Myndirnar voru:
Heimsókn hljómsveitarinnar (Eran Kolirin), kl. 6.
Egypskri lögregluhljómsveit er boðið að spila í Ísrael, en þeir villast á leiðinni og festast í litlum bæ í miðri eyðimörkinni. Myndin er bráðfyndinn gamanleikur um samskipti hljómsveitarmeðlima við bæjarbúa. Nú eru Egyptar og Ísraelar ekki bestu vinir, en eins og leikstjórinn sagði í spjallinu eftir myndina þá eru það ekki einstaklingar sem eiga í slíkum deilum heldur þjóðir. Pælingin er sú að þegar fólk sem á að hatast hittist, og maður sér að óvinurinn er bara manneskja eins og maður sjálfur, þá hlýtur hatrið að hverfa. Maður hefur svo sem séð þessa hugmynd í fleiri bíómyndum, en þetta er falleg hugsun fyrir því.
Þar er ekki margt sem ég get sagt um þessa mynd. Hún er uppfull af litlum bröndurum, og hefur þvílíkt svarta sýn á heiminn. Á köflum er yndislegur sjónrænn húmor sem minnir mig mest á þöglar grínmyndir. Sena þar sem smiður í fínu samkvæmi ætlar að kippa dúknum af borðstofuborðinu er stórfengleg - Chaplin hefði ekki getað gert hana betur.
Roy Andersson er ekki allra. Maður fær stundum á tilfinninguna að hann hati persónurnar sínar og jafnvel heiminn allan, svo svartur er húmorinn. En ég elska myndirnar hans, bæði húmorinn og hugmyndaauðgina sem hann sýnir. Þar að auki er þessi mynd mjög sjónrænt flott.
"Á morgun kemur nýr dagur."
Shotgun Stories (Jeff Nichols), kl. 10.
Bræðurnir (og Suðurríkjadrjólarnir) Son, Kid og Boy lenda í útistöðum við hálfbræður sína eftir að pabbinn deyr og Son talar illa um hann í jarðarförinni. Skapast þá mikil spenna, og maður býst við átökum og drápum og hjaðningavígum, en myndin einbeitir sér að stemningunni og spennunni frekar en ofbeldinu.
Það er ótrúlegt hvað stutt lýsing í bæklingi getur eyðilagt fyrir manni bíóferð. Eftir að hafa lesið lýsinguna á þessari mynd, þá bjóst ég við hrárri, svart-hvítri ofbeldismynd, og einhvern veginn beið ég alla myndina eftir að myndin sem ég bjóst við myndi birtast á tjaldinu. Í rauninni er þetta miklu betri mynd en ég bjóst við, en ég datt aldrei nógu vel inn í hana vegna þeirra væntinga sem ég hafði. Hvað á maður eiginlega að gera? Á maður að sleppa því alveg að lesa bæklinginn og fara bara á "random" myndir? Í flestum tilvikum hefur þetta lítil áhrif, en mín tilfinning er sú að bíóupplifun mín á þessari mynd hefði verið miklu betri ef ég hefði ekki verið búinn að lesa lýsinguna.
Samt, þetta er góð mynd sem ég mæli hiklaust með. Myndatakan, tónlist og sagan eru virkilega góð, og díalógurinn er ansi skemmtilegur á köflum.
Sem sagt, ég hélt út í þrjár myndir og hefði ekki viljað sleppa neinni þeirra. Stórgott kvöld í alla staði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli