sunnudagur, 9. september 2007

American Movie

Mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá þessa mynd var: "Þetta er of gott til þess að vera satt!" Ég hélt að þetta hlyti að vera mockumentary, rauk á imdb og sá að þetta var allt satt - alvöru heimildarmynd um alvöru fólk.
Mér finnst þetta stórgóð mynd - bráðfyndin og maður er marga tíma að ná úr sér bjánahrollinum eftir að hafa horft á hana. Mark og Mike eru yndirslegir karakterar: þeir eru algjörir lúserar en á sama tíma svo algjörlega úr sambandi við raunveruleikann að maður vorkennir þeim eiginlega ekki - maður dáist miklu frekar að seiglunni í Mark og bjartsýninni hjá Mike. Ef þeir væru bara lúserar, væri myndin ekkert áhugaverð, en það er eitthvað meira til staðar.
Þegar ég horfði á hana aftur núna með kvikmyndagerðarhópnum fékk ég það á tilfinninguna að þessi mynd sendi kannski ekki alveg réttu skilaboðin. Vissulega er kvikmyndagerð erfið, og það þarf afskaplega margt að ganga upp til þess að vel takist til, en þessi mynd lætur ferlið kannski virðast of erfitt, hún fælir fólk kannski frá kvikmyndagerð frekar en að hvetja það til þess að gera bíómyndir. Ef þið upplifðuð hana þannig, þá var það auvitað alls ekki ætlunin. Mér finnst myndin einfaldlega spaugileg sýn á kvikmyndagerð, án þess að hún veiti endilega einhverja innsýn í ferlið.
Það má auðvitað líka líta á björtu hliðarnar á raunum Marks. Hann á fullt af vinum og kunningjum sem eru tilbúnir til þess að fórna tíma sínum til þess að draumar hans geti ræst. Honum tekst líka að klára stuttmyndina sína og koma henni í bíó, og það mætir fullt af fólki á frumsýninguna. Þetta er ekki algjörlega misheppnað hjá honum. Og þó svo að hann sé kannski í þessum bisness af röngum ástæðum (hann vill verða ríkur), þá held ég að hann hafi nú líka ansi gaman af því að gera kvikmyndir.

Engin ummæli: