þriðjudagur, 25. september 2007

RIFF - Siggi mælir með ... bíómyndum

Eftir að hafa farið í gegnum hátíðardagskrána og skoðað myndirnar aðeins þar fyrir utan þá eru u.þ.b. 40 myndir sem ég væri til í að sjá. En auðvitað langar mig meira til þess að sjá sumar þeirra en aðrar. Ég hef því skipt þessum myndum í fjóra flokka eftir forgangsröð.

1. Myndir sem ekkert mun hindra mig í að sjá
Þið, lifendur (Roy Andersson)
Á kvikmyndahátíðinni árið 2000 sá ég Söngva af annarri hæð eftir sama leikstjóra, og það er einhver rosalegasta bíó-upplifun ævi minnar. Sú mynd er gargandi snilld og jafnframt súrari en allt. Þessi virðist vera í svipuðum dúr. Ekki missa af þessari fyrir nokkra muni!
Rammi úr Söngvum af annarri hæð. Bara snilld! Kannski ég leyfi ykkur að sjá hana eftir áramót...

Shotgun Stories (Jeff Nichols)
Mér líst ansi vel á þessa. Hræódýr bandarísk indí-mynd sem er jafnframt tragedía/ættardeila í ætt við Shakespeare og Íslendingasögurnar. Hún fær reyndar blendnar umsagnir á IMDb, en lýsingin leggst bara svo vel í mig...

Íslenskar stuttmyndir
Á laugardag kl. 18 og sunnudag kl. 16 í Regnboganum verður sýndur hellingur af íslenskum stuttmyndum, og sumar þeirra hljóma nokkuð spennandi. Það væri vafalítið fróðlegt fyrir okkur að kíkja, því þetta er jú það kvikmyndaform sem við vinnum í í vetur. Á laugardeginum mæta einhverjir leikstjórar til þess að svara spurningum. Be there or be square.

Rótleysi (JIŘÍ VEJDĚLEK)
Gamanmynd um ferðalag þriggja sígauna. Ég veit ekki mikið meira um þessa mynd, en ég hef góða tilfinningu fyrir henni. Og ég hef aldrei séð leiðinlega gamanmynd um sígauna (hef reyndar bara séð 2-3 stykki, þ.a. það er spurning hvort úrtakið sé marktækt...)

Hef ekki tíma í meira í bili. To be continued...

1 ummæli:

Arnar sagði...

Ég sá einmitt Söngva af annarri hæð fyrir svona árið síðan. Stórmerkileg mynd.