laugardagur, 29. september 2007

RIFF: Dagur 3

--Kl. 18.30--
Í dag er ég hingað til búinn að fara á spjall með Aki Kaurismäki, fyrirlestur um anime og japönsku teiknimyndina Papriku (Satoshi Kon). Seinna í kvöld ætla ég á Miðnæturbíóið þar sem eru hrollvekjutónleikar og tvær hryllingsmyndir.

Kaurismäki

Þetta spjall var bölvuð steypa. Mér skilst Kaurismäki og Friðrik Þór hafi verið búnir að fá sér aðeins í glas áður en þeir mættu, og þeir voru í því að bulla í hvorum öðrum og Kaurismäki sneri út úr öllum spurningum sem hann fékk. Það eina vitræna sem kom upp úr honum var eitthvað á þessa leið: "Cinema is the most beautiful artform because it joins everything together: music, poetry, theater and painting."
Sem dæmi um útúrsnúningana í karlinum, þá fékkst hann ekki til þess að tjá velþóknun sína á neinum kvikmyndum öðrum en Nóa albínóa og kvikmyndagerð í Tíbet og Búrkína Fasó.

Fyrirlestur um anime
Þetta var frekar þurr fyrirlestur, og ekki bætti það úr skák að hann var fluttur í gegnum túlk. Mér finnst ég ekki vera neinu nær um anime.

Paprika (Satoshi Kon)
Snilldarmynd. Flott teiknuð og ótrúlegt hugmyndaflug. Plottið skiptir ekki öllu en er eitthvað á þessa leið: Hópur vísindamanna hefur fundið upp tæki sem getur tekið upp drauma, og virðist líka geta leyft fólki að taka þátt í draumum hvors annars. Tækinu er stolið og fólk sem hefur prófað tækið fer að festast í draumum sínum, eða jafnvel draumi einhvers annars. Paprika, sem er draumsjálf vísindamannsins Atsoko, þarf að bjarga málunum.
Myndin er fyndin og ótrúlega súr á köflum. Það eru bráðskemmtilegar senur þar sem verur morfast og við stökkvum úr einu í annað, erum á einum stað en síðan allt í einu komin eitthvert allt annað, eins og gengur og gerist í draumum. Þegar líður á myndina verða skilin milli drauma og vöku óskýrari, og við erum sjaldnast viss hvort er. Svo er líka fullt af tilvísunum í kvikmyndasöguna, a.m.k. Roman Holiday og The Shining, ég held að ein tilvísunin sé úr Strangers on a Train, en er ekki alveg viss (a.m.k. einhver Hitchcock mynd).
Ég mæli eindregið með þessari.

Eftir Papriku dreif ég mig heim að borða, því ég ætlaði að ná Íslensku stuttmyndunum. Það gekk ekki, því það var orðið uppselt þegar ég kom í Regnbogann. Ég kom hins vegar við í Tjarnarbíói á leiðinni heim og náði mér í miða á Miðnæturmyndirnar. Í Norræna húsinu hitti ég nefnilega kunningja minn sem sér einmitt um Miðnæturmyndirnar og spilar á Hryllingsmyndatónleikunum, og þetta hljómaði svo skemmtilega að ég varð að drífa mig. Það á sem sagt að varpa myndbrotum úr hryllingsmyndum meðan á tónleikunum stendur, og hann er búinn að standa í því að finna myndbrot seinustu vikurnar. Þetta hljómar ansi spennandi - alls konar hryllingsmyndaklipp og góð tónlist, það ætti engan að svíkja.

--Kl. 3.15--
Miðnæturbíó
Dagskráin var í þremur liðum. Fyrst voru hryllingsmyndatónleikar þar sem spiluð voru stef úr hryllingsmyndum á meðan myndbrot voru sýnd. Síðan kom myndin Tripper (David Arquette), og loks Black Sheep (Jonathan King).
Því miður brást tæknin eitthvað eftir fimm lög á hryllingsmyndatónleikunum, og taka þurfti hálftíma-pásu áður en hægt var að halda áfram, og þá voru spiluð önnur sex lög, þar af tvö án myndbrots. Á meðan þeir gengu, sérstaklega fyrir pásuna, þá voru þessir tónleikar geðveikir. Byrjað var á mjög flottu stefi með rosalegu myndbroti úr Bay of Blood (Mario Bava). Þetta var greinilega bandaríska útgáfan. Sú breska var klippt um 40 sekúndur, og ég held þær hafi allar verið í þessu myndbroti. Síðan komu þrjár myndir sem ég þekki ekki, en það var giallo-fílingur yfir þeim, ég gæti trúað að nr. 3 hafi verið eftir Dario Argento. Svo kom hápunktur kvöldsins: Halloween (Wes Craven). Stefið í myndinni er náttúrulega geggjað, og útfærslan á því hjá hljómsveitinni var frábær - virkilega búið að gera það kröftugra, þéttara og það var bara massíft. Samspil tónlistar og myndbrots var stórkostleg.
Stemningin í salnum datt svolítið niður í hléinu, og það voru kannski ekki alveg jafn afgerandi lög. Gremlins var skemmtilegt, og Scream tókst ansi vel. Ég hefði virkilega viljað upplifa Cannibal Holocaust myndbrotið með tónlistinni, því það er tónlist sem virkar eiginlega bara í samspili við myndefnið - tónlistin er róleg og einhvern vegin friðsæl, en myndin er hrottaleg og blóðug (ef notast var við atriðið sem ég held að notast hafi verið við). Allt í allt frábær upplifun og stórskemmtilegt konsept. Ég vona að strákarnir geri þetta aftur.

Tripper (David Arquette)
Nokkuð skemmtileg mynd. Hefst á svona Halloween forsögu þar sem við sjáum vonda kallinn sem barn drepa í fyrsta sinn. Síðan hefst hin raunverulega saga. Hópur hippa fer á "Free Love Festival" í skógi nokkrum, en þeir eru svo stráfelldir af brjálæðingi í Ronald Reagan grímu. Hipparnir eru allir útúrdópaðir, nema stúlkan-sem-lifir-af. Þannig að þetta er smá afbökun á hefðinni, í stað þess að persónum sé "refsað" fyrir að stunda kynlíf og að góða stúlkan (sem er auðvitað hrein mey) ráði niðurlögum skrímslisins, er fólki nú að mestu refsað fyrir að nota eiturlyf (það er reyndar alls ekki algilt, og því allt of mikil einföldun), og góða stúlkan sem stendur uppi að lokum er (næstum því) edrú. Ég hugsa að þeir sem deyja séu samt allir annað hvort á dópi eða fégráðugir repúblikanar. Það er samt svolítið of flókið.
Myndin er skemmtilegur útúrsnúningur á "slasher"-myndinni, ansi blóðug á köflum, en samt fyrst og fremst fyndin.

Black Sheep (Jonathan King)
Ef Tripper var fyndin þá er þessi sprenghlægileg. Bara konseptið, morðóðar erfðabreyttar kindur, er fyndið. Þar að auki er hún uppfull af bröndurum og skemmtilegum uppákomum. Mest er hlegið að aðalkvenhetjunni, náttúruverndarofstopa og jógagúrú sem ætlar sér að frelsa kindurnar úr ánauð sinni. Aðalkarlhetjan á líka sín móment, en hann er einmitt haldinn sauðafóbíu eftir áfall í æsku.
Mig langar til þess að skrifa meira um Black Sheep en klukkan er núna korter í fjögur að nóttu, og ég held ekki að ég hafi úthald í meira.

Engin ummæli: