fimmtudagur, 20. september 2007

Leikstjóraheimsókn: Guðný Halldórsdóttir

Ég var bara ansi ánægður með þessa heimsókn, og þið stóðuð ykkur líka með prýði og spurðuð margra góðra spurninga. Ingólfur fær sérstakan plús í kladdann fyrir að taka eftir þessu í lokasenunni, ekki tók ég eftir því. Þar að auki leiddi það til skemmtilegrar sögu hjá Guðnýju.
Það var ýmislegt sem ég var mjög ánægður með í erindi Guðnýjar - hlutir sem er gott fyrir okkur að heyra:
  • Mikilvægi þess að kynna mikilvæga hluti og staði áður en það er hægt að nota þá. Okkur er sagt frá stráknum sem hengdi sig í reipinu sem hundurinn er síðan hengdur í. Okkur er sagt frá djúpu vatninu áður en það kemur virkilega við sögu (segi ekki meir). Við ræðum þetta betur þegar við förum í Film Directing Fundamentals síðar í haust.
  • Filma vs. Digital.
    Það er alveg rétt að digital lítur ekki út eins og filma, ekki enn. Meira að segja rándýrar prófessional digital vélar eins og XDCAM og HDCAM vélarnar frá Sony eða Varicam vélarnar frá Panasonic skila ekki mynd sem jafnast á við Super-35. Þær skila bara öðruvísi mynd sem er vel brúkleg við ákveðnar aðstæður. Ég held samt að Veðramót hafi kallað á filmu.
    Sagan af lokasenunni sem rispaðist minnti mig það hvað ég er ánægður að þurfa ekki að vinna með filmu-kameru. Vissulega er myndin flott, en þú þarft að vera svo djöfulli öruggur á því hvað þú ert að gera. Það þarf allt að ganga upp, og ef þú klikkar á einhverju þá veistu það yfirleitt ekki fyrr en filman er framkölluð. Þú þarft að treysta á að það sé ekki hár eða ryk í myndavélinni. Þú þarft að nota ljósmæli og eigin hyggjuvit til þess að ná réttu ljósmagni - það er engin leið að sjá það beint. Það er svo ótalmargt sem getur farið úrskeiðis. Það eru meira að segja til dæmi um að hálf mynd hafi eyðilagst í framköllun!
  • Bisnessinn á Íslandi. Ég var hálf-hissa á því að Astrópía og sérstaklega Veðramót skyldu vera frumsýndar í svona mörgum bíóum. Guðný staðfesti það sem mig hafði grunað: kvikmyndahúsin þrýsta á kvikmyndagerðarmenn að sýna í sem flestum bíóum - þeir vilja bara klára myndina í einum rykk og fá svo næstu inn. En það falla bara ekki allar myndir að þessu módeli, og Veðramót er ein þeirra. Sú var tíðin að íslensk mynd var frumsýnd í Háskólabíóí og fékk að malla þar í stóra salnum í kannski mánuð, og ef hún var góð spurðist það út og aðsóknin var stígandi. Mér finnst slæmt að það eigi nú að fella íslenskar bíómyndir að viðskipta-módeli bandarísku blockbuster-myndarinnar. Það getur ekki farið vel. Sérstaklega ekki þegar framleiðandinn þráast við að auglýsa ekki stíft í þessar fáu vikur sem myndin er í bíó. Þetta módel kallar einfaldlega á stífar auglýsingar. Jim Emerson skrifar um bisnessinn hér.
Allt í allt, fróðlegt erindi.

Engin ummæli: