laugardagur, 8. september 2007

Bourne Ultimatum

Fór loksins á Bourne Ultimatum um daginn, búinn að ætla að fara nokkuð lengi.

Ég var búinn að heyra margt gott af henni og lesa ansi mikið um hana, sérstaklega stílinn. Það sem ég var búinn að heyra um stíl myndarinnar var í stuttu máli: klippingarnar eru mjög örar (meðalskotlengd er í kringum 2 sekúndur) og næstum því hvert einasta skot hreyfist einhvern veginn (annað hvort er það handhelt og hristist eða þá það "trakkar" eða "zoomar").
Það er svo sem ekkert byltingarkennt við skotlengdina, margar nýlegar myndir eru á svipuðu róli (Sky Captain and the World of Tomorrow var með 1,7 sekúndur held ég). Ef ykkur langar til þess að skoða skotlengdir nokkurra mynda, þá er gagnagrunnur á cinemetrics.lv sem sýnir þessa tölfræði. Það er heldur ekkert nýstárlegt við að láta myndavélina hreyfast mikið í hasarsenum. Það sem er sérstakt við Bourne Ultimatum er að bæði eru klippingarnar örar og myndavélin er alltaf á hreyfingu.
Nokkrar mjög áhugaverðar pælingar um Bourne Ultimatum:
"[insert your favorite Bourne pun here]" eftir David Bordwell
"Unsteadicam chronicles" eftir David Bordwell
"Sudden Impact" eftir Jim Emerson

Sumir sem hafa skrifað um þessa hlið myndarinnar láta þetta fara í taugarnar á sér, aðrir ekki. Ég fór sem sagt að sjá myndina mjög meðvitaður um þann stíl sem er notaður.
Ég verð að segja að myndin svíkur ekki, og mér fannst stíllinn í raun ekkert truflandi. Raunar fannst mér stíllinn virka mjög vel í því að halda manni á tánum. Myndin er hörkuspennandi, og stíllinn skiptir þar miklu máli. Maður myndi halda að svona það að viðhalda svona uppspentum stíl alla myndina myndi gera áhorfandann ónæman eftir því sem á líður, og hann myndi þess vegna ekki njóta hasaratriðanna í lokin eins mikið og í upphafi. Kannski er það að einhverju leyti rétt, en þessi deyfing var þá frekar lítil, því maður var spenntur allan tímann.
Varðandi stílinn, þá er mikið af myndinni hasar og Bourne sjálfur er alltaf spenntur, þar er alltaf einhver á hælunum á eftir honum eða hann að elta einhvern, þ.a. þessar miklu hreyfingar og klippingar eru yfirleitt ekki út úr kú.
Samtölinu eru nokkuð sérstök, þau eru handheld og á hreyfingu og oft sér maður ekki nema hluta af andliti persóna fyrir hnakkanum á viðmælandanum. Þau virka samt mjög vel, og þessi hindrun fyrir framan andlit leikarans heldur manni bara á tánum, manni virkilega langar til þess að sjá meira.
Einu skotin þar sem mér fannst þessi stíll koma illa út var í víðskotum sem kynna áttu umhverfið. Oft birtust dæmigerð "establishing" skot, t.d. loftmyndir af húsum. Slík skot eru yfirleitt nokkuð kyrr, en hér eru meira að segja þessi skot á hreyfingu: þau eru kyrr til þess að byrja með, en svo er zoomað hratt inn eða út, eins og til þess að halda stílnum. Þetta virkar svoldið heimskulega, en hugsanlega hefði ég ekkert tekið eftir þessu ef ég hefði ekki verið meðvitaður um stíl myndarinnar.

2 ummæli:

Jón sagði...

ég er kominn með bíóblogg:
http://kvikmyndagerd-jon.blogspot.com/

Björn Brynjúlfur sagði...

Já þetta er góð mynd.

Mér fannst hún samt velta sér fullmikið upp úr Bourne Supremacy með því að láta söguna spóla sífellt aftur í þá mynd. Í þeirri mynd fannst mér töku- og klippistíllinn skara mun meira fram úr, þar var meiri leikstjórabragur á honum á einhvern hátt.

The Bourne Supremacy stendur upp úr í trílógíunni að mínu mati.