Eftir að hafa séð álit annarra á atburðum gærdagsins er ég raunar farinn að velta fyrir mér hvort hamingjan með hátíðina sé farin að skerða dómgreindina. Árni og Bóbó voru allt annað en ánægðir með Hrollvekjutónleikana, og Tripper og Black Sheep fengu háðulega útreið í Mogganum í morgun. Ég stend nú samt við mitt, ég skemmti mér konunglega á Miðnæturbíóinu. Ég skal reyndar alveg játa það að Tripper er ekki góð mynd, og ef ég hefði verið að horfa á hana heima á DVD hefði mér líklega fundist þetta algjör sori, en ég hafði gaman af henni. Og Black Sheep var bara mjög fín. Auðvitað er þetta ekkert kvikmyndameistaraverk, en hún er alveg efni í költmynd. Og ég var algjörlega að fíla tónleikana á meðan allt virkaði. Þó ætti ég að taka fram að ég mætti með mjög jákvæðu hugarfari, m.a. vegna þess að kunningi minn sá um þetta allt saman, þ.a. ég var kannski meira tilbúinn til þess að fyrirgefa honum tæknifeilana en þeir Árni og Bóbó, og ég hef fullan skilning á pirringnum hjá þeim.
Stelpur Rokka (Arne Johnson og Shane King)
Stórskemmtileg. Það vita væntanlega flestir út á hvað myndin gengur: Konur sem voru virkar í pönkinu/rokkinu á 9. áratugnum halda úti rokk-sumarbúðum fyrir stúlkur á aldrinum 8-18, þar sem þær geta fundið sig, stundað sjálfseflingu (empowerment) og bara rokkað feitt.
Frábærir karakterar halda myndinni uppi. 80 stúlkur eru í búðunum en fjórar þeirra eru settar í aðalhlutverk í myndinni. Best fannst mér sú yngsta, Palace, sem var ótrúlegur karakter. Sú elsta, Misty, var líka áhugaverð, m.a. vegna þeirra rauna sem hún hefur gengið í gegnum, en hún er nýsloppin úr fangelsi, foreldrar hennar eru í dópi og hún hefur verið heimilislaus stóran part unglingsáranna.
Rokkbúðirnar virðast hjálpa Misty, og raunar öllum sem rætt er við, og þetta er bara rosalega flott framtak. Mér skilst að eitthvað svipað hafi verið reynt á Íslandi (stelpa úr Dúkkulísunum var víst með leikjanámskeið eða eitthvað þess háttar í svipuðum dúr seinasta sumar), og það er auðvitað mjög flott, enda væntanlega æskilegt að stúlkur finni sér stekrari fyrirmyndir en Britney Spears og félaga. Svo eru víst líka til rokkbúðir fyrir fullorðnar konur...
Ferð Isku (Csaba Bollók)
Raunaleg mynd um hrikalegar aðstæður stúlkunnar Isku. Hún er bláfátæk, betlar mat og vinnur sér inn smáaur með því að safna brotajárni. Mamma hennar og stjúpfaðir eru fyllibyttur og þegar hún kemur ekki heim með nógu mikinn pening er hún lamin. Hún og stjúpsystir hennar eru settar á munaðarleysingjahæli, og þar batnar líðanin í skamma stund, eða þar til móðirin sækir Isku (en hirðir ekkert um stjúpsysturina því hún er veik og nýtist því ekki í sendiferðir eða þrælkunarvinnu).
Þetta var síðasta sýning á þessari mynd, þ.a. ég ætla að leyfa mér að skella inn einum rosalegum SPOILER. Myndin er verulega sorgleg, en þó slær endirinn allt út. Iska ætlar í lestarferð að sjónum með vini sínum, en fer fyrst á munaðarleysingjahælið til þess að kveðja stjúpsystur sína sem er að deyja úr berklum. Vinurinn bíður eftir henni á lestarstöðinni, en þegar hún húkkar sér far aftur á lestarstöðina er henni rænt og í lok myndar er hún á leið í kynlífsþrælkun, líklegast í einhverju Vestur-Evrópsku landi (eða kannski Tyrklandi), 13-15 ára gömul. Hrikalega átakanlegur endir.
Tómar (Jan Svêrák)
Ferð Isku hefði líklegast haft meiri áhrif á mig ef ég hefði ekki verið hræddur um að verða og seinn á þessa. Ferð Isku byrjaði nefnilega of seint, og ég var tæpur á tíma fyrir - þurfti að komast úr Tjarnarbíói upp í Regnboga fyrir kl. 10. Sem sagt, ég hjólaði á fullri ferð (ljóslaus) og var kominn í salinn rétt áður en sýningin hófst.
Tómar er ansi fín. Fyrir þá sem sáu Kolya þá er þessi eftir sama mann og svipaður andi yfir henni. Kennarinn Tkaloun er 65 ára gamall og gefst upp á kennslunni en er of eirðarlaus til þess að setjast í helgan stein. Eftir misheppnaðan feril sem reiðhjólasendill fær hann starf í súpermarkaði við að taka við tómum flöskum, og unir sér vel. Hljómar kannski ekkert sérlega spennandi, en myndin er krydduð af stórskemmtilegum húmor.
(Tékkar eru skv. minni reynslu miklir húmoristar, og ég hef heyrt það að tékkneskur húmor sé líka furðulega líkur þeim íslenska. Íslenskur leikstjóri (man ekki hver) sýndi myndina sína á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni (þar sem Mýrin vann einmitt um daginn), og var nánast agndofa yfir því að tékknesku áhorfendurnir hlógu á nákvæmlega sömu stöðum og þeir íslensku.)
Þetta er bara falleg, skemmtileg, hugljúf lítil mynd. Hún leggur ekki upp með það að breyta heiminum eða opna augu okkar eins og hinar tvær sem ég sá í dag, heldur einfaldlega að skemmta okkur og koma okkur í gott skap, og það gerir hún listavel. Mæli með þessari.
Sem sagt þrjár fínar myndir. Af einhverri ástæðu vill Blogger ekki leyfa mér að bæta við mynd akkúrat núna, þ.a. þessi færsla verður að vera svolítið þurr enn sem komið er. Sem er fúlt, ég var einmitt búinn að finna myndina sem ég ætlaði að hafa við Girls Rock - þar sem ofvirka stelpan (minnir að hún heiti Am) er að spila á gítar með tönnunum!