miðvikudagur, 17. desember 2008

Umsagnir um fyrirlestra (loksins)

Jacques Tati
Gott æviágrip.
Fín umfjöllun um einkennin.
Samantektin á myndunum er ágæt. Svolítið ómarkviss.
Fæ á tilfinninguna að hlutar af fyrirlestrinum hafi ekki verið eins vel undirbúnir og æskilegt væri.
Ég hefði viljað fá klippur.
Aðeins of langur.
8,5

Alfred Hitchcock

Gott æviágrip.
Góð klipp.
Góð umfjöllun um helstu myndir og einkenni.
Ég skil ekki alveg tilganginn með því að telja upp vísanir í Hitchcock-myndir. Slíkur listi verður aldrei tæmandi.
Einnig hefði ég frekar viljað sjá dolly-zoom klipp úr Vertigo og Psycho frekar en úr einhverju kennslumyndbandi.
9,0

John Ford

Æviágripið er fínt.
Skemmtilegir punktar um hans persónu.
Góð klipp.
Athyglisverðar athugasemdir um vinnulag hans.
Fín umfjöllun um einkennin.
9,0

Mario Bava

Ágætt æviágrip, og vel flutt af Steinari.
Fín umfjöllun um tækniatriði.
Vel farið í Black Sunday, nokkrar góðar pælingar. Hrukkuatriðið er vel valið.
Í styttra lagi.
8,5

Akira Kurosawa

Talsvert of langur.
Langur inngangur um Japan, sem virðist algjör óþarfi. 3 mínútur líða áður en farið er að fjalla um samúræja (sem tengist a.m.k. Kurosawa óbeint) og 5 mínútur líða áður en byrjað er að tala um Kurosawa. Og fyrir vikið var ekki tími til þess að sýna klipp.
Æviágripið er í lagi, það er soldið óljóst hvað á við um bróðurinn og hvað um Akira.
Umfjöllun um einkenni er góð.
Ágæt umfjöllun um sumar myndirnar, sérstaklega um Seven Samurai.
7,5

Dario Argento

Æviágripið er gott.
Umfjöllunin um Suspiria er mjög góð, ágæt um Inferno. Hinar eru í lagi.
Það hefði átt að lóda klippin strax til þess að hafa betra flæði. Þetta er ekki nógu vel skipulagt.
Klippin eru hins vegar mjög góð.
9,0

Federico Fellini
Gott æviágrip.
Umfjöllun um einkenni er góð.
Gott klipp úr La Dolce Vita.
Búið að klippa klippurnar. Greinilega lögð vinna í það (meiri en hjá hinum hópunum).
Klippin í lokin eru skemmtileg, en kannski ekki beint dæmigerð um Fellini. Spurning hversu vel þau passa inn.
9,5

þriðjudagur, 16. desember 2008

Umsagnir um maraþonmyndir (loksins, loksins)

Hópur 1: Sunnudagsmorgun (morð)
Hér er margt vel gert.
Klippingar eru vel hugsaðar og furðu nákvæmar miðað við að klippt er í vélinni.
Myndmálið er nokkuð gott, mörg fín skot.
Notkun tónlistar er góð.
Tryggvi er ansi góður í aðalhlutverkinu.
Fléttan er einföld og hnitmiðuð.
9,0

Hópur 2: Ömmubrauð
(leti)
Þessi virðist fyrst og fremst vera djók, og við fyrstu sýn sá ég ekki margt annað í henni.
Við fleiri áhorf komu í ljós skemmtileg tækniatriði. Myndramminn ("framing") er oft vel skipulagður.
Notast er við tilfærslu fókuss á einum stað - plús fyrir það.
Ég ELSKA skotið þar sem Anton boom operator birtist í bakgrunni... það er eitthvað við það burtséð frá djókinu.
Og svo virkar hún ansi skemmtilega sem djók.
8,5

Hópur 3: Hin eina sanna
(afbrýðisemi)
Þrátt fyrir að margt væri ágætlega gert (blóðslettan á veggnum stóð uppúr) þá vantaði einhverja samfellu í þessa mynd. Hún varla hengur saman: samband milli sena er ekki nógu skýrt og klippingar ekki nógu góðar.
8,0

Hópur 4: Á tæpasta vaði (stríð)
Langbesta myndin.
Hér er varla veikan blett að finna.
Sagan er ágæt og skemmtilega útfærð.
Myndatakan er mjög fín.
Tónlistin er sérlega góð.
Allt í allt, eins gott og hægt er að búast við af maraþon-mynd.
10,0

Hópur 5: Nágranninn
(hatur)
Hér er fléttan fín og sögunni komið ágætlega til skila.
Ef það er eitthvað sem vantar uppá, þá er það að hún er tæknilega ansi basic - hér virðist vera minni áhugi á að prófa sig áfram og gera tilraunir með uppbyggingu myndrammans og annað slíkt. Skotin eru löng og víð og ekkert sérstaklega spennandi.
8,5

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Handritamappan

Skilafrestur á handritamöppunni er næstkomandi miðvikudag.
Til þess að fá 10 eigið þið að vera búin með eftirfarandi verkefni og æfingar:
Æfingar 3, 5, 7, 8, 10 og 11.
Verkefni 9-11 og 13-15. Þó með þeirri breytingu að verkefni 15 má vera byggt á útlínu þjóðsögunnar (verkefni 11) eða hinni útlínunni (verkefni 14).

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Dagskrá 14. og 15. viku, 24. nóv-5.des

Mánudagur 24. nóv, 8.10-9.35
Handrit, frh. kaflar 5 og 6.
Fyrir þennan tíma eigið þið að vera búin að búa til útlínu að stuttmynd sem er byggð á íslenskri þjóðsögu.

Miðvikudagur 26. nóv, 8.10-9.35
Handrit, frh.
Kafli 6 og "Who?" og "The Art of Weaving" aftar í heftinu (bls. 86-96).
Fyrir þennan tíma eigið þið að vera búin að gera útlínu að handriti (um vandræðalega hlutinn) og byrjuð á fyrsta uppkastinu.

Föstudagur 28. nóv, 8.10-9.35
A Personal Journey Through American Film With Martin Scorsese. 1. hluti.

Miðvikudagur 3. des, 8.10-9.35
A Personal Journey Through American Film With Martin Scorsese. 2. hluti.
Skiladagur handritamöppu.

Föstudagur 5. des, 8.10-9.35
A Personal Journey Through American Film With Martin Scorsese. 3. hluti.

Skiladagur bloggs fyrir haustönn. Eftir þennan dag þurfið þið að vera komin með 100 stig á önninni til þess að fá 10 fyrir önnina. Annareinkunnin gildir 50/50 á móti mánaðareinkunnunum, þ.a. þið getið lagfært einkunnir ykkar talsvert með átaki hér, ef þið hafið ekki sinnt skrifunum jafnt og þétt.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Dagskrá 13. viku, 17.-21. nóv

Mánudagur 8.10-9.35
Handrit frh.
Förum u.þ.b. í kafla 3-4 í Writing the Short Film.

HEIMAVINNA:
Lesa handrit og horfa á mynd.
1. Veljið ykkur mynd og finnið handritið að henni á netinu.
2. Lesið fyrstu 10 blaðsíðurnar í handritinu.
3. Horfið á samsvarandi hluta myndarinnar (u.þ.b. 10 mín.).
4. Lesið næstu 10 bls. og horfið á næstu 10 mín., og svo koll af kolli út myndina.
5. Skrifið blogg-færslu um þetta: Teljið þið ykkur skilja handritaskrif betur? Lærðuð þið eitthvað af þessu? Kom eitthvað á óvart?

Miðvikudagur 8.10-9.35
Handrit frh.
Förum u.þ.b. í kafla 5-6 í Writing the Short Film.

Föstudagur 14.55-16.15
Horfum á Chinatown eða þrjár stuttmyndir sem eru teknar sem dæmi í bókinni (sjá kosningu):
Two Men and a Wardrobe eftir Roman Polanski
Le Ballon Rouge eftir Albert Lamorisse
Incident at Owl Creek eftir Robert Enrico.

laugardagur, 8. nóvember 2008

Dagskrá 12. viku, 10.-14. nóv

Mánudagur 8.10-9.35
Handritagerð. Lesið fyrstu tvo kaflana í handritahlutanum fyrir þennan tíma.

Miðvikudagur eða föstudagur 8.55-9.35 (sjá kosningu)
Handritagerð frh. Lesið næsta kafla í handritahlutanum.

Á miðvikudag fellur niður kennsla í 3.,4. og 5. tíma vegna tónleika og heilsuátaks. Ef við færum þennan tíma yfir á föstudag, þá þurfum við ekki að mæta í skólann fyrr en 12.40. Ef það hljómar vel, kjósið þá "já" í kosningunni hér til hægri.

Föstudagur 14.55-16.50
Bíómynd vikunnar. Horfum að öllum líkindum á Les quatre cents coups (400 höggin) eftir Francois Truffaut. Hún er ekki bara vel skrifuð, heldur er hún líka gott dæmi um mynd þar sem sagan er byggð á ævi höfundar, þ.e. aðalpersónan Antoine Doinel er í grófum dráttum Truffaut.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Dagskrá 11. viku, 3.-7. nóv

Mánudagur 8.10-9.35
Fyrirlestrar nemenda. Allir eiga að vera tilbúnir ef skyldu verða forföll. Í þessum tíma verða a.m.k.:
Argento
Bava
Tati
Kurosawa

Miðvikudagur 8.10-9.35
Fyrirlestrar nemenda. Höfum tvöfaldan tíma svo við náum örugglega að klára fyrirlestrana.
Hitchcock
John Ford
Fellini

Föstudagur 14.55-16.40
Casablanca. Í tilefni þess að við erum að byrja að fjalla um handritagerð ætlum við að horfa á eina best skrifuðu mynd allra tíma.

sunnudagur, 26. október 2008

Dagskrá 10. viku, 27.-31. okt

Mánudagur 8.10-9.35
Höldum áfram að tala um heimildamyndir.
Horfum m.a. á stuttu heimildamyndina City of Gold.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Síðasti heimildamyndatíminn.

Föstudagur 14.55-17.00
Horfum á sigurvegara netkosningarinnar.

fimmtudagur, 23. október 2008

Netkosning: Kvikmynd næstu viku

Á hægri hönd má sjá netkosningu um það hvað heimildamynd við horfum á næsta föstudag, 31. okt. Ég mun skrifa nokkrar línur um myndirnar á næstu dögum, en þetta eiga allt að vera mjög góðar myndir.

51 Birch Street
Heimildamyndagerðarmaðurinn Doug Block hyggst nota myndavélina sína til þess að bæta tengsl sín við foreldra sína. Þegar móðir hans deyr og faðirinn tekur saman við ritarann sinn nánast áður en hún er komin í gröfina vakna ýmis konar spurningar hjá Doug. Hversu vel þekkir hann foreldra sína?
Roger Ebert fannst þessi ein besta heimildamynd ársins 2004. Fyrir okkur er hún kannski fyrst og fremst áhugaverð vegna efnisins: kvikmyndagerðarmaðurinn er venjulegur gaur sem byrjar að gera mynd um fjölskyldu sína, sem hann telur vera bara venjulega fjölskyldu, síðan gjörbreytast hlutirnir. Það er hægt að gera góða heimildamynd um hvað sem er.

Titicut Follies
Frederick Wiseman er einn virtasti heimildamyndagerðarmaður samtímans. Hann tekur ávallt fyrir einhverja menningarkima og fylgist með þeim á mjög hlutlausan hátt. Í Titicut Follies, fyrstu mynd sinni, er hann fluga á vegg í geðvekrahæli, og við fylgjumst með daglegu lífi geðsjúklinganna og hvernig farið er með þá.
Wiseman hefur m.a. gert myndir um blinda (Blind), herþjálfun (Basic Training sem Kubrick leitaði mikið til fyrir gerð Full Metal Jacket), menntaskólanema (High School og High School II), heimilisofbeldi (Domestic Violence og Domestic Violence 2) og margt, margt fleira.

Harlan County USA
Mynd um verkfall námuverkamanna í Kentucky, þar sem námufyrirtækið beitti m.a. vopnavaldi gegn verkamönnum (sem er nota bene ekkert nýtt í Bandaríkjunum), og heimildamynda-gerðarmennirnir sættu líkamsárásum og voru í lífshættu.
Þessi er algjör klassík og skylduáhorf hjá öllum sem hafa áhuga á heimildamyndum (ef ég myndi kjósa myndi ég líkast til kjósa hana).

Salesman
Áhrifamikil mynd um raunir sölumanna sem ganga hús úr húsi, og það hvernig það tekur á sálina að verða stöðugt hafnað. Svona "real-life" Willy Loman persónur, ég ætti eiginlega að sýna þessa þegar ég kenni Death of a Salesman.
Maysles-bræður, sem gerðu þessa, eru meðal virtustu heimildamyndagerðarmanna allra tíma og gerðu meðal annars Rolling Stones-myndina Gimme Shelter. Myndir þeirra eru gott dæmi um cinema verité. Albert Maysles kom einmitt til Íslands í vor á heimildamyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirði (ég vildi óska að ég hefði komist, en þetta var í miðjum vorprófunum).

Don't Look Back
Fræg heimildamynd D.A. Pennebaker um tónleikaferðalag Bob Dylan um Bretlandseyjar 1965, þegar hann byrjaði að færa sig frá þjóðlagatónlist og yfir í rokkið. Það var ekki öllum skemmt, og hann var oft kallaður svikari af áhorfendum.
D.A. Pennebaker er eitt allra stærsta nafnið í heimildamyndagerð, og einn af frumkvöðlum cinema verité stílsins og einn sá fyrsti sem notaði handheldar 16mm vélar í heimildamyndagerð.

Gates of Heaven
Fyrsta mynd Errol Morris. Fjallar um gæludýrakirkjugarð í Kaliforníu og fólkið sem grefur dýrin sín þar. Hún byrjar sem athugun á furðufuglum sem borga þúsundir dollara fyrir að grafa gæludýrin sín, en öðlast mun meiri dýpt en nokkurn hefði grunað.
Roger Ebert telur þessa með betri myndum allra tíma.

Taxi to the Dark Side
Vann Óskarinn 2008 fyrir bestu heimildamynd. Fjallar um pyntingaraðferðir Bandaríkjamanna í Afganistan, Írak og Gitmo, og einbeitir sér helst að afgönskum leigubílstjóra sem var pyntaður og drepinn árið 2002.

Triumph des Willens
Tímalaus klassík og siðlaus viðbjóður.
Listilega vel gerð upphafning Leni Riefenstahl á þriðja ríkinu er erfið áhorfs en jafnframt skólabókardæmi í gerð áróðursmynda.
Það sem truflar mig alltaf mest með þessa og Olympia er hvernig Riefenstahl formgerir mannslíkamann, með þeim hætti að fólk er brotið niður í hluta og hlutarnir verða abstrakt form. Þetta er nokkuð sem hún gerði allan sinn feril, t.d. sem ljósmyndari í Afríku, en þegar maður sér þetta í tengslum við þriðja ríkið, sem gerði nokkuð mikið af því að breyta lifandi fólki í eitthvað allt annað, þá stendur manni ekki á sama.

Vernon, Florida
Önnur eftir Errol Morris. Ég hefði eiginlega átt að velja bara eina, en gat ekki valið á milli.
Morris var í smábænum Vernon að rannsaka ákveðna hefð meðal bæjarbúa að aflima sig í "slysi" fyrir tryggingarpeninginn, en á endanum kom þetta hvergi fram í myndinni, heldur fjallar hún um furðulega íbúa þessa bæjar á mun almennari hátt.

Baraka
Í nýlegri grein Roger Eberts leggur hann til að verði geimfar sent út í geim með gögn um mannkynið, og það mætti bara velja eina bíómynd, þá ætti þessi að verða fyrir valinu.
Þetta er ótrúlega flott mynd um samspil manns og náttúru og hin ýmsu form sem mannlegt samfélag og náttúra geta tekið á sig (það eru myndir frá öllum heimshornum). Eintakið mitt er í High Definition, og þetta er mynd þar sem það skiptir máli.

laugardagur, 18. október 2008

Dagskrá 9. viku, 20.-24. okt

Mánudagur 8.10-9.35
Heimildamyndir. Fyrir þennan tíma vil ég að þið séuð búin að renna í gegnum heimildamyndahlutann í heftinu.
Þeir sem eiga eftir að velja leikstjóra fyrir fyrirlestrana eiga að tilkynna val sitt í dag.
Við byrjum að taka frá töku- og klippidaga fyrir heimildamyndirnar.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Heimildamyndir frh.

Föstudagur 14.55-16.30
Horfum á The Cats of Mirikitani, stórgóða heimildamynd.

laugardagur, 11. október 2008

Dagskrá 8. viku, 13.-17. okt

Sunnudagur kl. 18 í Kringlubíó
Hópferð á Queen Raquela. Reynum að ná betri mætingu en seinast.












Mánudagur 8.10-9.35

Heimildamyndagerð.
Skoðum proposal hjá hópunum og ræðum hugmyndirnar.
Smá fyrirlestur líka.

Miðvikudagur 8.20-9.35
Ólafur Jóhannesson, leikstjóri Queen Raquela, kemur í heimsókn.
Allir eiga að vera búnir að sjá myndina.
Allir eiga að vera tilbúnir með 2-3 spurningar.
Bannað að mæta seint.

sunnudagur, 5. október 2008

Reykjavík-Rotterdam: Langbesta íslenska spennumyndin?

Metmæting í dag: 3 nemendur mættu á "hópferð" okkar á Reykjavík-Rotterdam í dag. Ég minni á að það er skylda að sjá myndina fyrir miðvikudag, og þeir sem ekki skila mér miðum í seinasta lagi í þeim tíma (rækilega merktum) fá skróp í seinustu þremur tímunum í síðustu viku.
Annars er þessi mynd, alveg burtséð frá þessu námskeiði, skylduáhorf fyrir alla íslenska kvikmyndaunnendur. Hún er nefnilega verulega góð. Ég er á því að þetta sé langbesta íslenska spennumyndin hingað til, og janfvel bara með betri myndum sem ég hef séð í ár (ég þarf samt að melta hana aðeins betur til þess að ég þori að fara svo langt). Þetta er bara "must-see", það er ekki flóknara en það.
Ég ætla ekki að skrifa meira um hana í bili, ég vil ekki eyðileggja hana fyrir ykkur.

Dagskrá 7. viku, 6.-10. október

Sunnudagur kl. 15.30 í Háskólabíó
Hópferð á Reykjavík-Rotterdam
Ég gleymdi að athuga tímann á sýningunni. Hún er sem sagt sýnd 15.30. Vona að allir sjái þetta fyrir sýningu.

Mánudagur kl. 8.10-9.35

Byrjum að tala um heimildamyndir. Þar sem heftið er enn ekki komið hef ég sett fyrstu tvo kaflana um heimildamyndagerð inn á MySchool. Mæli með því að þið lesið þá.

Miðvikudagur 8.20-9.35
Óskar Jónasson, leikstjóri Reykjavík-Rotterdam (og Svartra Engla og Sódómu) kemur í heimsókn.
Fyrir þennan tíma verða allir að vera búnir að sjá myndina.
Munið að vera tilbúin með 2-3 spurningar.
BANNAÐ AÐ KOMA SEINT

RIFF: Dagur 10

Í dag fór ég á Suicide Tourist og Revanche.

Suicide Tourist
Þessi var ansi mögnuð. Myndin fjallar um rétt fólks til þess að deyja, nánar tiltekið stofnun í Sviss sem veitir fólki aðstoð við að fremja sjálfsmorð. Í fyrirlestri sínum sagði leikstjóri myndarinnar, John Zaritsky, að hann hefði áður gert mynd um aðstoðað sjálfsmorð (assisted suicide), þá í Hollandi (ég finn reyndar ekkert á IMDB um þá mynd), og að hann hefði almennt þá reglu að snúa ekki aftur í sama efnið. Hins vegar hefði írafárið í kringum Teri Schiavo fyrir nokkrum árum kveikt löngun hans til þess að gera aðra mynd um rétt fólks til þess að deyja. Hann byrjaði að rannsaka efnið og fann svo upplýsingar um Dignitas, Svissnesku stofnunina sem gegnir svo stóru hlutverki í myndinni.
Fyrir þá sem ekki muna, þá var Terri Schiavo bandarísk kona um fertugt sem var í dái í 15 ár eftir að hafa hlotið alvarlegan heilaskaða í kjölfar hjartastopps. Áður en hún fór í dá hafði hún látið í ljós þær óskir að henni skyldi ekki haldið lifandi við þessar aðstæður, og vildi eiginmaður hennar fara eftir þessum óskum. Foreldrar Teri vildu það hins vegar ekki, og úr varð mikið fjaðrafok þar sem strangkristnir öfgahægrimenn eins og George W Bush lýstu sig andsnúna því að leyfa Terri að deyja (Bush lét meira að segja setja lögbann á það, og það fór að lokum fyrir hæstarétt). Terri var loks leyft að deyja árið 2005.
Þó svo að Zaritsky hafi gert myndina með það í huga að styðja rétt fólks til þess að deyja, þá er ekki hægt að segja að myndin hafi yfirbragð áróðurs eða þrýsti með nokkrum hætti þessari skoðun á áhorfandann. Sögumaður myndarinnar heldur sig alfarið við staðreyndir, m.a. um lagalegu hliðina á þessum málum, án þess að upphefja eða fordæma gjörðir þeirra sem leita til Dignitas eða þeirra sem starfa fyrir Dignitas. Stuðningur við aðstoðað sjálfsmorð kemur aðeins fyrir í málflutningi viðmælendanna sem eru m.a. forstjóri Dignitas og nokkrir starfsmenn, auk þriggja einstaklinga sem hyggjast stytta sér aldur. Myndin er aðeins hlutdræg að því leyti að hún inniheldur ekki viðtöl við andstæðinga aðstoðaðra sjálfsmorða.
Myndin er samt alls ekki einhver köld athugun á þessu fyrirbæri og Dignitas stofnuninni, heldur sjáum við þetta í gegnum reynslu tveggja hjóna. Craig Ewert þjáist af taugahrörnunarsjúkdómi (ALS eða Lou Gehrig's disease) sem leggst á taugar sem senda hreyfiboð, en aðrar taugar haldast heilar, þ.a. viðkomandi heldur áfram að skynja t.d. sársauka. Craig getur ekki lengur hreyft hendurnar og þarf öndunarvél til þess að anda almennilega. Frá því að hann greindist með sjúkdóminn hefur hann verið að velta fyrir sér sjálfsmorði og nú finnst honum kominn tími til. Ein ástæða þess að hann vill gera þetta núna er að sjálfsmorðsaðferðin hjá Dignitas felst í því að drekka svefnlyf, en næsta skrefið í sjúkdómnum mun líklegast gera honum ókleift að kyngja. Craig fer því til Sviss ásamt konu sinni, Mary, en þau hafa verið gift í 37 ár og virðast enn nokkuð ástfangin.
George hefur fengið þrjú hjartaáföll, og lýsir sjálfum sér sem bíl með fjögurra strokka vél þar sem aðeins einn strokkurinn virkar. Hann er enn nokkuð sjálfbjarga en er þó veikburða og kvartar undan því að hann getur ekki lengur spilað tennis eða golf eða stundað kynlíf. Hann óttast líka mjög að eitthvað gæti komið fyrir sem gerði hann ósjálfbjarga og treystir sér ekki til þess að lifa við svoleiðis aðstæður. Þess vegna ætlar hann, eins og hann orðar það, að "fara" á meðan hann er ennþá sæmilega heilbrigður og hamingjusamur. Ekki nóg með það, heldur vill konan hans, Betty, ekki lifa án hans og ætlar að deyja með honum, þrátt fyrir að hún sé við hestaheilsu. Þau virðast líka vera mjög ástfangin, og raunar virðast þessi tvö hjónabönd svo góð að það liggur við að maður segi myndina vera ástarsögu að hluta.
Mér fannst svolítið áhugavert sem leikstjóri A Beautiful Tragedy sagði á Q&A eftir þá mynd. Hann sagði að það væri ekki hægt að gera vonda heimildarmynd, og ef þú gerðir vonda heimildarmynd þá værirðu einfaldlega ekki nógu nálægt viðfangsefninu. Það er engin hætta á því í þessari mynd því við förum mjög nærri fólkinu í myndinni, sérstaklega George og Betty.
Craig og George og Betty bíða mismunandi örlög í Sviss. Læknirinn sem skrifar upp á svefnlyfið sem er notað vill ekki skrifa upp á lyf handa þeim vegna þess að hvorugt þeirra er nógu veikt (ekki einu sinni George). Yfirmaður Dignitas styður þeirra ákvörðun, og samkvæmt svissneskum lögum er ekki gerð nein krafa um sjúkdóm eða annað til þess að aðstoðað sjálfsmorð sé löglegt, en eftir mikla neikvæða umfjöllun um stofnunina hefur lögreglan lagt hart að læknum að skrifa ekki upp á lyf fyrir aðstoðað sjálfsmorð nema viðkomandi sé alvarlega veikur. Þau verða því að snúa heim aftur og George talar um að nú muni hann kaupa sér byssu og æfa sig í að nota hana svo hann geti sjálfur svipt sig lífi. George og Betty standa fast á sínu og eru ákveðin í að framkvæma þetta. Þau ætla að fremja sjálfsmorð á brúðkaupsdaginn sinn. Í lok myndar kemur fram að Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að allir eigi rétt til þess að deyja, burtséð frá aldri og heilsu. Þetta veitir George og Betty nokkra von um að þau geti notað þjónustu Dignitas og þurfi ekki að gera þetta á einhvern subbulegan hátt.
Craig þykir hins vegar nógu veikur til þess að þiggja þjónustuna. Hann fer til Sviss ásamt konu sinni og drekkur lyfið við undirleik 9. simfóníu Beethovens. Allt er sýnt, bæði þegar hann drekkur eitrið og þegar öndunartækið slekkur á sér. Þetta er ekki auðvelt á að horfa, en ég er ekki viss um að ég hefði þolað að horfa upp á George og Betty stytta sér aldur.
Hér er smá brot úr myndinni og viðtal við John Zaritsky:

föstudagur, 3. október 2008

RIFF: Dagur 9

Í dag fór ég á "íslensku" stuttmyndirnar, A Beautiful Tragedy og Zift.

"Íslensku" stuttmyndirnar
Í fyrsta lagi þá finnst mér soldið frjálslega farið með orðið "íslenskar" í titli þessarar sýningar. Á þessari sýningu voru sýndar fimm stuttmyndir, þar af þrjár sem ég gæti með góðri samvisku kallað íslenskar.
Naglinn er stórskemmtileg mynd í leikstjórn Benedikts Erlingssonar um forsætisráðherra sem fær nagla í hausinn þannig að hann verður fyrir skemmdum á fremra heilablaði og breytist í nánast hömlulaust óargardýr (sem hljómar kannski ekkert svo illa þessa dagana).
Smáfuglar er flott mynd sem vekur upp spurningar. Hún er um hóp unglinga sem fer á djammið með sér eldra fólki og reynast hálf bjargarlausir við þessar aðstæður. Það er eiginlega ekki hægt að segja meira um hana án þess að fara að tala um endann. Þetta var líka eina myndin sem var sýnd af filmu, og Rúnar leikstjóri skammaðist sín soldið fyrir það að filmueintakið var víst eitthvað "workprint", þ.a. það var vel grainy og rispað. Hins vegar er filman orðin svo rómantíseruð að eftir fjórar stuttmyndir í misjöfnum stafrænum gæðum var virkilega skemmtilegt að fá mynd á filmu þar sem það fór ekkert framhjá neinum að um filmu væri að ræða.
Þessar tvær voru langbestar, hinar voru talsvert miklu síðri.
Harmsaga var flott (eða hefði verið það hefði hún verið sýnd af filmu en ekki lélegri stafrænni yfirfærslu) en svo ekki söguna meir. Hún hafði ekkert nema lúkkið, og ég man ekki eftir mörgum myndum með slappari söguþræði.The Emperor er bandarísk mynd eftir íslenskan leikstjóra. Þetta er soldið heillandi skólamynd eftir Þorbjörgu Jónsdóttir sem stundar nám við CalArts. Fyrir unnanda þýska expressjónismans var þetta skemmtileg mynd, enda leitar hún mikið þangað með útlitið. Þessi mynd er þögul, svart-hvít og mikið stílfærð. Sagan er aukaatriði.
Varmints getur engan vegin talist íslensk. Eini Íslendingurinn sem kemur nálægt þessari mynd er Jóhann Jóhannsson sem semur tónlistina. Þetta er tölvuteiknuð mynd, og útlitið er svo sem ágætt, en efnið er fáránlegt. Þetta er alveg ótrúlega illskiljanleg allegóría um mengun og gróðurhúsaáhrifin og eitthvað þannig. Ég get ekki sagt meira af þeirri einföldu ástæðu að ég skildi ekki meira en það. Fáránleg mynd.
Zift
Ansi skemmtilegt "homage" til noir-myndanna.
Í upphafi myndar er Mölurinn (Moth) látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í 12 ár (held ég) fyrir morð sem hann framdi ekki. Hann var samt viðriðinn morðið sem var framið í ráni sem hann tók þátt í ásamt kærustu sinni, Beiðunni (Mantis), og félaga sínum, Sniglinum (Slug).
Myndin samanstendur annars vegar af atburðarásinni sólarhringinn eftir að honum er sleppt úr fangelsi, og hins vegar af röð endurlita (flashback) sem rekja sögu hans fram að því.
Þegar Mölnum er sleppt úr haldi bíða hans fyrir utan fangelsið handbendi Snigilsins sem ræna honum vegna þess að þeir halda að hann viti um góssið úr ráninu forðum (sem var svartur demantur). Þeir pynta hann og eitra loks fyrir honum með hægvirku eitri til þess að fá úr honum upplýsingarnar, en hann segir þeim ekki neitt.
Hér er komin skemmtileg vísun í klassíska noir-mynd, D.O.A., sem er einmitt um mann sem var eitrað fyrir og hefur ákveðið langan tíma til þess að komast að því hver eitraði fyrir honum og vonandi finna móteitur. Mölurinn veit auðvitað hver eitraði fyrir honum, en seinni hluti myndarinnar er samt áþekkur D.O.A. að því leyti að hann er að leita að Sniglinum til þess að hefna sín, og að móteitri til þess að bjarga sér.
Samt fannst mér myndinni aðeins fatast flugið þegar á leið. Þó er ég ekki viss hvort hafi átt stærri þátt í því, minnkandi gæði myndarinnar eða þreyta mín. Það verður þó að segjast alveg eins og er að þegar hér var komið í sögu þá var ég orðinn ansi þreyttur. 25 myndir á 9 dögum og lítill svefn þar á milli geta haft þau áhrif.

RIFF: Dagur 8

Í dag fór ég á Villta tarfinn, Lengstu leiðina og Tulpan.

Meira um það síðar...

fimmtudagur, 2. október 2008

RIFF: Dagur 7

Í dag fór ég á Rannsóknarmanninn (sem var snilld), Shadow of the Holy Book (sem var frekar slöpp) og Hönnu K (sem var fín). Á meðan á Hönnu K stóð fór ég að óska þess að ég hefði getað sofið út í morgun, því ég átti í mesta basli með að halda mér vakandi, og þó var þetta fín mynd.

A nyomozó eða Rannsóknarmaðurinn
Þessi var mjög góð. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að kalla þetta Hitchcock á ungversku. Myndin tvinnar saman góða thriller-fléttu og svartan húmor svo úr verður alveg listileg samsetning. Ég mæli hiklaust með þessari (síðasta sýningin er á laugardagskvöld kl. 8).
Aðalpersónan er meinafræðingurinn Malkáv, sem er alveg ótrúlega svipbrigða- og tilfinningalaus framan af myndinni. Hann lifir tilbreytingarlausu lífi: hann fer í vinnuna, fær sér svo alltaf að borða á sama veitingastaðnum, fer svo yfirleitt í bíó og svo beint heim. Eitt kvöldið kemur hann á veitingastaðinn þegar verið er að loka og verður það einhvern veginn til þess að þjónustustúlkan býður sér með honum í bíó. Að myndinni lokinni skutlar hann stúlkunni heim. Ekkert gerist og hann virðist engan áhuga hafa á henni, en hann segir að hún megi svo sem alveg koma með sér aftur í bíó.
Mamma Malkávs er að deyja úr krabbameini og hann á ekki fyrir meðferðinni sem gæti bjargað henni. Maður sem kallar sig Kýklópann (hann er blindur á öðru auganu) hefur samband við Malkáv og býður honum peninginn sem hann þarf fyrir að drepa mann. Röksemdarfærsla hans er sú að Malkáv sé vanur að sjá blóð og lík, honum vanti pening, og að hann sé á engan hátt tengdur fórnarlambinu og því verði glæpurinn aldrei rakinn til hans (þetta ætti að minna ykkur á Strangers on a Train). Malkáv hugsar sig um í svona tvær sekúndur og slær svo til (jafn svipbrigðalaus og ávallt). Eins og ætla mátti leiðir þetta til snúinnar og spennandi (og á köflum hlægilegrar) atburðarásar. Ég segi ekki meira.

miðvikudagur, 1. október 2008

RIFF: Dagur 6

Í kvöld fór ég á Breakfast with Scot og Mr. Big.

Breakfast with Scot
Þetta gæti verið ein mest "mainstream" mynd hátíðarinnar. Þetta er hugljúf, krúttleg og alveg ótrúlega saklaus mynd um hommapar sem taka að sér lítinn dreng eftir að mamma hans tekur of stóran skammt af eiturlyfjum.
Aðalpersónurnar eru Eric, fyrrverandi íshokkíhetja og núverandi íþróttafréttamaður (sem dreymir um að fara til Reykjavíkur að fylgjast með heimsmeistaramóti unglinga í íshokkí), og Scot Latour, 12 ára munaðarleysingi (eins og Eric orðar það: "He's my boyfriend's brother's dead ex-girlfriend's son") sem er með frekar torræða kynímynd (hann er eins kvenlegur og mögulegt er að hugsa sér).
Úr þessum efnivið hefði vafalítið verið hægt að búa til áleitna, "edgy" mynd, þar sem tekið er á málefnum samkynhneigðra eða hugmyndir okkar um kynímyndir skoðaðar í þaula. En það var ekki gert. Þetta er einfaldlega gamla góða formúlan, fjölskyldumynd sem hefði alveg eins getað verið framleidd af Disney. Það er ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd. Hún á bara ekkert erindi á kvikmyndahátíð - þetta er ágætis spólumynd. Þar að auki líður hún fyrir hræðilegan leik aðalleikarans Tom Cavanagh sem einhverjir muna kannski eftir í hlutverki keilusalarlögfræðingsins Ed í samnefndum þáttum.

Ég hafði heyrt fína hluti um þessa og fór kannski á hana með of háar væntingar. Hún fjallar um áhugavert efni og tekur svo sem ágætlega á því, en mér fannst hún bara ekki nógu vel gerð.
Mr. Big vísar í ákveðna leið sem kanadíska lögreglan (The Royal Canadian Mounties) notar til þess að fá fram játningar í alvarlegum glæpum. Þessi aðferð felst í því að leynilögreglumenn (undercover police officers) skella sér í hlutverk mafíósa eða glæpaforingja (þ.e. Mr. Big) og vingast við þá grunuðu. Síðan flækja þeir hina grunuðu í "skipulagða glæpastarfsemi" og reyna svo að þvinga eða lokka út úr þeim játningar á glæpunum sem þeir eru grunaðir um. Og þetta virkar furðu oft.
Þegar ég segi að þetta virki, þá á ég við að þeir fá fram játningar. Það er ekki þar með sagt að játningarnar séu réttar. Í myndinni eru viðtöl við menn sem játuðu á sig hrikalega glæpi en var síðan sleppt þegar í ljós kom að um falskar játningar var að ræða. Af hverju játuðu þeir þá á sig glæpinn? Þeir óttuðust um líf sitt eða líf fjölskyldu sinnar, eða vildu einfaldlega ganga í augun á glæpaforingjanum. Höfum í huga að hér er um að ræða eitthvað sem þeir telja sig vera að segja undir fjögur augu, þeir eru ekki meðvitað að játa á sig glæpinn. Slíkar játningar, fengnar með þessum hætti, myndu aldrei vera teknar gildar í Bandaríkjunum eða Bretlandi.
Hugsiði ykkur líka kostnaðinn og umstangið við þetta. Svona Mr. Big gildra getur verið marga mánuði í framkvæmd og lögreglumaðurinn "þarf" ávallt að sýnast vera glæpaforingi og lifa samkvæmt því (áfengi, dóp og peningar í stríðum straumum). Sem sagt, lögreglumaðurinn lifir eins og kóngur á meðan á gildrunni stendur. Auk þess hika þeir ekki við að brjóta lögin, bæði til þess að sannfæra hinn grunaða um að þeir séu glæpaforingjar, og líka til þess að flækja hann í eitthvað ef ekki skyldi takast að fá hann til að játa (þeir geta þá alltaf kært hann fyrir glæpina sem hann fremur fyrir Mr. Big).
Þó svo að viðtöl séu tekin við nokkur fórnarlömb þessarar gildru, þá er hún fyrst og fremst um Sebastien Burns, bróður leikstjórans, sem lenti í svona gildru og var fundinn sekur um að hafa myrt foreldra vinar síns. Það að hann skuli hafa verið fundinn sekur er eiginlega alveg ótrúlegt: einu sönnunargögnin gegn honum var játningin sem fékkst með falinni myndavél við afar dularfullar aðstæður; morðið var ekki einu sinni framið í Kanada, en kanadíska lögreglan taldi sig hafa umdæmi því drengirnir hefðu skipulagt morðið í Kanada; drengirnir höfðu verið í bíó á meðan morðið var framið; það fannst ekki blóðdropi á þeim (ekki einu sinni með svona bláu ljósi) þrátt fyrir að morðin hefðu verið sérlega blóðug og hrottaleg; það fannst DNA úr öðrum á staðnum, en það hunsaði lögreglan alveg eftir að hafa sent það í prófun þrisvar.
Leikstjóri myndarinnar er stórasystir Sebastien, Tiffany Burns. Hún er sjónvarpsfréttakona, svona "cold, angular blonde", og kemur ekkert sérstaklega vel fyrir í myndinni. Vissulega tengist efni myndarinnar henni persónulega, en samt fannst mér hún ota sér óþarflega mikið framí. Síðan var ýmislegt sem mér fannst mætti gera betur. Ég held einfaldlega að myndin hefði verið talsvert betri í höndum reyndari leikstjóra sem hefði haldið sig meira til hlés. John Zaritsky hefði t.d. getað gert brilljant mynd úr þessu. Þessi er samt ekkert slöpp, hún bara nær ekki að uppfylla möguleika sína né væntingar mínar.

mánudagur, 29. september 2008

RIFF: Dagur 5

Jæja, þá veit ég það. 4 myndir er hámark þess sem ég þoli "on a school night". Í dag fór ég á Cat Dancers, My Winnipeg, Berlin Calling og Missing.

My Winnipeg
Það eru ekki margir sem gera myndir eins og Guy Maddin gerir þær. Ég hef áður séð Dracula: Pages from a Virgin's Diary og stuttmyndina The Heart of the World. Þær eru báðar þöglar og svart-hvítar, og þar að auki túlkar sú fyrrnefnda klassísku söguna um Drakúla í gegnum dans (ég man ekki alveg hvort það var klassískur ballett eða nútíma-dans). Mig hefur þar að auki alltaf langað til að sjá Tales from the Gimli Hospital. My Winnipeg er svart-hvít, en þó ekki þögul, heldur er sögumaður sem talar yfir auk þess sem hlutar myndarinnar eru með sync-hljóði.
Á leiðinni út af þessari mynd heyrði ég einhvern tala um að Maddin hefði hæsta "walk-out ratio" í bransanum, þ.e. að hærra hlutfall áhorfenda fer út af myndum hans áður en þeim lýkur en hjá flestum öðrum leikstjórum. Það fór enginn út af þessari mynd eftir því sem ég best veit, en miðað við fyrstu 20 mínútur myndarinnar þá kemur mér ekki á óvart að margir skuli fara út. Og samt fannst mér myndin góð. Eftir þessar 20 mínútur fór hún nefnilega að verðlauna mann fyrir þolinmæðina, og það voru þó nokkur virkilega eftirminnileg og draumkennd augnablik seinasta klukkutímann. Raunar var seinni hluti myndarinnar það skemmtilegur að ég sá eftir því þegar hún kláraðist.My Winnipeg er draumkennd úttekt á heimaborg leikstjórans. Gegnumgangandi stef í myndinni er að "ég" sögumannsins (sem á væntanlega að vera leikstjórinn sjálfur) vill yfirgefa borgina en þarf fyrst að ganga frá lausum endum í sambandi sínu við borgina. Þetta gerir hann m.a. með því að leigja húsið þar sem hann bjó sem krakki, fara með mömmu sína þangað og leikara sem hann fær til þess að leika systkini sín, og láta þau leika eftirminnileg augnablik úr æsku sinni. Nema hvað á seinustu stundu ákveður konan sem býr þarna að hún vilji ekki flytja út, þ.a. þá eru þarna mamma leikstjórans, 3 leikarar sem leika systkini hans, pitbull hundur kærustu hans sem leikur chihuahua hundinn sem hann átti þegar hann var lítill og skrýtin kona sem hann þekkir ekki neitt. Mamman ku líka vera þaulvön leikkona eftir að hafa leikið í þáttunum Ledgeman, þar sem sami maður fer út á sömu sillu á hverjum degi og hótar að stökkva niður þangað til mamma hans talar hann til.Myndin segir ekki aðeins persónulega sögu Maddins af borginni heldur líka ýmis konar litlar sögur um borgina sem eru margar hverjar alveg ótrúlegar (og ég veit ekkert hverjar eru sannar og hverjar ekki). T.d. er brú yfir járnbrautargarðinn sem var upphaflega smíðuð til þess að liggja yfir ána Níl, en svo kom í ljós að hún passaði ekki þar og þá keypti Winnipeg brúna á útsöluverði. Einnig er skemmtileg sagan um það hvernig heimilislausa fólkið í Winnipeg býr allt á húsþökunum, og þegar skemmtigarðurinn "Happyland" lokaði hirti þetta fólk allt byggingarefni þaðan og byggði sér kofabyggðir ofan á húsþökum borgarinnar, þ.a. nokkurs konar afbakað "Happyland" myndaðist ofan á borginni. Kraftmesta sagan er þó eflaust sú um brunan á veðhlaupabrautinni. Þá kviknaði í veðhlaupabrautinni á kaldasta tíma árs. Hestarnir komust hvergi nema út í ána, nema hvað á sama tíma var hún að frjósa, þannig að úr varð að hestarnir frusu fastir í ánni þannig að höfuð þeirra stóðu uppúr og þannig voru þeir þangað til leysti, 5 mánuðum síðar.
Mér fannst líka skemmtilegt "touch" að myndin er öll með mjög gamaldags útliti, og t.d. er myndin oft látin líta út fyrir að vera á rispaðri filmu, en það er ekki nóg heldur mynda "rispurnar" þá snjóstorm yfir myndinni.
Í stuttu máli þá mæli ég eindregið með þessari, þetta er fyndin og einlæg draumsýn á skrýtið (en jafnframt pínu kunnuglegt) samfélag. Maður þarf bara að vera þolinmóður fyrstu 20 mínúturnar eða svo, þá bæði kemst maður í takt við myndina og hún tekur við sér.

RIFF: Dagur 4

Í dag fór ég á fyrirlestur Costa-Gavras og svo á þrjár myndir: Afterschool, Home og Il y a longtemps que je t'aime.

Costa-Gavras
Enn og aftur sá ég engan úr kvikmyndagerðinni á fyrirlestrinum. Og það var ókeypis inn á þennan. Ég get skilið það að þið hikið við að borga 1000kr. inn á fyrirlestur á sama tíma og þið þurfið að kaupa miða á myndir o.s.frv., en ég skil ekki af hverju enginn lét sjá sig á þessum fyrirlestri. Costa-Gavras er mjög góður leikstjóri, og hefur þá sérstöðu að hann er gríðarlega pólitískur en hefur samt yfirleitt alltaf getað gert þær myndir sem hann vildi, nokkrar meira að segja innan Hollywood (þó svo að ein þeirra hafi síðan ekki litið dagsins ljós fyrr en nýverið, þ.e. Hanna K.).
Þið misstuð samt ekki af neitt rosalega miklu. Það er auðvitað gaman að hlusta á svona meistara tala um bíómyndir, en það var samt ekki margt nýstárlegt sem kom fram. Hann byrjaði á almennum inngangi en síðan fór restin í að svara spurningum, sem voru auðvitað misgóðar (það kom t.d. ein alveg rosaleg tveggja mínútna spurning sem enginn í salnum skildi, frá konu sem fannst að Bandaríkjamenn ættu að gera fleiri gamanmyndir og færri action-myndir af því að gamanmyndir væru betri fyrir heilsuna...)
"Allar myndir eru pólitískar."

Afterschool eða Eftir skóla
Þessi var hálf tormelt. Aðalpersónan er Robert, 16 ára patti í rándýrum prep-school í Bandaríkjunum. Aðaláhugamál hans eru myndbönd á youtube og klám. Og hvort sem myndböndin innihalda ofbeldi eða bara eitthvað krúttlegt þá verða þau að vera raunveruleg ("something real"), ekki fake eins og allt í sjónvarpinu. Smá endurómur af Holden Caulfield í Catcher in the Rye?
Herbergisfélagi Roberts er Dave, algjör skíthæll sem selur hinum krökkunum dóp og afritar heimavinnuna frá Robert. Vegna þess að Dave er með "sambönd" hengur hann soldið með svölustu stelpunum í skólanum, tvíburasystrunum Mary og Ann Talbert. Þær eru á kafi í kóki, og einn daginn taka þær eitrað efni og drepast. Robert, sem var að taka upp "establishing shots" fyrir einhverja mynd, verður vitni að dauða þeirra. Það er óljóst hvort Dave eigi sök á dauða þeirra, en Robert og Dave ræða það aldrei. Þetta kraumar bara undir niðri. Það er líka alveg ljóst að Dave mun aldrei virkilega lenda í vandræðum, því pabbi hans er svo djöfulli ríkur. T.d. er pabbinn varaður við áður en skólinn byrjar að leita að dópi í fórum nemenda, svo að Dave getur falið dópið sitt betur. Dave minnir mig um það sem maður hefur heyrt um skólagöngu George W.: ofdekraður pabbastrákur sem kemst upp með allt.
Robert er fenginn til þess að gera minningarmynd um tvíburasysturnar, og gerir hana mjög raunverulega, með skrítnum klippingum og engri tónlist. Rektor er hneykslaður, segist aldrei hafa séð annan eins skít (uppbyggileg gagnrýni?) og fær aðra nemendur til þess að endurklippa myndina (þetta fannst mér líklegast fyndnasta atriði myndarinnar). Í lokin sjáum við nýju útgáfuna, og hún er falskari en allt.
Ég fann engin screenshot úr myndinni, en hér eru aðalleikararnir þrír. Þau leika Robert, Amy (stelpuna sem Robert er hrifinn af) og Dave.

laugardagur, 27. september 2008

RIFF: Dagur 3

Í dag fór ég á fyrirlestur óskarsverðlaunahafans John Zaritsky um forvinnslu heimildamynda. Í kvöld ætla ég svo á Skelfilega hamingjusamur og miðnætursýninguna (Löng helgi).

John Zaritsky
Þetta var áhugaverður og lærdómsríkur fyrirlestur. Skrifa meira um hann seinna.
Ég verð að játa að ég er frekar fúll að ekkert ykkar skyldi hafa látið sjá sig. Hvar voru allir? Það er ekki á hverjum degi sem maður getur fengið leiðsögn frá óskarsverðlaunahafa...
Ég vona að ég sjái ykkur á "Eftirmiðdegi með Costa-Gavras" á morgun kl. 13 (ókeypis inn). Ég mæli líka með því að þið farið á fyrirlestur Yung Chang um framleiðslu heimildamynda í Norræna húsinu á þriðjudag kl. 14. Ég kemst því miður ekki þá, þannig að það væri mjög gott ef einhver færi og gæti sagt okkur frá þessu.
Ég minni á að allir eiga að fara á a.m.k. einn viðburð - það þýðir fyrirlestur, pallborðsumræða, námskeið, Grettir kabarett eða eitthvað álíka. Bílabíó eða annað sem felst bara í því að horfa bíómynd telst ekki með.

Frygtelig lykkelig eða Skelfilega hamingjusamur
Þetta var nokkuð fín mynd. Hún var samt ekki sýnd af filmu, sem fer alltaf nett í taugarnar á mér. Hún var sýnd af digibetu, sem eru ekkert mikið betri gæði en bara DVD, auk þess sem það var eitthvað suð í hátölurunum alla myndina (fyrir þá sem hafa farið í Regnbogann seinustu daga, þá er þetta sama suðið og er alltaf áður en myndirnar hefjast, nema hvað það hélt áfram alla myndina). Þar að auki nýttist tjaldið ekki allt, heldur var myndin í letterboxi á miðjum skjánum. Þá vil ég frekar filmu.
Fyrir þá sem sáu Kunsten at græde i kor á hátíðinni í fyrra, þá er þessi mynd gerð eftir skáldsögu sama rithöfundar, og er að mörgu leyti svolítið svipuð. Þetta er í grunninn gamanmynd en hún tekur á mjög alvarlegum málefnum (t.d. heimilisofbeldi). Ég myndi segja að þessi sé ekki alveg eins fyndin og Kunsten at græde, en á móti kemur að maður fær ekki eins mikið samviskubit yfir því að hlæja á henni.
Aðalpersóna myndarinnar er lögregluþjónninn Robert sem fékk taugaáfall heima í Kaupmannahöfn og er sendur til Suður-Jótlands í nokkurs konar refsingarskyni. Bærinn sem hann er sendur til er frekar skrýtinn og bæjarbúar eru ekki beint hrifnir af aðkomufólki, það er ákveðin hefð fyrir því að aðkomumenn séu látnir hverfa í mýrina af minnsta tilefni.
Sem sagt, nokkuð góð svört dönsk kómedía. Maður ætti ekki að þurfa að segja meira.

Long Weekend og Violence in the Cinema, Part 1
Miðnætursýningin.
Long Weekend er hryllingsmynd/thriller um par sem fer í útileigu sem endar sem barátta við náttúruna upp á líf og dauða. Eða svo virðist í fyrstu. Tagline-ið er í þessum anda: "Their crime was against nature...Nature found them guilty." Þegar nánar er að gáð er það eiginlega þeirra eigin ótti sem skapar mestu hættuna, þó svo að náttúran hagi sér á köflum helst til furðulega. Þetta er púra B-mynd, og brjóst og blóð koma títt við sögu eins og á að vera í góðum exploitation myndum. Helsti gallinn er kannski sá að það er engin persóna í myndinni sem manni líkar við. Megnið af myndinni er parið eina fólkið sem sést, og þau eru bæði alveg óþolandi. Vissulega er þetta hluti af myndinni: maður hlakkar til að sjá þau deyja einhverjum hræðilegum dauðdaga, og miðað við kvikmyndategundina þá býst maður við að manni verði að ósk sinni. Hins vegar hlýtur að teljast varhugavert að gera myndir þar sem áhorfandinn getur ekki samsamað sig neinni persónu...
Violence in the Cinema, part 1 er bráðskemmtileg stuttmynd. Í byrjun virðist þetta vera ýkt alvarleg (og frekar klunnaleg) fræðimynd um ofbeldi í kvikmyndum og sálfræðilegar og heimspekilegar vangaveltur því tengt. Þangað til maður með haglabyssu brýst inn í herbergið og skýtur hálfan hausinn af "sérfræðingnum" þ.e.a.s. Eftir það er manni ljóst að þetta er verulega súr sýnikennsla í kvikmyndaofbeldi, og ágæt sem slík.

RIFF: Dagur 2

Í gær fór ég á tvær myndir, Öxina og Fuglasöng.

Le couperet eða Öxin
Djöfulli góð mynd. Kolsvört kómedía um efnafræðinginn Bruno Davert sem missir vinnuna. Eftir tveggja ára atvinnuleysi grípur hann til örþrifaráða: hann ákveður að drepa manninn í draumastarfinu sínu, en fyrst að drepa hugsanlega keppinauta um stöðuna.
Í dagskrárbæklingnum er leikstjóranum, Constantin Costa-Gavras, sem einnig er sérstakur gestur hátíðarinnar, lýst sem pólitískasta leikstjóra kvikmyndasögunnar. Þetta er önnur myndin sem ég sé eftir hann (sá Z fyrir nokkrum árum, hún er æðisgengin pólitísk ádeila) og ég er ekki frá því að þessi lýsing sé nokkuð nærri sannleikanum. Costa-Gavras verður með fyrirlestur á háskólatorgi HÍ á morgun (sunnudag) kl. 13, og hvet ég sem flesta til þess að mæta (þetta er ókeypis viðburður!).
Myndin er mjög vel gerð. Sagan byrjar in medias res (í miðjum klíðum) og við kynnumst forsögunni í gegnum játningu aðalpersónunnar. Annars er fátt hægt að segja um söguþráðinn án þess að eyðileggja myndina. Látum nægja að segja að söguhetjan drepi nokkra keppinauta sína...
Myndin er hápólitísk ádeila á túrbó-kapítalisma (eins og hann er nefndur í myndinni). Fyrirtæki sameinast, endurskipuleggjast og flytjast til annarra landa til þess að hagnast um nokkur aukaprósent og til þess að geta greitt út arð til hluthafanna, en um leið og þau flytja alla starfsemi sína úr landi eyðileggja þau efnahag heimalandsins og að lokum hlýtur að fara svo að markaðurinn fyrir vörur fyrirtækisins hrynur með efnahagnum og þá er flutningurinn og endurskipulagningin til lítils. Eða það eru a.m.k. skilaboð myndarinnar.
Bruno er ekki illmenni (enda myndi það grafa undan ádeilu myndarinnar). Hann er góður maður sem fullur örvæntingar gripur til örþrifaráða við aðstæður sem leyfa ekkert annað - hann er afurð þeirra aðstæðna sem myndin gagnrýnir. Eins og hann segir sjálfur, þá hefði hann glaður frekar drepið hluthafa eða stjórnir fyrirtækjanna, enda eru það hinir seku, en það hefði ekki gert neitt gagn, hvorki fyrir hann né samfélagið. Hann veit að fórnarlömb sín eru samherjar sínir, fólk í sömu stöðu og hann sjálfur, menn sem voru "bræður" hans áður en hann varð atvinnulaus. En atvinnuleysið, það hvernig stórfyrirtækin fara með þá, gerir þá að óvinum - keppinautum, og það er ein stærsta gagnrýni myndarinnar: alþjóðavæðing, heimskapítalismi og atvinnuleysi hefur tortímt samstöðu verkalýðsins - nú er það "every man for himself". Munurinn á fjöldamorðingjanum Bruno og hinum er sá að Bruno fékk hugmyndina fyrst...
Bruno (snýr baki í okkur) og Gerard, annar efnafræðingur sem er búinn að vera atvinnulaus í 5 ár, vinnur nú í herrafatabúð og fer að skæla þegar hann segir Bruno sögu sína.

El Cant Dels Ocells eða Fuglasöngur
Sorp. Sori. Það er langt síðan ég hef séð jafn vonda mynd. 2/3 hlutar áhorfenda voru farnir út eftir hálftíma, enda var myndin alveg vonlaus. Löng, pointless skot. Lítil, ósamhangandi og oft óskiljanleg samtöl. Tökum dæmi um tvö skot sem voru dæmigerð fyrir myndina:
  1. Við erum stödd í eyðimörk. Í svart-hvítu. Sem þýðir að það er ekki mikið af upplýsingum í rammanum. Við sjáum fullt af ljósgráum sandi og í fjarska ljósgráan sjóndeildarhring. Í upphafi skotsins eru vitringarnir þrír sæmilega nálægt myndavélinni, og ganga í átt frá myndavélinni. Þessu skoti er haldið þangað til vitringarnir þrír nánast hverfa í fjarska, án þess að myndavélin hreyfist einn millimeter (og þeir fara ekki hratt yfir!). Þá er klippt yfir á...
  2. Eyðimörk. Eiginlega alveg eins og í 1). Nema hvað núna nálgast vitringarnir úr fjarska. Þessu skoti er haldið þangað til þeir eru komnir nokkuð nálægt myndavélinni.
Þessi tvö skot voru a.m.k. 5 mínútur, líklegast lengur. Og þó svo að þetta hafi ef til vill verið lengstu og tilgangslausustu skot myndarinnar, þá voru þau alls ekki einhver undantekning frá því hvernig myndin var í heild. Það voru MÖRG skot þar sem við fylgjumst með vitringunum annað hvort hverfa í fjarska eða koma úr fjarska.
Í lýsingunni í dagskránni stendur: "Vegferð vitringanna er vörðuð háfleygum og skondnum samtölum, sem og viðkomu yfirnáttúrulegra vera [og] áherslan er á ævintýrið fram yfir raunsæið." Það er nákvæmlega eitt "háfleygt og skondið" samtal í myndinni, og það kemur þegar rúmur klukkutími er liðinn, og þá var ég einfaldlega búinn að gefast upp. Eftir að hafa lesið lýsinguna bjóst ég við einhvers konar biblíu-útgáfu af Rosenkrantz and Guildenstern Are Dead, en ég held að mér sé óhætt að segja að þessi mynd hafi verið talsvert langt frá því að uppfylla þær væntingar.
Þessi mynd er mannskemmandi sorp. Ég trúi því ekki að hún hafi verið valin á hátíðina nema vegna þess að hún er að hluta til tekin á Íslandi. Getur einhver haft gaman of svona rusli?

föstudagur, 26. september 2008

Riff: Dagur 1

Í kvöld fór ég á þrjár myndir: Lønsj, O'Horten og Landsbyggðarkennarann.

Lønsj eða Kalt borð
Slöpp mynd. Uppbyggingin var stirð með sífelldum óþörfum kaflaskilum (held það hafi verið 6 kaflar...), persónurnar voru flestar temmilega óáhugaverðar og tónlistarvalið var með því klisjukenndara sem ég hef upplifað.
Christer og vestið, áður en mávurinn kemst í það...
Myndin fjallar um nokkrar nánast ótengdar persónur. Eftir að mávur skítur á vestið hans, laumast auminginn Christer inn í þvottahús nágranna sinna til þess að þvo vestið, en hann gleymir öllum peningunum sínum í vestinu og í panikki slær hann út rafmagnið í öllu húsinu til þess að ná peningunum úr vélinni. Þetta myndar svo tenginguna við hinar persónurnar sem verða allar einhvern vegin fyrir áhrifum frá þessu.
Þetta er sem sagt svona hópsaga, þar sem við fylgjumst með nokkrum mismunandi persónum, nema hvað í þessari mynd er engin þeirra nógu vel gerð: við vitum nánast ekkert um persónurnar, og það sem verra er, okkur langar ekki til þess að vita neitt. Ég fékk líka á tilfinninguna að það vantaði eitthvað upp á persónurnar, ekki bara þann hluta sem við fáum að vita um (það vantaði heilmikið þar), heldur bara almennt. Tökum eina persónu sem dæmi, pabbastelpu sem missir pabba sinn af því að hann var að fikta í rafmagninu þegar það var sett aftur á (eftir að Christer hafði tekið það af), og í framhaldi af því missir hún líka heimili sitt. Það er gefið sterklega í skyn að hún hafi varla farið út úr húsi árum ef ekki áratugum saman (ég hélt um stund að hún yrði aðalpersónan, svona "Fritzl set free" dæmi). En síðan kemur sena þar sem hún fer niður á strönd (það var draumur hennar á meðan á "vistinni" stóð), og þá fer hún beint út í sjó að synda. Hvenær átti hún að hafa synt síðast? Átti hún að hafa synt áður?
"Ég ætlaði bara að kaupa sundföt. Ég vissi ekki að það myndi verða um svona margt að velja."

O'Horten
Önnur norska myndin sem ég fór á í kvöld, og miklu, miklu betri en hin. Eftir að hafa séð Salmer fra kjøkkenet eftir sama leikstjóra, þá bjóst ég við góðri mynd, og varð að ósk minni.
Odd Horten er lestarstjóri á leið á eftirlaun. Síðustu 40 árin hefur hann lifað fyrir starfið, og spurrningin er hvort eða hvernig hann fúnkerar ef það er ekki til staðar. Myndin er uppfull af kímni, grátbroslegum og oft beinlínis fyndnum uppákomum, en er samt trúverðug, hún dettur aldrei niður í farsa heldur trúum við alltaf á persónurnar. Í alla staði bráðskemmtileg mynd. Þetta er sú tegund af gamanmynd sem elskar persónurnar sínar og nýtur þess að sýna okkur sérvisku þeirra á hlýlegan hátt.
Kveðjuteiti Odds Hortens. Þið ættuð bara að sjá kveðjuna sem þessi fríði hópur sendir honum...

Venkovský ucitel eða Landsbyggðarkennari
Aðalpersónan er líffræðikennari sem er haldinn voðalegri sektarkennd yfir því að vera hommi. Að því er virðist vegna þessarar sektarkenndar yfirgefur hann virtan menntaskóla í Prag (þar sem mamma hans kennir líka líffræði) og hefur kennslu í litlum sveitaskóla. Það gengur ekki betur en svo að hann verður skotinn í einum nemanda sínum, og mamma nemandans verður skotin í honum.
Þetta er ágæt mynd á köflum, en ekki mikið meira en það. Hún er að mestu vel leikin, þó svo að fyrrverandi kærasti kennarans hafi verið alveg hræðilegur. Síðan er líka alltaf hættulegt að gera myndir þar sem aðalpersónan er passífur auli, sem kennarinn vissulega er í þessari mynd - maður finnur ekkert voðalega til með honum og það skapast ekki mikill drifkraftur út frá persónunni. Svo fannst mér hápunktur myndarinnar soldið falskur (ég segi ekki meir, það gæti eyðilagt myndina fyrir einhverjum). Það eru samt skemmtileg augnablik í myndinni, og hún virkar alveg.
Getur verið að þessar sérmerkingar á "hinsegin" myndum í dagskránni fæli einhverja frá? Það voru a.m.k. afskaplega fáir á þessari mynd (í sal 1 í Regnboganum). Dæmi hver fyrir sig.

sunnudagur, 21. september 2008

Dagskrá 5. viku, 22.-26. sept

Mánudagur 8.10-9.35
Myndataka

Miðvikudagur 8.55-9.35
Myndataka frh.

Föstudagur 14.55-17.00
Bíómynd. To be decided...
Hvernig væri að gera Reykjavík-Rotterdam að mynd þessarar viku? Við gætum farið á hana sunnudaginn 5. okt og hugsanlega fengið Óskar Jónasson í heimsókn miðvikudaginn á eftir.

mánudagur, 15. september 2008

Sveitabrúðkaup og heimsókn Valdísar

Ég vildi óska að ég hefði náð að skrifa þessa færslu áður en ég las færsluna hans Magga um sama efni, því eftir að hafa lesið rúmlega 3000 orða ópus hans þá spyr maður sig hvort eitthvað sé eftir til þess að tala um. En ég ætla að láta slag standa og jafnvel að leyfa mér að koma inn á sum sömu atriðin og Maggi.

Sveitabrúðkaup
Mér fannst þetta ósköp fín mynd, á köflum bráðskemmtileg og léttleikandi út í gegn. Þetta er ekkert ógleymanlegt meistaraverk, en hún ætlar sér það heldur ekki, og tekst vel það sem hún ætlar sér. Leikurinn er almennt séð mjög góður, samtölin eru nokkurn vegin eðlileg og á köflum mjög hnyttin. Myndatakan er í einhvers konar dogma shaky-cam stíl, myndavélar handheldar og virðast oft eiga í fullu fangi með að halda persónum innan ramma. Þetta býr til svolítinn raunveruleikablæ yfir þessu öllu. Hvað sem öðru líður þá skemmti ég mér ágætlega yfir myndinni.

Valdís
Þó svo að myndin hafi verið fín þá skildi hún ekkert rosalega mikið eftir sig (og þó, það eru rúmar tvær vikur síðan ég sá hana). Hins vegar er vinnsla myndarinnar allsérstök, og í raun meira hægt að segja um hana en myndina sjálfa. Og þar er heimsókn leikstjórans auðvitað skemmtileg viðbót.
Valdís sagði margt áhugavert, en ég ætla að fókúsera á það sem hún sagði um vinnslu myndarinnar. Að mörgu leyti minnir öll vinnan í kringum myndina mig á leiklistaræfingu, og raunar virðist öll nálgun Valdísar vera að gefa listamönnunum frjálsan tauminn. Myndin er að miklu leyti spunnin út frá ramma sem Valdís var búin að skrifa. Þannig vita leikararnir nokkurn vegin hvað á að koma fram í senunni en ákveða sjálfir hvernig það kemur fram. Svo eftir að senan er tekin voru leikarar, myndatökumenn og hljóðmenn spurðir hvort takan hefði verið þeim að skapi.
Það sem mér fannst einna skemmtilegast er að leikararnir vissu yfirleitt ekki meira en persónan þeirra vissi. Þannig fékk hver leikari leyndarmál áður en tökur hófust, sem hann einn vissi (eða hann og ein önnur persóna). T.d. vissi enginn annar en Árni Pétur að persóna Víkings væri ekki sálfræðingur. Meira að segja eftir að það hefur komið fram í 2-3 senum þeirra á milli, þá veit það samt enginn annar, enda voru leikararnir ekki viðstaddir tökur á öðrum senum en sínum eigin.
Mér fannst líka skemmtileg nálgun að láta leikarana búa til baksögu fyrir persónuna sína, og skemmtileg tilhugsun hvernig gengið hefur að samræma þessar baksögur - ef Ágústa Eva vildi vera frá Egilstöðum en Kristbjörg Kjeld (mamma hennar) og Björn Hlynur (bróðir hennar) vildu bæði vera Reykvíkingar í húð og hár (eins og var víst raunin), hvernig ætli það hafi verið leyst? Með lýðræðislegri kosningu?
Það er eiginlega algjört afrek að þessi mynd skuli hafa verið tekin á 7 dögum, og það hlýtur að hafa sparað mikinn pening að tökur standi svona stutt yfir (skrýtið að enginn skuli hafa spurt hvað myndin kostaði, það hefði verið spurning nr. 1 eða 2 í hópnum í fyrra - ekki það að þetta sé mjög spennandi spurning). Það voru alltaf 2-4 myndavélar í gangi, tvær fyrir flestar senurnar, fjórar í stærri senunum og stundum var verið að taka tvær senur á sama tíma. Þannig að það ætti kannski ekki að koma á óvart þótt tökur hafi gengið hratt.
En í staðinn varð klippivinnan meiri en ella. Þegar tökum lauk hafði Valdís rúmlega 100 klst. af efni til þess að vinna úr, misvel merkt og ekkert sérstaklega vel skipulagt. Eins og Valdís orðaði það, þá hefði enginn annar klippari getað klippt þetta. Klippingin tók 8 mánuði.
Þrátt fyrir gríðarlanga setu í klippiherberginu og erfiða fjármögnun virðist Valdís spennt fyrir að vinna annað álíka verkefni með Vesturporti. Hún gaf a.m.k. í skyn að viðræður væru í gangi um annað verkefni. Hún talaði þó um að ef til þess kæmi, þá myndi hún líkast til spinna minna og notast við fullbúið handrit, ekki vegna þess að henni þætti það betra, heldur vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að fá styrk hjá Kvikmyndamiðstöðinni.

sunnudagur, 14. september 2008

Dagskrá 4. viku, 15.-19.sept

Mánudagur 8.10-9.35
Klippitölvan kynnt til sögunnar. Klippiæfingin kynnt.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Haldið áfram með kynningu á klippitölvunni og henni lokið. Fyrsti hópurinn fær tölvuna.
Þeir sem ætla að kaupa passa á RIFF mæta með 4000kr.

Föstudagur 14.55-16.50
Citizen Kane í leikstjórn Orson Welles

fimmtudagur, 11. september 2008

Upplýsingar um Mínus25 dagskrána á RIFF

Ég fékk einhverjar smá upplýsingar um opnu námskeiðin á Mínus25 á RIFF.

Mínus25
"
Mínus25 er sérstakur liður Alþjóðlegrar Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem er tileinkaður ungu fólki frá 5-25 ára. RIFF hefur unnið markvist að því á undanförnum árum að vera meira en bara kvikmyndahátíð og lagt mikla áherslu á að skapa þekkingarsmiðju í kringum hátíðina. Markmið mínus25 er að veita ungu fólki skemmtun, þekkingu og reynslu í kvikmyndaheiminum og vekja þannig áhuga á kvikmyndaforminu hjá þessum aldurshóp."

Opnu námskeiðin
"
Við verðum með dagskrá í Hinu Húsinu og Norræna húsinu fyrir ungt fólk . Í Hinu Húsinu verður hægt að fá ókeypis einkakennslu í Pro Tools hljóðupptökuforritnu og svo verður boðið uppá opið námskeið í stuttmyndagerð. Skráning og frekari upplýsingar er hægt að fá í Hinu Húsinu. Í Norræna húsinu verða sýndar bíómyndir og þar verður myndver fullt af leikmunum frá þjóðleikhúsinu þar sem fólk getur komið og tekið upp en eftir hádegi verða þar sjálfboðaliðar með myndavélar og tölvur og aðstoða fólk sem að vill fá að prófa."

Mér finnst þetta hljóma soldið spennandi, og ég held að þið gætuð hiklaust haft gagn og gaman af þessu. Ég fæ væntanlega frekari upplýsingar um þetta á næstu dögum.

miðvikudagur, 10. september 2008

Upplýsingar um Gretti Kabarett

Ég var að fá í hendurnar upplýsingar um Gretti Kabarett. Eftir því sem ég best fæ séð þá láta þeir ykkur fá tæki og tól. Og það er ekki þannig að þið skráið ykkur sem hópur, heldur mætið þið á staðinn og svo veit ég ekki alveg hvernig er raðað í hópa. Þannig getið þið kynnst og lært af erlendu kvikmyndagerðarfólki. Einnig getið þið öðlast reynslu í notkun tækja sem ég get ekki veitt ykkur aðgang að, t.d. pro ljósabúnaður. Ég get heldur ekki séð að þetta kosti nokkuð. Ef þið smellið á myndirnar sjáið þið tilkynningar um Gretti frá því í fyrra.
Hér koma svo upplýsingar um Gretti 2008:
Everyone is welcome.
Grettir Kabarett invites one and all to create and collaborate with artists from different parts of the world.
The briefing takes place at Café Hressó, Saturday, Sept. 27th at 9pm.
The first Kabarett begins Sunday, Sept. 28th at 9am. (screening at 9pm on the 30th).
The second Kabarett begins Wednesday, Oct. 1st at 9am (screening at 9pm on the 3rd).
The third Kabarett begins Saturday, Oct. 4th at 9am (screening at 9pm on the 6th).
Screenings take place at Grand Rokk.

Sem sagt, allt sem þið þurfið að gera er að mæta á Hressó kl. 9 á laugardaginn 27. september, og þá getið þið tekið þátt í Gretti Kabarett. Ég yrði rosalega ánægður ef þáttakan hjá okkur verður góð, og mæli eindregið með að þið takið þátt, mig grunar að þetta gæti verið alveg sérlega skemmtileg og dýrmæt reynsla.

þriðjudagur, 9. september 2008

Eruð þið farin að hlakka til RIFF?

Ég er farinn að hlakka til, og kvíða pínu fyrir (þetta var rosa keyrsla í fyrra, þegar ég fór á 25 myndir á 11 dögum).
Hér á eftir koma nokkrir punktar til þess að hefja upphitun fyrir hátíðina:
  • Það er komin dagskrá í einum flokknum, "Fyrir opnu hafi", og strax eru nokkrar sem mér líst vel á (ég ætla t.d. alveg örugglega á My Winnipeg eftir Guy Maddin).
  • Ég er ennþá að bíða eftir upplýsingum um "opin námskeið" sem þeir auglýsa á síðunni, en þau eiga víst að vera stíluð á 25 ára og yngri, og ef einhver þeirra virðast gagnleg, þá gæti ég tekið upp á því að senda ykkur á þau. Hins vegar eru þeir byrjaðir að auglýsa Soundtrack keppni, sem felst í því að semja tónlist við 5-10 mínútna búta úr The Crowd (1928) eftir King Vidor. Þetta gæti verið skemmtileg æfing fyrir þau ykkar sem eru tónlistarlega sinnuð. Skráningarfrestur er til 15. september.
  • Grettir kabarett, 48klst. stuttmyndakeppni verður haldin í tengslum við hátíðina. Þá fáið þið 48 tíma til þess að taka og klippa stuttmynd. Það væri ansi gaman að geta sent lið í keppnina í ár. Endilega pælið í því.
  • Jim Emerson, einn besti kvikmyndabloggarinn sem ég veit um, er núna á TIFF (Toronto International Film Festival) og það er ansi gaman að fylgjast með því sem hann skrifar þaðan. Í fyrsta lagi getur maður fengið hint um sumar myndanna sem verða á RIFF, og svo getur maður líka fengið smjörþefinn af stemningunni á svona hátíð (þótt TIFF sé auðvitað margfalt stærri, og gæti hugsanlega verið besta kvikmyndahátíð í heimi). Emerson skrifar til dæmis mjög skemmtilega grein um þann valkvíða sem fylgir því að sækja kvikmyndahátíð þar sem maður getur aldrei séð nema í mesta lagi 1/6 af því sem er í boði, og þurfa að velja á milli mynda sem maður veit í raun ekkert um. Og ekki nóg með það, heldur vill maður ekki vita of mikið um myndirnar, enda myndi hátíðarbröltið þá glata sjarma sínum:
    "But it is possible to overthink a festival. I believe it was travel guru Rick Steves who offered the wisest of maxims for experiencing just about everything in life, something along the lines of "Don't be afraid to get lost." You have to be willing to take some chances, pursue hunches, take advantage of coincidental encounters and connections when they arise, and just... improvise. Arbitrary and capricious decisions are to be encouraged at film festivals."
Jæja, ef þið eruð jafn mikil bíónörd og ég, þá eruð þið núna komin með vatn í munninn af tilhugsuninni um RIFF. Miðasala hefst í næstu viku. Mér skilst að kvikmyndadeild Skólafélagsins sé að reyna að ná fram einhverjum kostakjörum fyrir MR-inga - það kemur í ljós hvernig það gengur. Annars hafa nemendur í kvikmyndagerð yfirleitt keypt sér klippikort og skipt þeim á milli sín, þannig má fara á nokkrar myndir fyrir viðráðanlegar fjárhæðir.

NEWSFLASH!!
Ég hafði samband við Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda hátíðarinnar, og hún ætlar að gefa okkur afslátt af pössunum, þ.a. við fáum passana á 4000kr. (þeir kostuðu 6000kr. í fyrra, ég veit ekki hvert verðið verður núna), og auk þess ættum við að fá afslátt á aðra viðburði hátíðarinnar. Ég mæli eindregið með því að fáið ykkur passa. Þessi hátíð er u.þ.b. tíu sinnum betri en Shorts & Docs, umgjörðin er glæsilegri, sýningarnar eru fagmannlegri og stemningin er allt önnur og betri. Í fyrra voru talsvert margar sýningar þar sem var fullt út úr dyrum. Og næstum allar myndirnar eru sýndar af filmu, sem er svoleiðis margfalt betra og skemmtilegra en digibeta spólurnar sem réðu ríkjum á Shorts & Docs. Í fyrra voru sýndar ca. 80 myndir á 11 dögum, og auk þess voru þó nokkrir spennandi viðburðir. Ég náði að sjá 25 myndir og fara á 5 viðburði, og það var hellingur sem ég sá eftir að hafa misst af. Þetta var u.þ.b. dagskráin hjá mér í fyrra:

sunnudagur, 7. september 2008

Dagskrá næstu viku (8.-12. sept)

Vegna þess að síðasti hópurinn tekur myndina sína á mánudag, og vegna þess að Valdís Óskarsdóttir kemur í heimsókn seinnipartinn á föstudag, varð ég að hringla aðeins með dagskrána. Þannig horfum við á mynd vikunnar í mánudagstímanum, og stuttmyndirnar verða ekki sýndar fyrr en á miðvikudag (annars hefðum við ekki getað horft á mynd síðasta hópsins fyrr en seint og um síðir).

Mánudagur 8.10-9.35

Horfum á mynd vikunnar, The General, eftir/með Buster Keaton.
Miðvikudagur 8.10-9.35
Horfum á stuttmyndirnar ykkar. Vonandi verð ég kominn með allar spólurnar, en ef ekki, þá er mjög mikilvægt að þeir sem eru með spólurnar mæti.

Föstudagur 14.55-16.00
Valdís Óskarsdóttir kemur í heimsókn.
Það er algjört lykilatriði að allir séu búnir að sjá Sveitabrúðkaup fyrir þennan tíma. Þar að auki eiga allir að vera tilbúnir með a.m.k. 2-3 spurningar um myndina eða eitthvað annað tengt Valdísi.

sunnudagur, 31. ágúst 2008

Nokkur atriði til þess að hafa í huga fyrir stuttmyndamaraþonið

1. Myndavélin er ekki vatnsheld og hljóðneminn virkar illa í roki. Hafið þetta í huga í undirbúningnum, því það væri vægast sagt óviturlegt að ætla að treyst á íslenskt veðurfar þegar maður hefur bara 24klst. til þess að taka upp.
2. Athugið hvort þið hafið fengið allar græjurnar um leið þið takið við myndavélinni, og athugið hvort allar græjurnar séu til staðar þegar þið látið næsta hóp fá myndavélina. Það verður listi í töskunni.
3. Athugið hleðsluna á rafhlöðunum um leið og þið fáið myndavélina, og setjið í hleðslu ef þörf krefur. Það er góð vinnuregla að vera alltaf með aðra rafhlöðuna í hleðslu.
4. Ef það koma svartar rendur á vídjóið á spólunni þá verðið þið að þrífa myndhausinn. Það er hreinsispóla í pokanum. Setjið hana í, stillið vélina á VCR og setjið á play í 5 sekúndur. Þetta getið þið gert nokkrum sinnum, en ALDREI hafa á play í meira en 5 sekúndur í einu.
5. Það eru tvær stillingar til þess að taka upp í widescreen, "Letterbox" og "Squeeze" (ýtið á Menu, Camera Setup og Aspect Conv.). Ef þið viljið taka upp í widescreen í þessu verkefni skulið þið nota "Letterbox". Í seinni verkefnum væri betra að nota "Squeeze".
6. Minni á "Rec check" takkann (fyrir ofan rec takkann). Hann getur verið þægilegur í þessu verkefni, en hann spilar seinustu 6 sekúndurnar á spólunni.
7. Það er mikilvægt að annað hvort myndatökumaður eða hljóðmaður séu með heyrnartól til þess að heyra hvernig hljóðið kemur út.

Ég er örugglega að gleyma einhverju...