sunnudagur, 16. september 2007

Veðramót

Ansi mögnuð mynd. Ég held samt að ég hafi haft allt of miklar væntingar til myndarinnar eftir allt umtalið - ef ég hefði séð hana strax á frumsýningu hefði ég líklega setið eftir furðu lostinn. Og það er langskemmtilegast - þegar maður rambar á mynd og býst ekkert endilega við miklu, og fær eftirvæntinguna uppfyllta þúsundfalt.
En þrátt fyrir miklar væntingar fannst mér myndin ansi hreint fín. Myndin greip mig, og ég held það sé góðs viti um myndina að ég var lítið sem ekkert að pæla í tæknilegum atriðum, heldur lifði ég mig inn í söguna - fyrir mitt leyti þýðir það að myndin svínvirkar. Á hinn bóginn þýðir það líka að ég hef engar djúpar pælingar fram að færa um myndina.
Það hljómar kannski vitlaust, en ég freistast til þess að kalla leikstjórn og tæknilegu hliðina "áreynslulausa". Þá á ég ekki við að það liggi ekki heilmikil pæling á bak við þessi atriði, heldur að þessi hlið kallar ekki á athygli áhorfandans. Stundum sér maður bíómyndir þar sem ákveðin skot eða klippingin eða tónlistin nánast öskra "Hei! Taktu eftir mér!" Og yfirleitt hef ég gaman af svoleiðis myndum. En þessi mynd hefur sögu að segja, og mér finnst sem þetta sé saga sem er fyrst og fremst sögð í gegnum persónurnar og samskipti þeirra, og við slíkar aðstæður myndu tækniatriði sem kalla á athygli manns kannski draga mann út úr sögunni og minnka innlifun áhorfandans. Og mér finnst þessi mynd forðast það. Það sama má segja um leikinn. Fyrir utan Samma (sem var samt góður), þá var ég ekki meðvitaður um að leikararnir væru að leika á meðan ég horfði á myndina, og það er af hinu góða...
Ekki eyðileggur efnið og sagan heldur fyrir manni. Efnið er átakanlegt og sagan ansi kraftmikil. Ekki ætla ég að fara að tíunda söguþráð myndarinnar, en eitt af því sem situr í mér núna nokkrum tímum seinna er hversu brothætt mannslíf eru. Í myndinni horfum við upp á að fólki er á einn eða annan hátt tortímt - það er ekki drepið en það verður fyrir áföllum og er ekki samt eftir það.
Í hnotskurn, kraftmikil mynd sem maður lifir sig algjörlega inní. Er það ekki bara ansi gott?

Engin ummæli: