mánudagur, 10. september 2007

TIFF: Besta kvikmyndahátíð í heimi?

Jæja, nú eru kvikmyndavefsíðurnar undirlagðar af umfjöllun um kvikmyndahátíðina í Toronto, og eins og oft áður virðist vera gríðarlegur fjöldi af virkilega góðum myndum þarna. Hvort sem hátíðin í Toronto er sú besta eða ekki, þá hlýtur hún að vera meðal þeirra stærstu. Hátíðin varir í 10 daga, og á þessum 10 dögum eru sýndar 271 mynd í fullri lengd og 89 stuttmyndir. 85% myndanna eru heimsfrumsýndar á hátíðinni. Ég væri nú ekki beint á móti því að fara á rækilegt bíó-fyllirí þarna. Það er helst að maður þyrfti að klóna sig eða skipta sér með kynlausri æxlun til þess að komast yfir fleiri myndir...
En ég er fastur hérna, þannig að ég reyni að upplifa hátíðina í gegnum umfjöllun um hátíðina. Jim Emerson er staddur í Toronto, og er óvenjulega duglegur að skrifa í ár. Greinarnar hans eru sérlega góðar. Umfjöllun hans um Chop Shop minnir mig líka á að ég á ennþá eftir að sjá Man Push Cart - ég er búinn að ætla að sjá hana ansi lengi.
Roger Ebert er líka í Toronto, en umfjöllun hans er á almennari nótum. Samt ágætis greinar, og vegna þess hversu margar myndirnar á hátíðinni eru er frekar lítið "overlap" milli þeirra.
Ef þið hafið tíma skulið þið endilega líta á þessa umfjöllun. (Ef þið hafið ekki tíma skulið þið forðast þetta eins og heitan eldinn, ég festist á síðunni hans Jim Emerson í næstum því klukkutíma...) Lestur þessara greina er a.m.k. ágætis upphitun fyrir RIFF. Reyndar er óvíst hversu margar myndir af TIFF verða á RIFF, enda er ansi stutt á milli. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort ekki væri betra að færa RIFF 2-3 vikur aftur svo hægt sé að sjá hver niðurstaða TIFF og Feneyja er og jafnvel fá "sigurvegarana" þar hingað.

Engin ummæli: