

Mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá þessa mynd var: "Þetta er of gott til þess að vera satt!" Ég hélt að þetta hlyti að vera mockumentary, rauk á imdb og sá að þetta var allt satt - alvöru heimildarmynd um alvöru fólk.
Mér finnst þetta stórgóð mynd - bráðfyndin og maður er marga tíma að ná úr sér bjánahrollinum eftir að hafa horft á hana. Mark og Mike eru yndirslegir karakterar: þeir eru algjörir lúserar en á sama tíma svo algjörlega úr sambandi við raunveruleikann að maður vorkennir þeim eiginlega ekki - maður dáist miklu frekar að seiglunni í Mark og bjartsýninni hjá Mike. Ef þeir væru bara lúserar, væri myndin ekkert áhugaverð, en það er eitthvað meira til staðar.
Þegar ég horfði á hana aftur núna með kvikmyndagerðarhópnum fékk ég það á tilfinninguna að þessi mynd sendi kannski ekki alveg réttu skilaboðin. Vissulega er kvikmyndagerð erfið, og það þarf afskaplega margt að ganga upp til þess að vel takist til, en þessi mynd lætur ferlið kannski virðast of erfitt, hún fælir fólk kannski frá kvikmyndagerð frekar en að hvetja það til þess að gera bíómyndir. Ef þið upplifðuð hana þannig, þá var það auvitað alls ekki ætlunin. Mér finnst myndin einfaldlega spaugileg sýn á kvikmyndagerð, án þess að hún veiti endilega einhverja innsýn í ferlið.
Það má auðvitað líka líta á björtu hliðarnar á raunum Marks. Hann á fullt af vinum og kunningjum sem eru tilbúnir til þess að fórna tíma sínum til þess að draumar hans geti ræst. Honum tekst líka að klára stuttmyndina sína og koma henni í bíó, og það mætir fullt af fólki á frumsýninguna. Þetta er ekki algjörlega misheppnað hjá honum. Og þó svo að hann sé kannski í þessum bisness af röngum ástæðum (hann vill verða ríkur), þá held ég að hann hafi nú líka ansi gaman af því að gera kvikmyndir.

laugardagur, 8. september 2007

Bourne Ultimatum

Fór loksins á Bourne Ultimatum um daginn, búinn að ætla að fara nokkuð lengi.

Ég var búinn að heyra margt gott af henni og lesa ansi mikið um hana, sérstaklega stílinn. Það sem ég var búinn að heyra um stíl myndarinnar var í stuttu máli: klippingarnar eru mjög örar (meðalskotlengd er í kringum 2 sekúndur) og næstum því hvert einasta skot hreyfist einhvern veginn (annað hvort er það handhelt og hristist eða þá það "trakkar" eða "zoomar").
Það er svo sem ekkert byltingarkennt við skotlengdina, margar nýlegar myndir eru á svipuðu róli (Sky Captain and the World of Tomorrow var með 1,7 sekúndur held ég). Ef ykkur langar til þess að skoða skotlengdir nokkurra mynda, þá er gagnagrunnur á cinemetrics.lv sem sýnir þessa tölfræði. Það er heldur ekkert nýstárlegt við að láta myndavélina hreyfast mikið í hasarsenum. Það sem er sérstakt við Bourne Ultimatum er að bæði eru klippingarnar örar og myndavélin er alltaf á hreyfingu.
Nokkrar mjög áhugaverðar pælingar um Bourne Ultimatum:
"[insert your favorite Bourne pun here]" eftir David Bordwell
"Unsteadicam chronicles" eftir David Bordwell
"Sudden Impact" eftir Jim Emerson

Sumir sem hafa skrifað um þessa hlið myndarinnar láta þetta fara í taugarnar á sér, aðrir ekki. Ég fór sem sagt að sjá myndina mjög meðvitaður um þann stíl sem er notaður.
Ég verð að segja að myndin svíkur ekki, og mér fannst stíllinn í raun ekkert truflandi. Raunar fannst mér stíllinn virka mjög vel í því að halda manni á tánum. Myndin er hörkuspennandi, og stíllinn skiptir þar miklu máli. Maður myndi halda að svona það að viðhalda svona uppspentum stíl alla myndina myndi gera áhorfandann ónæman eftir því sem á líður, og hann myndi þess vegna ekki njóta hasaratriðanna í lokin eins mikið og í upphafi. Kannski er það að einhverju leyti rétt, en þessi deyfing var þá frekar lítil, því maður var spenntur allan tímann.
Varðandi stílinn, þá er mikið af myndinni hasar og Bourne sjálfur er alltaf spenntur, þar er alltaf einhver á hælunum á eftir honum eða hann að elta einhvern, þ.a. þessar miklu hreyfingar og klippingar eru yfirleitt ekki út úr kú.
Samtölinu eru nokkuð sérstök, þau eru handheld og á hreyfingu og oft sér maður ekki nema hluta af andliti persóna fyrir hnakkanum á viðmælandanum. Þau virka samt mjög vel, og þessi hindrun fyrir framan andlit leikarans heldur manni bara á tánum, manni virkilega langar til þess að sjá meira.
Einu skotin þar sem mér fannst þessi stíll koma illa út var í víðskotum sem kynna áttu umhverfið. Oft birtust dæmigerð "establishing" skot, t.d. loftmyndir af húsum. Slík skot eru yfirleitt nokkuð kyrr, en hér eru meira að segja þessi skot á hreyfingu: þau eru kyrr til þess að byrja með, en svo er zoomað hratt inn eða út, eins og til þess að halda stílnum. Þetta virkar svoldið heimskulega, en hugsanlega hefði ég ekkert tekið eftir þessu ef ég hefði ekki verið meðvitaður um stíl myndarinnar.